Síða knattspyrnudeildarinnar hér inn á Hamarsport hefur verið uppfærð. 

Upplýsingar um stjórn, þjálfara, æfingatíma, leikmenn meistaraflokks, knattspyrnumenn Hamars og aðrar gagnlegar upplýsingar hafa verið uppfærðar til samræmis við núverandi stöðu og fyrirkomulag knattspyrnudeildarinnar. Þá hafa nýjar myndir verið settar inn í myndasöfn og blaðaútgáfur knattspyrnudeildarinnar gerðar aðgengilegar. 

Hamarsmenn leika í kvöld gegn Njarðvíkingum í 10. umferð 2. deildar Íslandsmóts KSÍ. 

Njarðvíkingum var spáð góðu gengi á Íslandsmótinu en hafa verið að spara sig svolítið undanfarið. Gestirnir frá Suðurnesjum hafa yfir að ráða gríðarlega sterkum leikmönnum og er liðið erfitt viðureignar. Gestirnir ætla sér væntanlega ekkert annað en sigur því með flengingu í kvöld eykst bil þeirra og toppliðanna í deildinni. 

Hamarspiltar gefa ekkert eftir á Grýluvelli og vilja landa sínum fyrsta sigri eftir röð ólukkulegra úrslita sem hafa skila hverju jafnteflinu á fætur öðru. Síðasti leikur Hamars var á útivelli gegn HK og var að sjá mörg batamerki á liðinu sem hélt hreinu gegn Kópavogsdrengjum. Með stuðningi okkar hjálpum við Hamarsmönnum að negla Njarðvíkingana í kvöld og tryggja þeim þau þrjú stig sem í boði eru. 

Mætum á Grýluvöll og styðjum strákana okkar til sigurs. 

Áfram Hamar!!! 

Leikir Hamars og Njarðvíkur í 2. deild 2011: 

Hamar-Njarðvík 1-2 

Njarðvík-Hamar 2-3

Nú er komið að því, Hamarshöllin er að rísa!

Nú vantar okkur aftur á móti 25-30 sjálfboðaliða þriðjudaginn 3. júlí, miðvikudaginn 4. júlí og fimmtudaginn 5. júlí. Mæting er kl. 17:00 og stendur verkið yfir í einungis 3-4 tíma hvern dag. Á þessu myndbandi hér má sjá hvernig verkið gengur fyrir sig. Það er miklivægt að sem flestir mæti því margar hendur vinna létt verk.

Að loknu verki er glæsileg pizzaveisla í boði, endilega takið sem flesta með ykkur, Hvergerðinga sem utanbæjarfólk 🙂 

hamarsholl1 hamarsholl2

Lionel Messi, leikmaður Barcelona, segir að það sé mikilvægt fyrir unga krakka að halda áfram að læra, jafnvel þó þeir vilji vera atvinnumenn í fótbolta.

Argentínumaðurinn er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður heims og viðurkennir hann sjálfur að námið hafi ekki alltaf verið númer eitt hjá sér.

„Þegar ég var krakki, þá fannst mér ekki gaman að læra en foreldrar mínir heimtuðu að ég héldi því áfram, því það væri mikilvægt,“ sagði Messi.

„Nú sé ég að þau höfðu rétt fyrir sér og það er gott að maður hafi lært eitthvað. Maður veit aldrei hvað gæti gerst í fótbolta.“

„Það dreymir alla krakka um að spila í úrvalsdeildinni, en það geta ekki allir náð því markmiði. Því er mjög mikilvægt að stunda námið.“

-Tekið af 433.is- 

3. flokkur knattspyrnudeildar leikur á Íslandsmótinu um helgina. Leikið er á 7 manna velli og er leiktími hvers leiks 2 x 25 mínútur. 

Strákarnir okkar leika 4 leiki yfir helgina, tvo á laugardeginum og svo aðra tvo á sunnudaginn. 

Leikjaniðurröðun mótsins er hér: 

leikir_3.fl_mots

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að Evrópukeppni landsliða er um það bil að hefjast. Fyrsti leikur mótsins er settur á þann 8. júní kl. 16:00 að íslensku tíma er önnur gestgjafaþjóðin, Pólland, tekur á móti Grikklandi. Þar sem Evrópukeppnin er einn stærsti íþróttaviðburður heimsins eru áhorfendur og aðdáendur mótsins ekki einungis knattspyrnu- eða íþróttafólk, heldur einnig almennir áhugamenn- og konur skemmtunar, gleði, sorgar og almennrar spennu í hæsta gæðaflokki. 

Vinsælt er að vinir, vinkonur, hópar og vinnustaðir komi sé upp keppni af einhverju tagi er giskað er á úrslit leikja mótsins. Meðfylgjandi er hér skjal með öllum leikjum riðlakeppni Evróðumótsins þar sem hægt er að færa inn spá og úrslit leikja. Viljum við því aðstoða og hvetja sem flesta til að setja upp skemmtilegan leik innan síns hóps (eða bara nota þetta fyrir sig sjálfa) og er hægt að skoða og prenta út skjalið hér.

Hamarsmenn halda í víking til Mosfellsbæjar og leika þar gegn heimamönnum í Aftureldingu í kvöld kl.20:00. Við hvetjum auðvitað alla Hvergerðinga og aðra stuðningsmenn Hamars til að skella sér í Mosó til að styðja við bak sinna manna.

 

Þeir sem eiga þess ekki kost að bruna í bæinn geta stillt inn á sportradio.is og hlustað á beina lýsingu leiksins. Nánari upplýsingar um útsendinguna er að finna hér.

 

Áfram Hamar!!!

Það voru vaskir Völsungar frá Húsavík sem mættu á Grýluvöll í gær er Hamarspiltar léku sinn annan leik í Íslandsmóti 2. deildar KSÍ. Veðrið lék við gesti sem og leikmenn en lítið fór fyrir “fagra leiknum” að hálfu heimamanna í þetta sinn.

 

Hamarspiltar virtust ákveðnari rétt til að byrja með en fengu á sig slysalegt mark strax á 5. mínútu eftir hornspyrnu gestanna og mistalningu í vörninni. Hamarspiltar voru þó töluvert meira með boltann án þess þó að skapa sér nein alvöru færi og virtust menn svolítið taugaóstyrkir á vellinum. Spil Hamars gekk því miður svolítið út á langar kýlingar frá fyrsta þriðjungi vallarins fram á sóknarmennina sem hafa átt betri dag.

 

Allt spil upp kanta og miðju, þegar það var reynt, virtist ráðleysislegt og skilaði allt of litlu. Völsungar eru með skemmtilega blöndu ungra og vinnusamra leikmanna og svo þriggja lykilpósta, markmanns, miðvarðar og framherja af erlendu bergi brotnu. Markvörðurinn og miðvörðurinn voru sem klettar í vörn gestanna og það skapaðist alltaf hætta er framherjinn þeirra fékk boltann.

 

Undir lok fyrri hálfleiks bættu gestirnir við öðru marki eftir mistök í vörn Hamars, sending kemur yfir til vinstri þar sem bakvörður Hamars er illa staðsettur og framherji gestanna klárar á laglegan hátt. 2-0 og kominn hálfleikur.

 

Í hálfleik voru gulldrengnum Sigurði Gísla og skiptinemanum súper-Sene skipt inn á og það tók ekki nema tvær mínútur fyrir Sene að minnka muninn, staðan 1-2 og leikurinn opnaðist á ný. Það liðu þó ekki nema um sex mínútur frá Hamarsmarkinu er Völsungar skoruðu sitt þriðja mark og það annað eftir hornspyrnu er erlendi miðvörðurinn þeirra setti sitt annað mark og breytti stöðunni í 1-3.

 

Hrafnkell fékk sitt annað gula spjald fyrir kjaftbrúk á 75. mínútu, eitthvað sem á ekki að gerast eða sjást og alls ekki þegar menn eru þegar á spjaldi, og í kjölfarið rautt og brottvísun. Þetta var annað rauða spjald Hrafnkels í jafn mörgum leikjum í deildinni og því von á ágætu leikbanni hjá Kela sem þarf að huga að því alvarlega hvort það hjálpi liðinu að spila manni færri í leikjum sumarsins eður ei. Leikmaður völsungs fékk svo einnig að fjúka út af á 80. mínútu og því jafnt í liðum.

 

Er leikurinn var að renna sitt skeið á enda minnkaði súper-Sene muninn á laglegan hátt en lengra komust Hamarspiltarnir okkar ekki og 2-3 tap því staðreynd. Margt má laga í leik Hamars en þeim til hróss þá er baráttan í liðinu til staðar og þeir hætta aldrei leik fyrr en dómarinn hefur flautað af. Porca þjálfari þarf að slípa nokkra vankanta af leik liðsins og þegar það kemur er þessum leikmönnum og liðinu í heild allir vegir færir og sigrarnir fara að detta inn.

 

Næsti leikur Hamars er í Mosfellsbæ fimmtudaginn 24. maí kl. 20:00 er piltarnir okkar heimsækja heimamenn í Aftureldingu. Fylgjum strákunum okkar í Mósó og styðjum þá til sigurs.

 

Áfram Hamar!!!

Hamarspiltar féllu úr leik í bikarkeppni KSÍ í gær. Þrátt fyrir stuttbuxnaveður og blíðu inn í Kórnum, knattspyrnuhöll Kópavogsbúa, var algert frost í leik Hamarsmanna og lítið meira um það að segja.

 

Það verður því ekkert Hamarslið í pottinum er dregið verður í 32ja liða úrslit bikarkeppninnar og „mjólkurkúin“ af þessu túni því víðsfjarri þetta sumarið.

 

Nú er bara að snúa sér að alvörunni, keppni á Íslandsmótinu, því næstkomandi laugardag, þann 19. maí kl. 16:00 leika Hamarspiltar við Völsung frá Húsavík og skal sækja ekkert minna en 3 stig úr farangri Þingeyinga í þetta sinn.

 

Mætum öll á leikinn og styðjum Hamarsmenn til sigurs. Munið að kaupa ársmiða, sem veita ríflegan afslátt á leiki og styðja um leið við starf knattspyrnudeildarinnar.

 

Áfram Hamar!!!

Meistaraflokkur Hamars mætir til leiks í bikarkeppni KSÍ í kvöld er þeir heimsækja lið Augnabliks í knattspyrnukór Kópavogsbúa. Leikið verður innanhúss enda veðurfarið ekki verið upp á marga fiska undanfarið, þó Hamarsmenn kvarti ekki enda beiðni um þetta fyrirkomulag ekki komið frá Hveragerði, þó það komi sér vissulega vel í þessu tíðarfari. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:00 í logni og rjómablíðu, óháð ytri veðurskilyrðum.

 

Lið Augnabliks er formlegt eða óformlegt dótturfélag Pepsideildar liðs Breiðabliks. Breiðablik þekkja allir, hvort heldur sem knattspyrnulið eða heimili Baldurs í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar en í lið Augnabliks hafa safnast í gegnum tíðina gamlir „Blikar“ og/eða ungir Kópavogsbúar í leit að leiktíma og jafnvel leikgleði. Augnablik lagði lið Hómers (óvíst hvort nafngiftin tengist amerískri teiknimyndaseríu eða grískum höfundi Ódysseifskviðu) að velli í fyrstu umferð bikarkeppni KSÍ 1-3 og fær nú það hlutverk að taka á móti Hamarspiltunum okkar.

 

Augnabliksmenn leika í 3. deildinni og var árangur þeirra síðastliðið sumar nokkuð eftirtektarverður. Augnablik sigraði riðilinn sinn og lék við KV í 8 liða úrslitum. KV, sem leikur nú í 2. deild, þótti heppið að komast áfram úr þeirri viðureign eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna á heimavelli 2-1 en tapað þeim síðari 3-2. Útivallareglan, þ.e.a.s. fjöldi skoraðra marka á útivelli, tryggði KV áframhaldandi þátttöku en felldi Augnablik.

 

Það er því alls ekki víst að og enganveginn tryggt að um auðvelda viðureign verði að ræða fyrir Hamarsdrengi er þeir mæta í knattspyrnuhöllina Kórinn í kvöld. Það er þó að miklu að keppa, því sigurvegari leiksins fer í pottinn fræga er dregið verður í 32ja liða úrslit bikarkeppninnar þar sem öll „stóru“ liðin koma inn og því möguleiki á vænni „mjólkurkú“ eða a.m.k. skemmtilegri upplifun leikmanna og áhorfenda í næstu umferð.

 

Hvergerðingar og Hamarsfólk, nær og fjær, ætti því að skella sér í léttan þriðjudagsbíltúr í Kópavoginn í kvöld til að styðja við bak sinna manna og hvetja þá áfram til næstu umferðar.

 

Áfram Hamar!!!