Inngangur

Íþróttafélagið Hamar hefur nú verið án Hamarshallarinnar síðan í febrúar á þessu ári. Síðan þá hefur Íþróttafélagið Hamar unnið með bæjaryfirvöldum að því verkefni að sambærileg aðstaða eða betri yrði komið á legg eins fljótt og auðið er, því við erum í kapphlaupi við tímann ef við ætlum ekki að sjá fram á stórlega skaðað íþróttastarf í Hveragerði næstu árin. 

Það er samfélagsleg ábyrgð okkar, Hamars og Hveragerðisbæjar, að halda uppi íþróttastarfi fyrir bæjarbúa og hjá Íþróttafélaginu Hamri starfa hundruðir sjálfboðaliða sem hafa lagt sitt af mörkum til að svo sé í dag. 

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir lýðheilsu íbúa Hveragerðis að við fáum upp viðunandi aðstöðu sem fyrst, að uppbygging á íþróttaaðstöðu haldi áfram og verði bæjarfélaginu til sóma.  Hveragerði hefur lagt mikið upp úr að vera heilsueflandi samfélag en í dag er erfitt að halda uppi þeim stimpli þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar er tekin aftur um 10 ár með falli Hamarshallarinnar. Þannig verður staðan þangað til Hamarshöllin rís aftur og því lengur sem hún liggur niðri, því erfiðara verður fyrir okkur að koma starfinu á sama stall aftur. Margir hagsmunahópar sitja nú eftir með sárt ennið þar sem Hamarshöllin þjónustaði mjög fjölbreyttan hóp á öllum aldri en auk Íþróttafélagsins Hamars var aðstaða fyrir golfiðkun, gönguhópa, eldri borgara auk þess sem ýmsir viðburðir skiluðu tekjum fyrir deildir Hamars og aðra í okkar nærumhverfi. 

Íþróttafélagið Hamar á sér langa sögu í okkar samfélagi en félagið fagnar 30 ára afmæli á þessu ári. Í stað þess að fagna og vera stolt af okkar aðstöðu þá er félagið nú á óvissutímum. Engar fregnir berast af því hverjar áætlanir nýs meirihluta eru varðandi uppbyggingu íþróttastarfs þótt sóst sé eftir því. Horfa verður bæði til skamms og langs tíma í senn, nú er tíminn til að reisa Hamarshöllina eins fljótt og auðið er jafnframt því sem við þurfum að vinna í stefnumótun og byggja upp íþróttastarfið til framtíðar. Samráð og samtal þarf að eiga sér stað og vonumst við til að farsælt samstarf bæjarfélagsins og íþróttafélagsins haldi áfram að vaxa og dafna. Íþróttafélagið Hamar telur 6 deildir og áhyggjur deildanna snúa að okkar iðkendum, þjálfurum og sjálfboðaliðum sem stóla á félagið því án aðstöðu í haust/vetur mun íþróttastarfið okkar bera stóran skaða, sjálfboðaliðum mun fækka, þjálfarar hverfa og iðkendur hætta eða fara í önnur félög.

Íþróttafélagið biður um svör við eftirfarandi spurningum:

 1. Í nýjum málefnasamningi meirihlutans kemur fram: “Skoða kosti varðandi uppbyggingu Hamarshallarinnar og annarra íþróttamannvirkja” Má skilja þetta sem svo að nýr meirihluti hafi ekki tekið ákvörðun um viðbrögð vegna falls Hamarshallarinnar ennþá? Ef svo er, hvenær megum við eiga von á því að sjá einhverja niðurstöðu í því?
 2. Mun Hamarshöllin rísa aftur í haust/vetur? Ef svo er, hvernig er áætlunin um endurreisn hennar? Ef  svo er ekki, þá biðjum við um að fá upplýsingar hið fyrsta hvert planið er svo við getum skipulagt okkur skv. því.
 3. Íþróttafélagið Hamar hefur óskað eftir fundi með nýjum meirihluta síðan úrslit kosninga voru ljós. Hvenær á Íþróttafélagið von á því að fá fundi með nýjum meirihluta og beina aðkomu að málefnum Hamarshallarinnar og Íþróttafélagsins eins og óskað hefur verið eftir?
 4. Íþróttafélagið Hamar er stærsti einstaki hagsmunaaðili í Hveragerði þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Mun nýr meirihluti forgangsraða verkefnum sem snerta það beint í samráði við Íþróttafélagið (sjá greinargerð fyrir neðan)?
 5. Munu fulltrúar frá Íþróttafélaginu Hamri fá sæti í nefnd íþróttamála á þessu kjörtímabili?

Greinargerð um afstöðu Íþróttafélagsins Hamars til aðstöðu til skemmri og lengri tíma:

Aðalstjórn Íþróttafélagsins Hamars er einhuga um knýja fram eftirfarandi forgangsröðun verkefna Hveragerðisbæjar í þágu félagsins, (staðfest á fundi aðalstjórnar í apríl og maí 2022)

 1. Koma upp aðstöðu eins og deildir Hamars höfðu fyrir hrun Hamarshallarinnar með úrbótum sem Íþróttafélagið hefur komið á framfæri við bæjaryfirvöld (áætlaður kostnaður vegna endurreisn Hamarshallarinnar í töluvert endurbættri mynd er um 300 milljónir kr eða ca 200m+ nettó). Þetta er mjög mikilvægt til þess að:
  1. Sporna við brottfalli iðkenda, þjálfara og sjálfboðaliða hjá Knattspyrnudeild og Fimleikadeild sökum aðstöðuleysis.
  2. Sporna við brottfalli iðkenda, þjálfara og sjálfboðaliða hjá öðrum deildum Hamars sökum fækkun tíma í íþróttahúsi. Ef nýtt hús er ekki komið upp í haust erum við að horfa á rúmlega 50% fækkun á tímum sem mun bitna beint á jafn yngri iðkendum og afreksstarfi. 50% fækkun á tímum þýðir t.d. æfingar annan hvern dag í staðinn fyrir daglegar æfingar hjá meistaraflokkum félagsins. 50% fækkun þýðir líka fækkun á æfingatímum og stytting í æfingatímum hjá yngri iðkendum félagsins (badminton/blak/karfa/fimleikar/fótbolti)
 2. Bæta rekstrarskilyrði fyrir sunddeild í Laugaskarði, m.t.t. hitavandamála.
 3. Vinna með bæjaryfirvöldum að því að móta hvernig staðið skuli að uppbyggingu framtíðaraðstöðu fyrir fimleika, badminton, körfubolta og blak, með sérstaka áherslu á fimleika fyrst ef ekki er hægt að byggja upp aðstöðu fyrir allar þessar deildir samtímis.

Við óskum eftir því að svör berist Íþróttafélaginu eins fljótt og auðið er, það er mikilvægt að allri óvissu sé eytt sem fyrst svo við getum byrjað að skipuleggja okkur og undirbúa fyrir þann veruleika sem tekur á móti okkur í haust.

Áfram Hamar!

F.h. Aðalstjórnar Íþróttafélagsins Hamars,

Þórhallur Einisson, formaður.

Í sumar verður Sunddeild Hamars með tvenn námskeið fyrir börn.

Fyrra námskeiðið byrjar mánudaginn 13. júní og stendur til 28. júní. Kennt verður eftir hádegi (10 skipti, 35 mín.).

Seinna námskeiðið byrjar mánudaginn 11. júlí og stendur til 22. júlí. Kennt verður fyrir hádegi (10 skipti, 35 mín.).

Krakkar fædd 2018 og eldri eru velkominn á námskeiðið.

Námskeiðsgjald 18.000 kr. og greiðist það í fyrsta tíma.

Leitast verður við að raða krökkunum niður eftir getu og aldri.

Krakkar á skólaaldri eru velkomin, það er pláss fyrir alla. Upplagt til að skerpa sundtæknina.

Kennslu annast Magnús Tryggvason íþróttafræðingur og sundþjálfari.


Skráning og allar nánari upplýsingar: Magnús Tryggvason s. 898 3067 og maggitryggva@gmail.com

 

Með sundkveðju,

Sunddeild Hamars

Hamar og Vestri áttust við í dag í síðasta leik deildarkeppninnar í vetur hjá báðum liðum.

Hamar vann fyrir leikinn í gær 3-1 eftir að hafa tapað fyrstu hrinunni en í dag var annað uppi á teningnum.

Eftir mikið leikjaálag undanfarið sá Radek sér ekki annað fært en að hvíla sjálfur auk þess sem uppspilarinn Damien er enn tæpur í baki. Þeir sátu því hjá í dag og fengu Pawel Kapelko og Haraldur Örn Björnsson að reyna sig allan leikinn.

Eins og búast mátti við með þetta miklar breytingar á liðinu var róðurinn þungur og fór svo að lokum að leikurinn tapaðist 3-0.

Maður leiksins í liði Hamars var Hafsteinn Valdimarsson með 11 stig.

Nýkrýndir bikar- og deildarmeistarar Hamars og Vestri frá Ísafirði, áttust við í dag í fyrri leik liðanna þessa helgi.

Damian Sapor uppspilari Hamars kenndi sér meins í baki í upphitun og þurfti Radek þjálfari að gera breytingar á byrjunarliðinu.

Hamarsmenn áttu í kjölfarið erfitt í fyrstu hrinu sem tapaðist 25-16 og ljóst að mikið þyrfti til að bikarmeistararnir næðu að snúa leiknum aftur sér í hag.

Það kraftaverk kom þegar það losnaði um bakið á Damian sem mætti á völlinn í annari hrinu. Hamarsmenn fóru þá að sýna sitt rétta andlit og fór svo að hrina 2 vannst 25-20, þriðja hrina 25-17 og sú fjórða 25-18 og leikurinn þar með 3-1.

Maður leiksins var Jakub en hann var stigahæstur Hamarsmanna og hljóp auk þess í skarðið í uppspilinu fyrir Damian í fyrstu hrinu.

Seinni leikur liðanna fer fram á morgun kl. 13:00 en það er jafnframt síðasti leikur Hamars í deildinni en liðið tryggði sér deildameistaratitilinn í vikunni með sigri á Aftureldingu.

Hamar og Þróttur Fjarðabyggð áttust við í seinni leik liðanna um helgina í úrvalsdeild karla í blaki.

Eftir hörku leik í gær, þar sem Hamar þurfti fimm hrinur til að knýja fram sigur, mættu Hamarsmenn vel stemmdir í dag og ætluðu sér greinilega að gera betur en í gær. Leikgleðin skein í gegn hjá leikmönnum Hamars og stemmningin var þeirra megin á vellinum allan leikinn.

Hamarsmenn gerðu einmitt það og höfðu frumkvæðið allan leikinn sem lauk með öruggum 3-0 sigri Hamars, 25-18, 25-16 og 25-19.

Hamarsmenn eru efstir í deildinni með 47 stig og eiga eftir 4 leiki á tímabilinu og eru 5 stigum á undan HK sem eiga 3 leiki eftir.

Hamar og Þróttur áttust við í fyrri leik liðanna þessa helgi í úrvalsdeild karla í blaki í dag.
Ferðalag Þróttar á Suðurlandið tók óvænta stefnu þegar flugvélin lenti í Keflavík í gærkveldi. Fór svo að ferðalaginu lauk ekki fyrr en eftir miðnætti og kannski skiljanlegt að leikmenn liðsins hafi verið lengi í gang dag. Hamar vann fyrstu hrinu auðveldlega 25-16 en mótspyrnan var töluvert meiri í annari hrinu. Jafnt var á með liðunum fram að miðri hrinu en þá náðu Þróttarar góðum kafla og þriggja stiga forystu 17-14. Hamarsmenn tóku þá við sér og jöfnuðu leikinn og eftir það var allt í járnum. Fór svo að lokum að upphækkun þurfti til að útkljá hrinuna þar sem Þróttur hafði frumkvæðið og vann að lokum 27-29. Þriðja hrinan var nokkuð jöfn framan ef þar til Tomek Leik í liði Hamars varð að fara af velli vegna meiðsla. Hamarsmenn virtust við það missa taktinn og þó Tomek kæmi aftur inná eftir aðhlynningu dugði það ekki til og fór svo að Þróttur vann hrinuna nokkuð örugglega 25-20.  Með því var ljóst að Hamarsmenn þyrftu 5 hrinu leik til að tryggja sér sigurinn. Frá fyrsta stigi í fjórðu hrinu var augljóst að Hamarsmenn ætluðu sér einmitt það og í stöðunni 5-0 leist Þrótturum ekkert á blikuna og tóku leikhlé. Það dugði þó ekki til, Hamarsmenn héldu sínu striki og unnu hrinuna örugglega 25-11.Í fimmtu hrinu var mikill hiti í mönnum og ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur. Jafnt var á öllum tölum framan af en þegar Þróttur komst yfir 4-3 ætlaði allt um koll að keyra og fékk Kristján Valdimarsson í liði Hamars sitt annað gula spjald fyrir mótmæli og þar með rautt (sem í blaki þýðir stig fyrir andstæðingana en ekki útilokun úr leiknum). Staðan var þar með orðin 5-3 fyrir Þrótt sem höfðu frumkvæðið þar til Hamar náði forystu 10-9. Hana létu þeir ekki af hendi og unnu hrinuna að lokum 15-11 og leikinn þar með 3-2.Hörku leikur í Hveragerði í dag sem lofar góðu fyrir seinni leik liðanna klukkan 12:00 á morgun, sunnudag.

Ragnar Ingi Axelsson er Íþróttamaður Hamars 2021. Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í Úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu, vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari í vor. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri Úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu. 

Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður Úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð. 

Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Ragnar Ingi Axelsson

Íþróttamenn deilda Hamars 2021 voru að þessu sinni:

Íþróttamaður Badmintondeildar Hamars 2021
Úlfur Þórhallsson
Íþróttamaður Blakdeildar Hamars 2021
Ragnar Ingi Axelsson
Íþróttamaður Knattspyrnudeildar Hamars 2021
Brynja Valgeirsdóttir
Íþróttamaður Körfuknattleiksdeildar Hamars 2021
Helga María Janusdóttir

Birgir hefur verið máttarstólpi íþróttastarfs í Hveragerði síðan löngu áður en Íþróttafélagið Hamar verður til. Birgir spilaði stöðu línumanns í handbolta á sínum yngri árum með KR og flutti til Hveragerðis þegar hann hóf nám hér í Garðyrkjuskólanum. Hann hélt síðan út til Jótlands í framhaldsnám og þjálfaði handbolta með Stige meðan á náminu stóð. Þegar hann flutti aftur heim til Hveragerðis var eitt af hans fyrstu verkum að stofna Handboltadeild hér í Íþróttafélagi Ölfus og Hveragerði sem varð mjög vinsæl og starfaði í fjölmörg áráður en hún lagðist af sökum þess að ekki var hér löglegan handboltavöll að finna til keppnisleikja.

Birgir vann ötullega fyrir Ungmennafélag Ölfus og Hveragerði og eitt af verkefnum þess var skafmiði (svokallaður Ferðaþristur) þar sem ágóðinn átti m.a. að fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Þetta verkefni fór mjög illa, kostnaður þess var langt umfram tekjur og varð þess valdandi að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Birgir var einn af ábyrgðarmönnum félagins og þurfti hann persónulega að greiða skuldir félagins. Aðrir aðilar sem voru í persónulegri ábyrgð urðu gjaldþrota sem gerði það að verkum að Birgir var gerður persónulega ábyrgur fyrir þeim skuldum sem aðrir ábyrgðarmenn áttu að taka. Erfitt er að setja sig inn í þær aðstæður sem voru uppi þarna og það óréttlæti sem fólst í því að gera Birgi ábyrgan fyrir gjaldþroti félagsins en hann lét engan bilbug á sér finna, vann sig út úr þessu og hélt áfram að vinna ötullega að íþróttastarfi í Hveragerði.

Sama ár og Ungmennafélag Ölfus og Hveragerði verður gjaldþrota er Íþróttafélagið Hamar stofnað, nánar tiltekið 28. mars 1992. Fljótlega eftir stofnun þess fór Birgir að láta til sín taka fyrir Körfunattleiksdeildina. Upphafið af því má rekja til þess þegar hann og Lárus Ingi formaður hittust og Birgir nefndi að deildin ætti að skoða það að fara að selja inn á leikina. Eftir smá umhugsun sagði Lárus; Það er fínasta hugmynd, þú sérð bara um þetta Biggi minn. Þar með var það fest í sögubækurnar því eins og allir vita segir enginn nei við Lárus.

Síðan hefur Birgir verið einn öflugasti bakhjarl Körfuknattleiksdeildarinnar og er það enn. Okkur er það mikill heiður að fá að sæma hann gullmerki Íþróttafélagsins Hamars.

Aðalfundur Íþróttafélagsins Hamars verður haldinn þriðjudaginn 15. mars nk. kl 20:00 í Grunnskólanum í Hveragerði

FUNDARBOÐ
Íþróttafélagið Hamar heldur aðalfund í Grunnskólanum í Hveragerði þriðjudaginn 15. mars 2022 kl. 20.00

Fundarefni:

 1. Formaður setur fundinn.
 2. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
 3. Formaður flytur ársskýrslu félagsins.
 4. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar.
 5. Umræður um skýrslu formanns og gjaldkera og reikningar félagsins bornir upp til
  samþykktar.
 6. Tillögur lagðar fyrir fundinn.
 7. Ávörp gesta.
 8. Verðlaunaafhending og lýst kjöri íþróttamanns Íþróttafélagsins Hamars.
 9. Kaffihlé
 10. Umræður og afgreiðsla tillagna
 11. Lagabreytingar.
 12. Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun aðalstjórnar til samþykktar og deilda til
  staðfestingar.
 13. Ákveðin árgjöld félagsins og deilda
 14. Stjórnarkjör
 15. Kosnir tveir skoðunarmenn.
 16. Önnur mál.

Verið velkomin
Stjórnin