Devin Antonio Sweetney sem spilaði með okkur Hamarsmönnum eftir áramót tímabilið 2010-2011 er nú kominn á samning hjá NBA liðinu Denver Nuggets. Sweetney var upphaflega boðið í æfingabúðir hjá Denver fékk síðan í framhaldinu samning hjá félaginu. Sweetney spilaði með okkur síðustu sjö leikina á tímabilinu og skoraði tæp 28 stig að meðaltali, tók rúm sex fráköst og átti tvær stoðsendingar að meðtali í þessum sjö leikjum.

Stigahæsti leikurinn hans var gegn Tindastól í frystikistunni en þar var hann með 38 stig í 83-81 sigri. Eins og flestir vita féllum við á verri innbyrðis viðureign við Tindastól sem var með jafnmörg stig og Hamar eftir tímabilið eða 14 stig. Tindastóll vann sinn heimaleik með meiri mun og því var okkar hlutskipti fall þetta tímabil. Þjálfari okkar á þeim tíma var Ágúst Björgvinsson.

Gaman verður að fylgjast með okkar manni í vetur en hann mun spila í treyju númer 34 hjá Denver.

Áfram Hamar!

Mynd: sunnlenska.is