Knattspyrnudeild Hamars leitar nú að metnaðarfullum þjálfara til að þjálfa meistaraflokk karla félagsins.

Hamar spilar í 4. Deild en hafa verið úr úrslitakeppni s.l ár og verið hársbreidd frá því að komast upp um deild. Í Hveragerði eru aðstæður til knattspyrnuiðkunnar ansi góðar. Á veturnar er æft inni í hlýrri Hamarshöll og á sumrin er æft og keppt á einstöku vallarstæði, Grýluvelli. Nýlega var fjárfest í myndavél sem tekur upp alla leiki liðsins og hægt er að nýta hana fyrir leikgreiningu. Öll umgjörð hjá deildinni er mjög góð og er mikill metnaður í að gera enþá betur og bæta það sem bæta þarf.

Við leitumst eftir þjálfara sem er tilbúin í að halda áfram bæta og efla þá leikmenn sem eru til staðar hjá okkur og halda áfram að byggja upp það starf sem hefur verið undanfarin ár.

Áhugasamir þjálfarar geta sótt um starfið með því að senda email á ollimagnusson@gmail.com.

Allir yngri flokkar félagsins eru komnir á fullt. Gaman að sjá hvað við erum með marga iðkendur hjá okkur. Við getum alltaf tekið við fleiri iðkendum og þau sem að vilja koma og prófa fótboltaæfingu eru velkomin að gera það við frábærar aðstæður.

Endilega mæta á æfingar og prófa eða hafa samband við þjálfara um frekari upplýsingar (sjá upplýsingar um þjálfara flokkana hér að ofan undir þjálfarar)

Jóhann Bjarnason mun ekki þjálfa Meistaraflokk karla hjá Hamri áfram. Fyrir tveimur árum fengum við Jóa til að stýra meistaraflokki karla og má sanni segja að hann hafi unnið frábært starf fyrir félagið. Jói bjó til flott lið úr ungum og efnilegum strákum frá Hveragerði og nærsveitum sem náði góðum árangri s.l tvö tímabil. Bæði tímabilin sem þjálfari skilaði hann liðinu í úrslitakeppni og var liðið hársbreidd frá næsta skrefi bæði árin. Árin tvö sem Jói hefur þjálfað hjá Hamri hefur hann sýnt gríðarlega mikla fórnfýsi og verið sannur félagsmaður. Alltaf boðinn og búinn til að aðstoða við þau verk sem þarf að ganga í, hvort sem það er dómgæsla hjá yngri flokkum, fjáraflanir fyrir félagið eða það sem vantar.

Nú munu leiðir skilja í meistaraflokki karla og vill Knattspyrnudeild Hamars þakka Jóa kærlega fyrir sín störf fyrir félagið og óska honum velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Við vonum innilega að Jói haldi áfram að vera nálægt okkar félagi.

Nú er mikil eftirvænting eftir að úrslitakeppni hefst hjá strákunum í meistaraflokki. Hamar vann sinn riðil með 34 stig og hafa spilað gríðarlega vel í sumar. Hamar vann 11 leiki, gerði eitt jafntefli og töpuðu 2 leikjum. Liðið skoraði 48 mörk og fengu 19 mörk á sig.

Í úrslitakeppninni eru 8 liða úrslit. Spilað er tvo leiki og sigurvegari samanlagt úr þeim viðureignum kemst í undanúrslit. Hamar mun mæta flottu liði KH í 8 liða úrslitum. KH varð í 2. sæti í sínum riðli. Fyrri viðureignin fer fram á Valsvelli n.k Laugardag kl 13:00. Seinni leikurinn fer fram á Grýluvelli á miðvikudag í næstu viku kl 16:15.

Við vonumst eftir því að Hvergerðingar mæti á völlinn, styðji okkar menn og hjálpi þeim að sigra þessa viðureign. Stuðningur ykkar skiptir gríðarlega miklu máli í þessum leikjum!!

Meistaraflokkur kvenna gerði 2-2 jafntefli við Álftanes í kvöld. Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Álftanesi.

Karen Inga Bergsdóttir og Íris Sverrisdóttir skorðu mörk okkar í síðari hálfleik.

Næsti leikur hjá stelpunum er á laugardaginn á móti ÍR á heimavelli kl 14:00

Yngri flokka þjálfarateymi Hamars 2020-2021 er klárt.

Unnar Jóhannsson tekur við sem yfirþjálfari Knattspyrnudeilar ásamt því að þjálfa 8.flokk með Matthíasi. Unnar kemur frá Fjölni þar sem hann hefur þjálfað allan sinn feril fyrir utan 2 tímabil í Stjörnunni og 1 ár hjá danska félaginu Lyseng. “Það sem mér finnst spennandi við Hamar er að hér er gríðarlega mikill metnaður í fólki, fólki sem hefur mikinn áhuga á starfinu, frábær aðstaða og mjög öflugur þjálfarahópur. Hér er allt til alls til þess að ná góðum árangri”

Matthías Ásgeir heldur áfram þjálfun hjá félaginu. Hann verður inn í þjálfun 4 fl, 5fl, 7fl og 8 fl. Matti hefur þann eiginlega að ná einstaklega vel til iðkenda. Hann spilar einnig í meistaraflokki félagsins.

Pétur Geir Ómarsson heldur einnig áfram hjá félaginu. Hann verður inn í þjálfun 4, 5, 6 og 7 fl kvk ásamt 6.fl kk. Hann hefur gert mjög góða hluti með hópana sína hjá félaginu. Hann spilar einnig í meistaraflokki félagsins.

Dagný Rún Gísladóttir verður æfingaþjálfari og kemur inn á æfingar hjá strákum og stelpum. Dagný er frábær fyrirmynd yngri iðkenda félagsins. Hún spilar einnig í meistaraflokki félagsins.

Samuel Andrew Malson verður æfingaþjálfari og kemur inn á æfingar hjá strákum og stelpum. Hann spilar einnig í meistaraflokki félagsins.

Ísak Leó Guðmundsson verður þjálfari 4 og 5 fl kvk ásamt því að vera með 6. og 7.fl kk. Ísak hefur þjálfað hjá Fjölni allan sinn þjálfaraferil en hefur spilað með Hamri undanfarin ár.

Hamarsmenn fengu lið GG frá Grindavík í heimsókn í undanúrslitum Lengjubikars KSÍ á Selfossi sunnudaginn sl. Leikurinn enadaði með 1-2 sigri GG manna eftir mikinn baráttuleik. GG komst yfir á 12.mínutu eftir klaufaskap í vörn Hamarsmanna. Bæði lið fengu færi til að skora en allt kom fyrir ekki endaði fyrri hálfleikurinn verðskuldað 0-1 fyrir GG. Hamarsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn mun betur og fengu nokkur færi til að jafna leikinn en á 55.mínútu komust GG menn í skyndisókn og bættu við öðru marki og á brattann að sækja fyrir Hamarsmenn. Eftir seinna mark GG færðist harka í leikinn og ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir. Hamar hélt áfram að sækja og komu sér í góð færi en tókst þó ekki að klóra í bakann fyrr en of seint með góðu marki Ísaks Leó Guðmundssonar í uppbótartíma en það reyndist síðasta spyrna leiksins og enduðu leikurinn því 1-2 fyrir sterku liði GG og mæta þeir liði Snæfells í úrslitum Lengjubikarsins.

Þetta var síðasti leikur Hamars áður en alvaran tekur við en fyrsti leikur Hamars er 14.maí þegar Hamar tekur á móti Álafoss á Grýluvelli kl.20. ljóst er að þetta verður skemmtilegt knattspyrnusumar í Hveragerði.

Sunnudaginn 28. Janúar kl 14:00 verður aðalfundur Knattspyrnudeildar haldin í aðstöðuhúsinu við Hamarshöll.

Venjuleg aðalfundarstörf og léttar veitingar.

Stjórn Knattspyrnudeildar Hamars.

Á herrakvöldi Hamars var að sjálfsögðu uppboð og aðrir vinningar. Vinningar sem ekki voru afhentir á herrakvöldinu sjálfu voru á eftirfarandi númerum.

Gjafakort í Laugarsport nr. 623

Gjafakort í Laugarsport nr. 237

Gjafakort í Laugarsport nr. 771

Gjafakort í Laugarsport nr. 681

Sundkort í Laugarskarði 30 miðar nr. 203

Sundkort í Laugarskarði 30 miðar nr. 436

Hægt er að nálgast vinningar í símanúmer 8562035 hjá Valla 

Tímabilið fer vel af stað hjá Hamri í fótboltanum. Tveir leikir eru búnir á Íslandsmótinu og hefur Hamar unnið þá báða.

Hamar fékk Ísbjörninn í heimsókn á Grýluvöll í fyrsta leik sumarsins í síðustu viku. Hamar var mun sterkari aðilinn í leiknum en áttu erfitt með að koma tuðrunni í netið í byrjun leiks þrátt fyrir mörg fín færi. Liam Killa tókst að koma boltanum í netið á 17. mínútu og kom Hamarsmönnum í forystu. Ísbjörninn náðu hisvegar að jafna metin á 27 mínútu úr sínu fyrsta færi í leiknum. Staðan var 1-1 í hálfleik. Seinni hálfleikur var svipaður, Hamar var mun meira með boltann og mun betra aðillinn í leiknum. Á 68. mínútu skoraði Sigurður Andri flott skallamark og kom Hamarsmönnum aftur í forystu. Sam Malson bætti svo við tveim mörkum í lok leiks og tryggði Hamarsmönnum góðan 4-1 sigur á Ísbirninum.

Hamar – Ísbjörninn 4-1

Mörk: Liam, Sigurður Andri, Sam 2

 

Annar leikur Hamarsmanna var á Seltjarnarnesi þegar liðið sótti lið Kríunar heim. Krían er með flott lið af ungum og sprækum strákum úr Gróttu og KR. Hamar byrjaði leikinn betur og áttu fín færi í byrjun leiks. Frissi skoraði svo flott mark á 10. mínútu eftir flott samspil. Eftir þetta var meira jafnræði með liðunum og var um hörkuleik að ræða. Stuttu fyrir hálfleik lendir Stefán Þór markvörður Hamarsmanna í því óláni að fá sóknarmann Kríunar á sig með þeim afleiðingum að hann rotast og þurfti að fá sjúkrabíl á svæðið og bruna með drenginn á sjúkrahús. Sem betur fór hlaut hörkutólið Stefán Þór ekki mikinn skaða af og var mættur í leikslok í klefann eftir skoðun frá lækni. Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir Hamri. Á 49. mínútu skorar Krían og jafna leikinn. Eftir það voru Hamarsmenn mun meira með boltann og reyndu að skora sigurmarkið í leiknum. Á 77 mínútu var brotið á Brynjari Elí inn í vítateig og vítaspyrna dæmd. Ölli fór á punktinn og skoraði örruglega. Kríann sótti eftir þetta en Hamarsmenn vörðust vel og sigruðu leikinn 1-2 eftir hörkuleik.

Krían – Hamar 1-2

Mörk: Frissi og Ölli.

Frissi fagnar marki.

Sigurður Andri skoraði mark á móti Ísbirninum