Síðasta föstudagskvöld sigruðu Hamarsmenn lið Blika í Kópavogi en lokatölur voru 70-85. Leikurinn byrjaði fjörlega og ekki mikið um varnir til að byrja með eins tölurnar gáfu til kynna en þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var staðan 13-19 okkar drengjum í vil. Þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 21-28 Hamri í vil. Þorsteinn Gunnlaugsson fór hreinlega hamförum í þessum leikhluta og skoraði 15 stig.

Í öðrum leikhluta hertust varnirnar og töluvert var af mistökum beggja liða og leikurinn ekki fallegur á að horfa. Blikar náðu að sigra þennan leikhluta 17-14 því var staðan 38-42 Hamri í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Breiðabliksmenn byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel og þegar þriðji leikhlutinn var hálfnaður var munurinn allt í einu eitt stig, 51-52 fyrir Hamari. Eftir þetta gáfu okkar drengir aftur í og náðu að koma muninum uppí 7 stig, 53-60, en Blikar áttu góðan sprett í lokinn á leikhlutanum og munurinn 4 stig fyrir síðasta leikhlutann 58-62.

Í fjórða og síðasta leikhlutanum var aldrei spurning hvar sigurinn mundi lenda en Hamarsdrengir sýndu sitt rétta andlit og keyrðu öruggum sigri heim. Tölur sem sáust í þessum leikhluta 60-66, 60-71, 60-74, 60-77, 66-82 og lokatölur 70-85. Þetta var langbesti leikhluti okkar manna í leiknum og Blikar áttu engin svör við frábærum leik á þessum kafla.

Tölfræði úr leiknum. Þorsteinn Gunnlaugsson 25 stig, 15 fráköst og 31 framlagsstig. Julian Nelson 21 stig, 8 fráköst, 4 stoðsendingar og 21 framlagsstig. Örn Sigurðarson 16, 6 fráköst og 16 framlagsstig. Halldór Gunnar Jónsson 13 stig, 3 stoðsendingar og 13 framlagsstig. Kristinn Ólafsson 4 stig, 4 stoðsendingar og 5 framlagsstig. Bjartmar Halldórsson 4 stig, 3 stoðsendingar og 6 framlagsstig. Bjarni Rúnar Lárusson 2 stig, 4 fráköst og 3 framlagsstig.

Næsti leikur er á fimmtudag og er þetta fyrsti heimaleikurinn hjá strákunum. Það verður enginn smá leikur en FSu kemur í heimsókn í frystikistuna. Allir að mæta!

Áfram Hamar!

Mynd: karfan.is úr leiknum á móti Blikum.