Breyting hefur orðið á skiptingu æfingatímabila knattspyrnudeildarinnar. Í stað þriggja tímabila (haust, vor, sumar) eru þau nú tvö (1. sept-28. feb. og 1. mars-31. ágúst). Þetta breytta skipulag auðveldar utanumhald og skipulagningu allra flokka og knattspyrnudeildarinnar í heild. 

Eins og flestir vita þá er rekstur og stjórn knattspyrnudeildarinnar algerlega háður framlagi sjálfboðaliða, hvort heldur stjórnarmanna eða annarra sem vilja, geta og hafa lagt lið. Æfingagjöld knattspyrnudeildarinnar hafa verið óbreytt síðustu þrjú ár hið minnsta á sama tíma og verðlag hefur almennt hækkað umtalsvert.

 

Til að deildin hafi tök á að standa undir sínum helsta kostnaðarlið, launum þjálfara og kostnaði, er því nauðsynlegt að hækka æfingagjöldin nú og nemur hækkunin einungis kr. 1.250.- pr. mán. sem er ódýrara en máltíð fyrir einn á flestum skyndibita- og veitingastöðum.

 

Æfingagjöld hvers flokks (6. til 2. flokks) nú eru kr. 25.000.- fyrir hvort tímabil eða kr. 4.166.- pr. mán. og kr. 260.- pr. æfingu, það er því ódýrara að mæta á fótboltaæfingu en að kaupa sér pylsu. Æfingagjöld 7. flokks eru kr. 20.000.- pr. tímabil og fyrir 8. flokk eru þau kr. 10.000.- hvort tímabil. Þá eru allir fjármunir sem knattspyrnudeildin aflar með innheimtu æfingagjalda eða annarra styrkja fyrir yngri flokkana nýttir eingöngu í þeirra þágu og án allrar fjárhagslegrar tengingar við meistaraflokkinn.

 

Knattspyrnudeildin leggur sig fram við að halda öllum kostnaði í lágmarki og hefur dregið það í lengstu lög að hækka gjaldskrá sína, þrátt fyrir hækkun allra kostnaðarliða og verðlags almennt á Íslandi. Að æfa knattspyrnu er því ekki bara frábær og góð skemmtun í gefandi félagsskap heldur einnig ódýrari (og hollari) en regluleg neysla skyndibita. Taktu þátt í skemmtilegu starfi knattspyrnudeildarinnar og æfðu eins atvinnumaður í Hamarshöllinni í vetur með því að skrá þig í fótbolta á skráningardegi Hamars.