32-liða úrslit í Poweradebikar karla fóru fram um helgina og komust okkar strákar áfram í 16-liða úrslitin eftir öruggan sigur á Álftanesi í gær en lokatölur voru 64-99.

Álftanes, sem spilar í 2.deild, byrjuðu betur á heimavelli og leiddu 5-4 eftir þriggja mínútu leik en Hamarsmenn voru seinir í gang í leiknum og leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta 12-16. Í öðrum leikhluta reyndu strákarnir að keyra upp hraðann með misjöfnum árangri en sóknin fór að ganga betur en varnarleikurinn var ekki nógur góður. Annar leikhluti fór 20-28 og leiddu okkar menn 32-44 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var skárri en sá fyrri en það var þó ekki fyrr en í upphafi síðasta leikhlutans sem Hamarsmenn stungu hressilega af. Staðan fyrir síðasta leikhlutan var 51-70 og strákarnir sigrðu svo með 35 stiga mun 64-99. Allir leikmenn liðsins fengu að spila töluvert og náðu þeir allir að setja stig á töfluna sem er gott.

Tveir nýjir leikmenn spiluðu í þessum leik annars vegar Birgir Þór Sverrisson sem kom frá ÍR en er uppalinn hjá Skallagrími og hins vegar Sigurður Orri Hafþórsson en hann er byrjaður aftur eftir smá hlé en hann spilaði með liðinu eftir áramót í fyrra. Þeir komust vel frá sínu og styrkja liðið töluvert. Þorsteinn Gunnlaugsson spilaði ekki í gær vegna meiðsla og munar um minna, en vonir standa til að hann verði klár í næsta deildarleik.

Stigahæstir í gær voru Julian Nelson 17 stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson 16 stig, Halldór Gunnar Jónsson 15 stig, Örn Sigurðarson 10 stig en eins og áður sagði skoruðu allir 12 leikmenn liðsins í leiknum.

Næsti leikur er erfiður útileikur á Egilsstöðum næstkomandi föstudag. Lið Hattar hefur spilað fjóra leiki í deildinni og unnið þrjá og eru með hörkulið sem spilar alltaf vel á heimavelli. Mikilvægur leikur í toppslaganum sem strákarnir ætla sér að sigra.

Áfram Hamar!