Aðalfundur knattspyrnudeildar Hamars var haldinn miðvikudaginn 13. febrúar kl. 19:30 í aðstöðuhúsi félagsins við Grýluvöll. Farið var yfir starfsár félagsins 2012, reikningar lagði fram og ný stjórn kjörin. 

Ágætis mæting var á fundinn og var boðið upp á gómsætt bakkelsi frá Almari bakara, rjúkandi heitt og gott kaffi frá Brasilíu og gosdrykk frá Ameríku. 

Erla Pálmadóttir stýrði fundinum af stakri fagmennsku. Elínborg gjaldkeri yngri flokka og Eyfi formaður fóru yfir skýrslu stjórnar og reikninga flokkanna ásamt því að sitja fyrir svörum. 

Ný stjórn var svo kjörin og er hún mönnuð hvorki fleiri né færri en ellefu mönnum og konum sem hlýtur að vera met. Það sem skipti þó meira máli er að til stjórnar hafa valist einstaklega gott og duglegt fólk sem án efa mun leggja sig fram um að auka veg og virðingu knattspyrnudeildarinnar. Fráfarandi stjórnarmönnum var þakkað gott og óeigingjarnt starf á liðnu ári og árum. 

Ný stjórn knattspyrnudeildar Hamars er eftirfarandi: 

Ævar Sigurðsson – Formaður 

Yngri flokkar: 
Elínborg María Ólafsdóttir – Gjaldkeri 
Þorkell Pétursson/Guðrún Eiríka Snorradóttir 
Matthías Þórisson 
Arnar Stefánsson 
Þorsteinn T. Ragnarsson 

Meistaraflokkur og 2. flokkur: 
Eyjólfur Harðarson – Formaður 
Margrét Jóna Bjarnadóttir – Gjaldkeri 
Michael Hassing 
Steinar Logi Hilmarsson 
Erla M. Pálmadóttir 

Munu stjórnirnar koma saman fljótlega til að skipta frekar með sér verkum.

Firma- og hópakeppni knattspyrnudeildar Hamars verður leikin laugardaginn 23. febrúar í nýju Hamarshöllinni í Hveragerði. Það er alltaf gott veður í Hamarshöllinni og er hitastigið þar eins og á mildu vorkvöldi í Suður Evrópu. 

Nú er tækifæri fyrir lið, hópa og bara hverja sem er til að koma saman og leika fótbolta við bestu aðstæður á Suðurlandi. 

Fyrirkomulag mótsins: 
-Leikið er í liðum 6 á móti 6.

-Leikið er eftir reglum KSÍ um keppni 7 manna liða. 
Stærð vallar er 42 x 32 metrar (1/4 af fullum velli). 

-Leiktími hvers leiks er 1 x 12 mín.

-Hvert lið leikur að lágmarki 4 leiki.

-Hver leikmaður er aðeins hlutgengur með einu liði í mótinu.

-Dómgæsla er í höndum mótshaldara. 

Verðlaun:

Öll þátttökulið fá viðurkenningu og verðlaun. Verðlaunapeningar verða veittir fyrir þrjú efstu sætin og hlýtur sigurliðið einnig bikar og vegleg verðlaun frá styrktaraðilum. 

Skráning:

Þátttöku ber að tilkynna í síðasta lagi mánudaginn 18. febrúar á netfangið: motahaldhamars@gmail.com og í síma : 773-3200

Þar sem takmarkaður fjöldi liða kemst að gildir að „fyrstur kemur, fyrstur fær“.

Með þátttökutilkynningunni er nauðsynlegt að með fylgi upplýsingar um nafn tengiliðs hjá viðkomandi liði ásamt símanúmeri og netfangi.

Þátttökugjald í firma- og hópakeppnina er kr. 15.000.- á lið sem ber að greiða um leið og mótshaldari hefur staðfest þátttöku viðkomandi liðs.

Æfingatafla knattspyrnudeildar hefur verið birt og má sjá hana, ásamt helstu upplýsingum, hér að neðan. 

aefingatafla_i_hamarshollinni-januar_2013

 

Hér að neðan eru svo tenglar inn á Facebooksíður flokka knattspyrnudeildarinnar sem notaðar eru fyrir tilkynningar og fréttir. Iðkendur, foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að skrá sig þar inn til að fá nýjustu upplýsingar um starf hvers flokks hverju sinni. 

Ef smellt er á viðkomandi flokk, þá flyst þú inn á síðu hans. 

8. flokkur 
7. og 6. flokkur 
5. flokkur 
4. og 3. flokkur 
Kvennaflokkar 

Þá eru þjálfara yngri flokka með síðu með myndum, æfingum, myndböndum og öðru gagnlegu og fræðandi efni sem má sjá HÉR

Loksins, loksins, loksins eru æfingar að hefjast í Hamarshöllinni. Æfingatafla hefur verið gefin út og má sjá hana hér að neðan. 

aefingatafla_i_hamarshollinni

Nú er Sleggjan, blað knattspyrnudeildarinnar, komið út. Að vanda er það meistara- og 2. flokksráð sem stendur fyrir útgáfunni. Vaskir drengir og menn meistara- og 2. flokks hafa verið að dreifa eintaki í hvert hús í Hveragerði undanfarið og ætti allir að hafa fengið eintak nú. Þá má nálgast Sleggjuna á helstu þjónustu- og samkomustöðum bæjarins.  

Meistaraflokkur knattspyrnudeildar gaf út sitt fyrsta rit sumarið 2004 sem þá var nefnt leikskrá, það sama var upp á teningnum árið 2005. Þóttu blöð þeirra ára mjög vel heppnuð ásamt því að vera skemmtileg og fræðandi um það starf sem var í gangi hjá knattspyrnudeildinni. Útgáfa ársins 2006 fékk nafnið Sleggjan og leikskrá meistaraflokksins nafnið Naglinn (Hamar-Sleggjan-Naglinn…). 

Naglinn var gefinn út í tvö ár en Sleggjan hélt áfram til og með 2008. Hamar hefur á þessum tíma gefið út hvorki meira né minna en 6.000 eintök af leikskránni og Sleggjunni, um 14.400 eintök af Naglanum og óteljandi dreifibréf fyrir leiki félagsins. 

Sleggjan hefur nú verið endurvakin og er í ár sú veglegasta sem gefin hefur verið út og stærsta eintakið til þessa, þökk sé frábærum stuðnings- og styrktaraðilum knattspyrnudeildarinnar. 
  
Knattspyrnudeildin vonar að lesendur hafi jafn gaman af lestri Sleggjunnar og okkur þótti að gefa hana út 🙂 

Til að nálgast Sleggjuna á tölvutæku formi, smellið  HÉR.

Fyrri útgáfur Sleggjunar og Naglans er hægt að skoða þær HÉR

Nú eru æfingar að hefjast aftur hjá knattspyrnudeildinni eftir örlítið hlé. Enn er þó bið á því að hægt verði að æfa í Hamarshöllinni vegna framkvæmda sem eru í gangi innandyra. Vonir standa til þess að um næstu mánaðarmót verði hægt að byrja að æfa í Hamarshöllinni en þangað til verður íþróttahúsið við Skólamörk og Hamarsvöllurinn nýtt til þess. 

Þjálfarar yngri flokka verða þeir Ólafur Jósefsson og Sveinbjörn Jón Ásgrímsson sem er mikill fengur að fá fyrir iðkendur og aðstandendur knattspyrnudeildarinnar. 
Hér að neðan má sjá bráðabirgða æfingatöflu fyrir september og gildir hún þar til æfingar hefjast í Hamarshöllinni. Fyrstu æfingar samkvæmt töflunni hefjast fimmtudaginn 20. september. 

Vonumst til að sjá sem flesta á æfingum. 

Áfram Hamar!!! 

 

aefingatafla_i_september

Hamarsmenn lutu í lægra haldi fyrir Njarðvík á útivelli í dag 2-1. Þrátt fyrir tapið eru Hamarspiltar öruggir með sæti í 2. deild næsta tímabil því Fjarðabyggð tapaði einnig sínum leik og getur ekki náð okkar mönnum að stigum þegar einni umferð er ólokið því á milli liðanna skilja fimm stig. 

Leikurinn í dag var fjörugur og áttu okkar menn hættulegri færi fram að miðjum fyrri hálfleik og hefðu á venjulegum degi átt að vera búnir að setja eitt til tvö mörk á heimamenn. Liðsuppstilling dagsins var nokkuð óvenjuleg, Sene lék sem miðvörður við hlið Andy í fjarveru Ölla. Sene hafði sýnt ágætist tilþrif í vörninni allt þar til ógæfan dundi yfir, klaufalegt sjálfsmark Sene kom heimamönnum óverðskuldað yfir 1-0. Snérist þá leikurinn við og sóttu nú heimamenn í sig veðrið en þökk sé Bjössa í markinu hélst sú staða er flautað var til leikhlés. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, Hamar sterkari og skapaði sér betri færi. Ingvi Rafn jafnaði leikinn fyrir okkur á 61. mínútu eftir þunga sókn. Leikurinn var í járnum og mikið um baráttu á vellinum. Heimamönnum í Njarðvík tókst svo að komast aftur yfir á 83. mínútu eftir klaufagang í vörninni og héldu út til loka leiks. 

Þrátt fyrir tap í dag var mönnum létt því fregnir höfðu borist af tapi Fjarðabyggðar gegn Aftureldingu og sætið mikilvæga í 2. deild á næsta ári því tryggt. Eftir erfiða byrjun á Íslandsmótinu tókst strákunum því ætlunarverk sitt og mega þeir vel við una því deildin í ár hefur verið með þeim sterkustu í árabil. Framtíðin hjá Hamri er björt því í sumar hafa fjölmargir ungir heimamenn fengið að spreyta sig hjá meistaraflokknum og sumir fest sig í sessi sem byrjunarliðsmenn. Nú er að byggja á reynslu drengjanna og hópsins í heild því efniviðurinn og aðstaðan er svo sannarlega fyrir hendi. 

Framundan er lokaleikur Íslandsmótsins, gegn KF á Grýluvelli laugardaginn 22. sept. kl. 14:00, og um að gera að fjölmenna á völlinn til að samgleðast með strákunum og þakka þeim fyrir sumarið. Við taka spennandi tímar í vetur í nýju Hamarshöllinni og undirbúningur fyrir næsta tímabil. 

Áfram Hamar!!!

Ólafur Jósefsson, betur þekktur sem Óli Jó, hefur látið af störfum sem yfirþjálfari knattspyrnudeildar Hamars. Af því tilefni vill hann koma eftirfarandi tilkynningu á framfæri: 

Heil og sæl öll sömul. 

Ég er því miður hættur sem yfirþjálfari og því þurfa allar fyrirspurnir að beinast til Steinars formanns unglingaráðs og/eða annarra í stjórn eftir atvikum. Mailið hjá þeim er að finna hér og ég mun ekki heldur svara í síma knattspyrnudeildar frá og með morgundeginum. 

Æfingar mun hefjast fljótlega og vonandi verður fjölgun á iðkendum í öllum flokkum með stórbættri aðstöðu. Mig langar að þakka öllum stjórnarmönnum, foreldrum, iðkendum og öðrum ótöldum innilega fyrir samstarfið og samvinnuna og óska ykkur öllum alls hins besta í framtíðinni.

Bestu kveðjur, 
Óli Jó 

Það verður dregið í riðla í Meistaradeildinni í dag og eins og áður er mikil spenna í loftinu enda geta mörg stórlið lent saman í riðla. UEFA er búið að skipta liðunum 32 niður í fjóra styrkleikaflokka og þar vekur athygli að Porto er í efsta flokki frekar en ensku meistararnir í Manchester City. 

Þetta þýðir að Manchester City gæti lent í riðli með spænsku meisturunum (Real Madrid), ítölsku meisturunum(Juventus) og þýsku meisturunum (Borussia Dortmund). Chelsea, Arsenal og Manchester United eru öll í efsta styrkleikaflokki en lið frá saman landi geta ekki lent saman í riðli. 

20 af 32 liðum í pottinum voru með í Meistaradeildinni í fyrra en liðin í ár koma frá 17 löndum. Montpellier, Nordsjælland og Málaga eru í riðlakeppninni í fyrsta sinn og það er örugglega mikill spenningur í þeirra röðum um að fá að vita hvaða stórlið eru á leiðinni í heimsókn á næstu mánuðum. 

Drátturinn í dag hefst klukkan 15.45 að íslenskum tíma en dregið verður í átta riðla þar sem fjögur félög spila heima og að heiman og keppa um tvö sæti í sextán liða úrslitunum. Hægt verður að fylgjast með drættinum á beinni útsendingu af vef UEFA hér.  

Styrkleikalistarnir fyrir Meistaradeildardráttinn í dag: 

Fyrsti styrkleikaflokkur: Chelsea, Barcelona, Manchester United, Bayern Munchen, Real Madrid, Arsenal, Porto, AC Milan. 

Annar styrkleikaflokkur: Valencia, Benfica, Shakhtar Donetsk, Zenit St Petersburg, Schalke, Manchester City, Braga, Dynamo Kiev. 

Þriðji styrkleikaflokkur: Olympiakos, Ajax, Anderlecht, Juventus, Spartak Moskva, Paris St Germain, Lille, Galatasaray. 

Fjórði styrkleikaflokkur: Celtic, Borussia Dortmund, BATE Borisov, Dinamo Zagreb, CFR Cluj, Malaga, Montpellier, FC Nordsjælland. 

Þessi frétt birtist á visir.is og má sjá hana hér.

Breyting hefur orðið á skiptingu æfingatímabila knattspyrnudeildarinnar. Í stað þriggja tímabila (haust, vor, sumar) eru þau nú tvö (1. sept-28. feb. og 1. mars-31. ágúst). Þetta breytta skipulag auðveldar utanumhald og skipulagningu allra flokka og knattspyrnudeildarinnar í heild. 

Eins og flestir vita þá er rekstur og stjórn knattspyrnudeildarinnar algerlega háður framlagi sjálfboðaliða, hvort heldur stjórnarmanna eða annarra sem vilja, geta og hafa lagt lið. Æfingagjöld knattspyrnudeildarinnar hafa verið óbreytt síðustu þrjú ár hið minnsta á sama tíma og verðlag hefur almennt hækkað umtalsvert.

 

Til að deildin hafi tök á að standa undir sínum helsta kostnaðarlið, launum þjálfara og kostnaði, er því nauðsynlegt að hækka æfingagjöldin nú og nemur hækkunin einungis kr. 1.250.- pr. mán. sem er ódýrara en máltíð fyrir einn á flestum skyndibita- og veitingastöðum.

 

Æfingagjöld hvers flokks (6. til 2. flokks) nú eru kr. 25.000.- fyrir hvort tímabil eða kr. 4.166.- pr. mán. og kr. 260.- pr. æfingu, það er því ódýrara að mæta á fótboltaæfingu en að kaupa sér pylsu. Æfingagjöld 7. flokks eru kr. 20.000.- pr. tímabil og fyrir 8. flokk eru þau kr. 10.000.- hvort tímabil. Þá eru allir fjármunir sem knattspyrnudeildin aflar með innheimtu æfingagjalda eða annarra styrkja fyrir yngri flokkana nýttir eingöngu í þeirra þágu og án allrar fjárhagslegrar tengingar við meistaraflokkinn.

 

Knattspyrnudeildin leggur sig fram við að halda öllum kostnaði í lágmarki og hefur dregið það í lengstu lög að hækka gjaldskrá sína, þrátt fyrir hækkun allra kostnaðarliða og verðlags almennt á Íslandi. Að æfa knattspyrnu er því ekki bara frábær og góð skemmtun í gefandi félagsskap heldur einnig ódýrari (og hollari) en regluleg neysla skyndibita. Taktu þátt í skemmtilegu starfi knattspyrnudeildarinnar og æfðu eins atvinnumaður í Hamarshöllinni í vetur með því að skrá þig í fótbolta á skráningardegi Hamars.