Íþrótta- og fjölskyldudagur Hamars og Hveragerðisbæjar verður haldinn föstudaginn, 1. febrúar n.k. frá kl. 16.30-18.30, í Hamarshöllinni. Finnum íþróttaföt fjölskyldunnar og skemmtum okkur saman. Sjá nánar.
Hamarsdrengir lutu lægra haldi fyrir Haukum í Hafnarfirði í gær 101-95 þar sem arfaslök byrjun segir allt sem segja þarf. Haukar leiddu 30-8 eftir 1.leikhluta og púðrið fór svo í að minnka muninn allan tímann og varð munurinn minnstur 6 stig (lokastaðan). Sérfræðingum ber ekki alveg saman um hvort liðið er með betri innbirgðis úrslit en Hamar vann hér heima í fyrri umferð, einnig með 6 stigum (82-76) þannig að jafnara getur þetta ekki orðið. Haukar tóku 2.sætið af okkur í kjölfarið með 16 stig en Hamar á þó leik til góða gegn Þór Akureyri og er með 14 stig í 3ja sæti.
Stigahæstir hjá okkur voru þeir Hollis með 29 stig, Þorsteinn Már með 24, Halldór Gunnar með 16 stig en aðrir minna. Nánari tölfræði úr leiknum hér.
Hamars stúlkur skutust í Borgarnes í gær og gerðu góða ferð þar sem þær hristu af sér rikið frá Valsleiknum og unnu heimastúlkur 61-79. Þrátt fyrir slaka byrjun Hamars og góða byrjun Skallagríms þá létu okkar stelpur ekki slá sig út af laginu. Skallagrímur komst í 9-0 og 15-6 en næstu 15 stig voru Hamars og eftir það ekki aftur snúið. Stelpurnar eru því með 20 stig eftir 10 leiki í deildinni.
Stigahæstar í Borgarnesi voru Marín með 20 stig, Dagný Lísa 17 stig og Íris 13 en alls skoruðu 8 leikmenn Hamars stigin 79 í gær.
Tvær ungar Hamars-stúlkur stunda nám í vetur í Bandaríkjunum og þar stunda þær einnig körfuboltann sem þær hafa lært af Daða, Sóley og fleiri þjálfurum okkar í gegnum yngri flokkana. Þær Jóna Guðrún Baldursdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir fóru sl. haust á vegum International Experienceskiptinemasamtakana á vit ævintýranna. Þær hafa staðið sig vel í körfunni og vakið athygli þarna ytra svo um er skrifað í staðarblöðunum.
Jóna Guðrún Baldursdóttir er í Mayville í Michigan ríki og spilar þar með skólaliðinu, aðalega sem framherji og gengur rosa vel. Jóna er stigahæst liðsfélaganna og þykir öflug á vinstri hendina. Þessi frammistaða rataði í Michigan Live staðar-fréttirnar og má lesa skemmtilega grein um hana og viðtal við hana og þjálfara liðsins hér.
Kristrún Rut var í viðtali hér fyrir jólin en hún er í Dumfries í Virgina þar sem hún spilar með skólaliðinu sínu Potomac Panters. Eftir henni er tekið á vellinum fyrir sína frammistöðu einnig og staðarblað í Dumfries setti inn smá grein um Kristrúnu Rut núna í byrjun árs (sjá hér).
International Experience samtökin hafa starfað í fjölda ára og eru með skiptinema í fjölmörgum löndum. Hinn geðþekki körfuboltafrömuður og KR-ingur Sigurður Hjörleifsson veitir samtökunum forstöðu hér á landi ef einhver myndi vilja upplifa ævintýri í öðru landi í 1 ár.
Elva Björg Elvarsdóttir er sundmaður ársins 2012 hjá sunddeild Hamars. Elva er frábær sundmaður sem við væntum mikils af í framtíðinni. Á árinu 2012 fór Elva að æfa mun meira en hún hafði gert fram að því og hefur bætt sig gríðarlega. Hún er frábær félagi og fyrirmynd. Jákvæð og getur náð langt ef hún heldur áfram á sömu braut. Við óskum Elvu Björgu innilega til hamingju með titilinn.
Það er ljóst að það verður heimaleikur gegn Gústa og Valskonum þann 25. eða 27.janúar nk. í 4-liða úrslitum Powerade bikarsins. Dregið var í dag í höfðustöðvum Coka-Cola á Íslandi en í hinni viðureigninni mætast Snæfell og Keflavík í Hólminum. Enn á eftir að fastsetja leiktíma!
Hér má sjá viðtal við Gústa Björgvins um leikinn en hann býst við skemmtilegum leik og fullu húsi!
Hamar var eina liðið úr 1.deild í pottinum og því “minna” liðið í þessum leik en óskin var að fá heimaleik og nú er bara að sjá hvað stelpurnar okkar gera gegn sterku liði Vals-kvenna. Okkar stuðningsmanna er að fjölmenna og styðja við bakið á þeim! Áfram Hamar!
Hamars strákar lágu fyrir skotglöðu lið i FSu á föstudaginn, 101-87 á Selfossi þar sem okkar menn sáu á eftir 2 stigum með slælegri byrjun. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 34-14 og ekki skal af FSu drengjum tekið að þeir hittu óhemju vel utan teigs, skoruðu í allt 17 3ja stiga og þegar á reyndi fékk Hollis 5. villu sína í 4. leikhluta og FSu silgdi sigrinum heim eins og áður sagði. Stig okkar settu Hollis 27/9 frák. Örn 26/8 frák. Þorsteinn Már 14, Oddur 10, Lárus 8 og Raggi 2.
Stelpurnar unnu svo á laugardaginn mikilvægan sigur á KFÍ sem er eina lið 1.deildar með útlending en það kom ekki að sök. Staðan eftir fyrstaleikhluta var 15-19 fyrir gestina en Hamar var yfir í hálfleik 37-32. Hamar vann síðari hálfleikinn 39-25 og höfðu að lokum 19 stiga sigur, 76-57 þar sem fyrriliðinn Íris Ásgeirs fór fyrir sýnu liði með frábærum leik og setti ma. flautu þrist í lok 3ja leikhluta. Íris setti 22 stig/10 fráköst og stal 5 boltum, Marín var með 16 stig og 15 fráköst, Jenný setti 16 stig einnig og Dagný 15 stig og 9 fráköst. Katrín var með 4, Helga Vala 2 og Álfhildur setti 1 stig en tók 7 fráköst og var með 6 stoðsendingar.
Æfingatafla knattspyrnudeildar hefur verið birt og má sjá hana, ásamt helstu upplýsingum, hér að neðan.
Hér að neðan eru svo tenglar inn á Facebooksíður flokka knattspyrnudeildarinnar sem notaðar eru fyrir tilkynningar og fréttir. Iðkendur, foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að skrá sig þar inn til að fá nýjustu upplýsingar um starf hvers flokks hverju sinni.
Ef smellt er á viðkomandi flokk, þá flyst þú inn á síðu hans.
8. flokkur
7. og 6. flokkur
5. flokkur
4. og 3. flokkur
Kvennaflokkar
Þá eru þjálfara yngri flokka með síðu með myndum, æfingum, myndböndum og öðru gagnlegu og fræðandi efni sem má sjá HÉR