Posts

Aðalfundur Badmintondeildar Hamars verður haldinn laugardaginn 16. febrúar kl. 13 – 14 í fundarherbergi Hamars (inngangur við Crossfit Hengil).

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf.

Allir foreldrar eru hvattir til að mæta

Kveðja,
Stjórn Badmintondeildar.

Aðalfundur Íþróttafélagsins Hamars verður haldinn sunnudaginn 24. febrúar kl 14:00 í Grunnskólanum í Hveragerði

FUNDARBOÐ
Íþróttafélagið Hamar heldur aðalfund í Grunnskólanum
í Hveragerði sunnudaginn 24. febrúar 2019 kl. 14.00

Fundarefni:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar.
  3. Reikningsskil.
  4. Venjuleg aðalfundarstörf.
  5. Önnur mál.
  6. Verðlaunaafhending og lýst kjöri íþróttamanns Hamars.
  7. Kaffiveitingar í boði Hamars.

Verið velkomin
Stjórnin

– – –

Hér er fundarboð sem PDF skjal.

Það er mikið að gera hjá blakdeildinni um helgina en karlaliðið keppir í 1. deildinni klukkan 19:00 í kvöld gegn Aftureldingu B.
Karlaliðið er í toppbaráttu 1. deildarinnar og mikilvæg stig í boði gegn Aftureldingu.

Kvennaliðin spila svo sína hvora 5 leikina. Á Akureyri er keppnishelgi í 5. deild og þar er B-lið félagsins í botnbaráttu. í Kórnum í Kópavogi er keppt í 2. deild og þar er A-liðið um miðja deild.

Samtals spila lið Hamars því 11 blakleiki á Íslandsmóti um helgina.

Föstudaginn 28. desember var kynnt val á íþróttafólki Hveragerðis 2018. Þar tilnefna deildir Hamars sína íþróttamenn auk þess sem veitar eru viðurkenningar til landsliðsfólks. Hvergerðingar eiga  tvær landsliðsstúlkur, Gígja Marín Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir og einnig voru valinn körfuknattleikskona, Helga Sóley Heiðarsdóttir, og körfuknattleiksmaður, Arnar Dagur Daðason fyrir árið 2018. Á mynd með frétt eru Arnar Dagur og Gígja Marín.

Hamar hafði sigur eftir æsispennandi stigakeppni við Þór og Dímon á HSK móti barna og unglinga sem fram fór í Þorlákshöfn í dag. Margrét Guangbing Hu og Valgarð Ernir Emilsson urðu tvöfaldir HSK meistarar í U15 og U17 flokki. Hamar átti tíu keppendur í U11 sem kepptu ekki til stiga í mótinu en allir fengu marga góða og spennandi leiki og öll fengu þátttökuverðlaun í lokin.

 

 

Hamar og ÍR mættust í kvöld í íþróttahúsinu í Hveragerði í fyrsta leik 1.deildar kvenna á þessu tímabili. Liðin voru jöfn framan af leik en Hamar tók að síga fram úr undir lok 1. leikhluta, sá leikhluti fór 15-9 fyrir Hamar. Hamar leiddi í hálfleik 32-25. ÍR byrjaði síðari hálfleik af krafti og náði að minnka muninn niður í 2 stig. Þær pressuðu stíft á Hamarskonur sem lentu í smá basli við að leysa pressuna. Hamar tók svo forystuna aftur en liðið var að spila góðan varnarleik í seinni hálfleik og voru Helga Sóley og Íris sérstaklega grimmar að stela boltum. Hamar var svo með nokkuð örugga forystu allan síðasta leikhlutann og endaði leikurinn 69-56 fyrir Hamri.

 

Það var sérstaklega gaman að sjá Írisi Ásgeirsdóttur aftur á parketinu en hún átti þrusu leik, var stigahæst í liðinu með 18 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Það var líka gaman að sjá þrjá unga leikmenn stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki en þær koma frá Hrunamönnum. Það eru þær Una Bóel Jónsdóttir, Margrét Thorsteinson og Perla María Kristjánsdóttir sem stóðu sig allar mjög vel. Perla María átti mjög flotta innkomu af bekknum, endaði leikinn með 13 stig og átti mikilvægar körfur í síðari hluta leiksins. Álfhildur Þorsteinsdóttir átti góðan leik undir körfunni og skoraði 11 stig og reif niður 18 fráköst. Helga Sóley Heiðarsdóttir var með 11 stig og 5 stolna bolta. Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði 5 stig, Bjarney Sif Ægisdóttir 5 stig, Dagrún Inga Jónsdóttir 4 stig, Rannveig Reynisdóttir var með 2 stig og 6 fráköst. Góður sigur liðsheildar Hamars þar sem allir lögðu sitt af mörkum.

 

Hjá ÍR átti Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir góðan leik, var með 10 stig og 8 fráköst. Nína Jenný Kristjánsdóttir var öflug undir körfunni og setti 13 stig. Birna Eiríksdóttir setti 11 stig og Katla María Stefánsdóttir setti 9 stig.

 

Það var vel mætt í íþróttahúsið í Hveragerði í kvöld og tímabilið fer vel af stað hjá Hamarskonum. Næsti leikur þeirra er í Njarðvík laugardaginn 13. október.

Tölfræðileiksins má finna hér

Tinna Helgadóttir og Atli Jóhannesson landsliðsþjálfarar hafa valið Margréti Guangbing Hu frá Hamri í unglingalandslið Íslands í badminton. Þau tilkynntu í september þá 26 keppendur frá fimm félögum í U3 – U17 landsliðið sem reglulega mun taka þátt í æfingabúðum í Reykjavík auk þess sem keppendur verða valdir í mót erlendis. 

 

Lilja sigurvegari í U15 og Margrét með silfrið

 

Hamar átti að þessu sinni þrjá keppendur í U15 – U17 flokki á fyrsta A móti unglinga í badminton sem fram fór í TBR húsunum 22.september sl.
Keppt var í riðlum í einliðaleik og var hreinn útsláttur í tvíliða- og tvenndarleikjum. 

Öll fengu þau jafna og erfiða leiki enda er þetta A-flokks mót og keppni því mjög hörð. Margrét Guangbing Hu komst í úrslit  í einliðaleik og endað með silfur í sínum flokki.

Nánari úrslit má sjá hér:

https://www.tournamentsoftware.com/sport/tournament.aspx?id=3CD44A8C-8B5D-4C0D-A8CA-D161A906A1AE

Leikmenn Hamars í meistaraflokki kvenna skrifuðu á dögunum undir leikmannasamninga fyrir komandi tímabil. Leikmannahópurinn er að mestu leyti óbreyttur frá því í fyrra og Kristinn mun þjálfa liðið áfram. Þórunn Bjarnadóttir þarf frá að hverfa sem leikmaður en hún á von á barni í desember. Hún hefur þó ekki sagt skilið við liðið heldur skrifaði undir samning um að sinna starfi aðstoðarþjálfara í vetur, ómetanlegt fyrir liðið að njóta krafta hennar áfram.

Dagrún Inga Jónsdóttir hefur bæst við hópinn en hún kemur úr Þorlákshöfn. Dagrún Inga hefur spilað með U-16 landsliði Íslands og er mikill fengur fyrir liðið að fá hana í hópinn. Hrunastúlkurnar Perla María Karlsdóttir og Margrét Lilja Thorsteinson hafa einnig bæst við meistaraflokkinn en þær hafa hingað til spilað með sameiginlegu liði Hamars og Hrunamanna í stúlknaflokki.

Kvennalið Hamars er því skemmtileg blanda af sunnlenskum ungum, efnilegum stúlkum og eldri, reynslumeiri mæðrum!

Fyrsti leikur liðsins í vetur er heimaleikur föstudagskvöldið 5. október. Leikurinn verður nánar auglýstur þegar nær dregur. Við hvetjum fólk til að mæta á leiki og hvetja stelpurnar áfram.