Nú fer að styttast í að Úrvalsdeildin í blaki hefjist og eru þrefaldir meistarar Hamars frá síðasta tímabili á fullu að fá mynd á leikmannahópinn fyrir komandi tímabil. Fjórir erlendir leikmenn sem léku með liðinu á síðasta tímabili, þeir Tomek Leik, Damian Sapor, Jakub Madej og spilandi þjálfarinn Radoslaw Rybak, verða ekki með liðinu í vetur og því ljóst að töluverðar breytingar verða á leikmannahópnum.

Þegar er búið að fylla í skarð tveggja leikmanna og þjálfarans. Hamar samdi á dögunum við uppspilarann Hubert Lasecki og kantmanninn Marcin Grasza, en þeir eru báðir frá Póllandi. Hubert verður 23 ára á árinu en hann spilaði síðast með Olsztyn 2 í Póllandi. Marcin er 24 ára og spilaði með Ishøj Volley í Danmörku. Fyrr í sumar samdi Hamar við þjálfarann Tamas Kaposi frá Ungverjalandi, en hann tekur við keflinu af Rybak sem spilandi þjálfari.