Hamarsmenn lutu í lægra haldi fyrir Njarðvík á útivelli í dag 2-1. Þrátt fyrir tapið eru Hamarspiltar öruggir með sæti í 2. deild næsta tímabil því Fjarðabyggð tapaði einnig sínum leik og getur ekki náð okkar mönnum að stigum þegar einni umferð er ólokið því á milli liðanna skilja fimm stig. 

Leikurinn í dag var fjörugur og áttu okkar menn hættulegri færi fram að miðjum fyrri hálfleik og hefðu á venjulegum degi átt að vera búnir að setja eitt til tvö mörk á heimamenn. Liðsuppstilling dagsins var nokkuð óvenjuleg, Sene lék sem miðvörður við hlið Andy í fjarveru Ölla. Sene hafði sýnt ágætist tilþrif í vörninni allt þar til ógæfan dundi yfir, klaufalegt sjálfsmark Sene kom heimamönnum óverðskuldað yfir 1-0. Snérist þá leikurinn við og sóttu nú heimamenn í sig veðrið en þökk sé Bjössa í markinu hélst sú staða er flautað var til leikhlés. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, Hamar sterkari og skapaði sér betri færi. Ingvi Rafn jafnaði leikinn fyrir okkur á 61. mínútu eftir þunga sókn. Leikurinn var í járnum og mikið um baráttu á vellinum. Heimamönnum í Njarðvík tókst svo að komast aftur yfir á 83. mínútu eftir klaufagang í vörninni og héldu út til loka leiks. 

Þrátt fyrir tap í dag var mönnum létt því fregnir höfðu borist af tapi Fjarðabyggðar gegn Aftureldingu og sætið mikilvæga í 2. deild á næsta ári því tryggt. Eftir erfiða byrjun á Íslandsmótinu tókst strákunum því ætlunarverk sitt og mega þeir vel við una því deildin í ár hefur verið með þeim sterkustu í árabil. Framtíðin hjá Hamri er björt því í sumar hafa fjölmargir ungir heimamenn fengið að spreyta sig hjá meistaraflokknum og sumir fest sig í sessi sem byrjunarliðsmenn. Nú er að byggja á reynslu drengjanna og hópsins í heild því efniviðurinn og aðstaðan er svo sannarlega fyrir hendi. 

Framundan er lokaleikur Íslandsmótsins, gegn KF á Grýluvelli laugardaginn 22. sept. kl. 14:00, og um að gera að fjölmenna á völlinn til að samgleðast með strákunum og þakka þeim fyrir sumarið. Við taka spennandi tímar í vetur í nýju Hamarshöllinni og undirbúningur fyrir næsta tímabil. 

Áfram Hamar!!!