Kvennalið Hamars mátti sín lítils gegn úrvalsdeildarliði Vals í Powerade-bikarnum í körfubolta en nokkuð stórt tap skyggði ekki á gleðina og baráttuna hjá heimamönnum sem voru á köflum mjög óheppnar með skot sín. Valsliðið mætti mjög vel stemmt til leiks og kláraði leikinn í fyrri hálfleik vel stutt af fyrirmyndar fylgdarsveit. Kannski of stórt tap gegn úrvalsdeildarliði í Hveragerði í kvöld, 39-86 en engu að síður sanngjarnt og Valskonur komnar í bikarúrslitin í fyrsta skipti í þeirra sögu.
 
Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 16 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoruðu 5, Dagný Lísa Davíðsdóttir 4, Helga Vala Ingvarsdóttir 3 og þær Rannveig Reynisdóttir, Jenný Harðardóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoruðu allar 2 stig en Álfhildur var með 9 fráköst að auki.
 
Þrír fyrrum leikmenn Hamars voru stigahæstir í liði Vals; Guðbjörg Sverrisdóttir með 16 stig, Jaleesa Butler með 15 og Kristrún Sigurjónsdóttir með 13 stig.
 
Á að giska var um 300 til 350 manns á leiknum, Lárus Ingi grillaði ofan í gesti og nokkuð var gert til að hafa umgjörðina góða. Okkar stúlkur vilja eflaust grafa þennan leik sem fyrst þar sem útileikur bíður í Borgarnesi og ekki má slaka á í baráttunni um að endurheimta sæti meðal þeirra bestu aftur. Valskonur geta í rólegheitum fylgst með viðureign Snæfells og Keflavíkur í hinum undanúrslitaleiknum og sjá hver andstæðingurinn verður í úrslitum Powerade bikarsins.