Leikmenn Hamars í meistaraflokki kvenna skrifuðu á dögunum undir leikmannasamninga fyrir komandi tímabil. Leikmannahópurinn er að mestu leyti óbreyttur frá því í fyrra og Kristinn mun þjálfa liðið áfram. Þórunn Bjarnadóttir þarf frá að hverfa sem leikmaður en hún á von á barni í desember. Hún hefur þó ekki sagt skilið við liðið heldur skrifaði undir samning um að sinna starfi aðstoðarþjálfara í vetur, ómetanlegt fyrir liðið að njóta krafta hennar áfram.

Dagrún Inga Jónsdóttir hefur bæst við hópinn en hún kemur úr Þorlákshöfn. Dagrún Inga hefur spilað með U-16 landsliði Íslands og er mikill fengur fyrir liðið að fá hana í hópinn. Hrunastúlkurnar Perla María Karlsdóttir og Margrét Lilja Thorsteinson hafa einnig bæst við meistaraflokkinn en þær hafa hingað til spilað með sameiginlegu liði Hamars og Hrunamanna í stúlknaflokki.

Kvennalið Hamars er því skemmtileg blanda af sunnlenskum ungum, efnilegum stúlkum og eldri, reynslumeiri mæðrum!

Fyrsti leikur liðsins í vetur er heimaleikur föstudagskvöldið 5. október. Leikurinn verður nánar auglýstur þegar nær dregur. Við hvetjum fólk til að mæta á leiki og hvetja stelpurnar áfram.