Bæði kvenna og karlalið Hamars unnu HSK titlana að þessu sinni. Kvennaliðið Hamar 1 háði harða baráttu við Dímon um titilinn og hafði betur að lokum. Karlaliðið var í mikilli keppni við Samhyggð og Hrunamenn um titilinn sem loksins er kominn í Hveragerði eftir fjölda ára dvöl í Hrunamannahreppi. Hamar sendi tvö lið til keppni í báðum flokkum í ár, þannig að gróska er í blaklífinu um þessar mundir.

Hamar kvk HSK 2015-2

 

Ragnheiður Eiríksdóttir var útnefnd blakmaður Hamars fyrir árið 2014 á aðalfundi blakdeildar í janúar. Ragnheiður hefur stundað blak með Hamri undanfarin ár og hefur hún tekið afar miklum framförum á þeim tíma. Ragnheiður leikur vanalega sem kantsmassari og hefur hún átt sinn þátt í velgengni Hamars í Íslandsmótum undanfarinna tveggja ára þar sem kvennaliðið hefur unnið sig úr þriðju deild í þá fyrstu á tveimur árum.  Ragnheiður er gríðarlega áhugasöm og leggur sig alltaf vel fram á æfingum og keppni.  Jafnframt er Ragnheiður góður félagi og leggur sitt af mörkum að gera liðsfélagana liðugri með sínum víðfrægu teygjuæfingum. Blakdeild óskar Ragnheiði til hamingju með titilinn.

Aðalfundur blakdeildar verdur haldinn, fimmtudaginn 29. Jan, kl 21 í aðstöðuhúsinu við Hamarshöllina.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum Hamars.

Blakdeild Hamars sendir 3 lið til keppni í Íslandsmótinu í blaki. Karlalið keppir í 1.deild (næstefstu), Og kvennaliðin Hamar A í 2. deild og Hamar B í 5. deild. Deildakeppni karla er leikin heima og heiman en kvennaliðin leika í turneringaformi.  Mótið fer vel af stað hefur karlaliðið sigrað tvo leiki af þremur. Hamar A kvenna er í 2-3 sæti af 9 liðum eftir fyrstu turnernngu sem fram fór á Ísafirði og Hamar B lék á Siglufirði þar sem 2 leikir unnust og 2 töpuðust helgina 8.-9. nóv.

 

Hamarsmaðurinn Hafsteinn Valdimarsson sem spilar nú blak með Marienlyst í Danmörku varð danskur meistari fyrr í mánuðinum þegar liðið sigraði Gentofte 3-2 á heimavelli í fimmta leik úrslitaeinvígisins og hafði þar með betur í rimmunni 3-2. Lið Hafsteins varð einnig danskur bikarmeistari í vetur. Þetta er sjötti titill Hafsteins með liðinu en hann varð einnig lands- og bikarmeistari í fyrra og svo bikarmeistari og Norðurlandameistari árið 2012. Þá var Hafsteinn einnig fyrr í mánuðinum valinn besti miðjumaðurinn í liði ársins í dönsku úrvalsdeildinni.

Stjórn Hamars óskar Hafsteini til hamingju með frábæran árangur!

Kvennalið Hamars tryggði sér sæti í 2. deild í blaki í lokakeppni í 3. deild í blaki um helgina. Leikið var í Garðabæ þar sem liðið lék 4 lokaleiki sína. Hörku keppni var um það hvaða 2 lið færu upp um deild og að lokum voru það Þróttur c og Hamar sem tryggðu sér sætin tvö sem í boði voru. Liðið og lokastöðuna má sjá á meðfylgjandi mynd.

   

Lokastaðan 3 deild

IMG_6489

Blakmaður Hamars árið 2013 er Ásdís Linda Sverrisdóttir. 

Valið á blakmanni ársins er alltaf erfitt.  Blak er leikur liðsheildarinnar og það á sérlega vel við í blakliðum Hamars, þar sem liðin eru mönnuð vel spilandi einstaklingum í öllum stöðum og liðsheildin ræður jafnan úrslitum.  Þannig að þó hér sé einn einstaklingur heiðraður, þá mega allir iðkendur félagsins una vel við sinn hlut og taka til sín hluta af þessum heiðri. 

Blakmaður ársins á að vera einstaklingur sem spilar íþróttina vel, en einnig einstaklingur sem leggur sig fram bæði í keppni og á æfingum, byggir á styrkleikum sínum en vinnur á veikleikum og tekur þannig framförum, mætir vel á æfingar og er drífandi í félagsstarfinu, og er góður félagi bæði innan og utan vallar.  Blakmaður ársins 2013 uppfyllir svo sannarlega allar þessar kröfur. 

Blakmaður ársins hefur aðeins stundað blakið í nokkur ár.  Hún var engu að síður lykilmanneskja í sókn Hamarsliðsins undanfarið ár, auk þess að vera mjög öflug í hávörn.  Þá hefur hún tekið stórstígum framförum í lágvörn og skilar því hlutverki af prýði, auk þess sem varnir andstæðinganna kvíða uppgjöfum hennar.  Fyrir utan deildakeppni og öldungamót tók hún þátt í strandblaki í sumar með góðum árangri og kom til keppni í haust í betra formi en nokkru sinni.  Loks er hún einstaklega ljúfur og skemmtilegur félagi, góð bæði við menn og dýr.

Sigurður Guðmundsson blakfélagi okkar Hamarsmanna lést þann 12. febrúar, eftir snarpa baráttu við krabbamein. Er þetta fyrsta skarðið sem hoggið er í hóp þeirra ágætu blakara sem stundað hafa íþróttina í Hveragerði undanfarin 20 ár.   Blakdeild Hamars í Hveragerði var stofnuð árið 1993 og á fyrstu árum deildarinnar komu til liðs við okkur hjónin Sigurður Guðmundsson og Hulda Sigurlína Þórðardóttir. Siggi og Lína, eins og þau gjarnan voru nefnd sem órofa heild,.komu inn í blaklífið með okkur af áhuga og krafti. Var mikill styrkur af þeim hjónum sem bæði þóttu afar liðtæk í íþróttinni. Siggi hlaut sitt blakuppeldi með Víkingi í Reykjavík, þar sem á árum áður var rekin kröftug blakdeild. Náði hann á þeim árum að komast í landslið Íslands og leika þónokkra landsleiki. Siggi var hávaxinn miðjumaður og miðlaði af reynslu sinni til yngri manna. Hann var afar fylginn sér og lét okkur heyra það þegar honum þótti nóg um aumingjaskapinn. Að sama skapi hvatti hann okkur yngri mennina til dáða þegar mikið lá við, sem ekki veitti af á þeim árum. Siggi tók að sér þjálfun af og til og til að mynda þjálfaði hann lið HSK sem tók þátt í Landsmóti UMFÍ á Egilsstöðum og Neskaupstað  árið 2001 og  spilaði að sjálfsögðu með. Einnig kom hann að liðsstjórn og var í leikmannahópi HSK liðsins sem keppti á landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki 2004.  Öldungamót blakara eru landsfræg og þar lagði Siggi sitt af mörkum og átti stóran þátt í að Hamar vann sér sæti í 1. deild í fyrsta sinn á því móti. Siggi hlaut að sjálfsögðu nafnbótina “blakmaður Hamars” í sinni tíð.  Tóku þau hjón fullan þátt í félagslífi deildarinnar og gleðistundirnar voru margar sem gott er að minnast nú. Hnjámeiðsli gerðu Sigga blakið erfitt hin seinni ár og eftir að þau hjón fluttu í Kópavog reyndu þau eftir megni að sækja árlegar blaksamkomur, eins og Daddamótið. Þau voru ávallt góð heim að sækja og til marks um gestrisni þeirra þá buðu þau fram hús sitt, í Kópavogi, fyrir bæði lið okkar í uppihald og gistingu þegar við tókum þátt í öldungamótinu í Garðabæ árið 2007. Við blakfélagar þökkum góðan félagskap og samfylgdina á mörgum keppnis og gleðistundum og vottum Huldu Línu, Vigni, Svandísi, Rakel Rebekku, mökum, barnabörnum og aðstandendum okkar dýpstu samúð.    

Valdimar Hafsteinsson

[nggallery  id=25]

 

 

Aðalfundur blakdeildar verður haldinn fimmtudaginn 13. febrúar kl. 21, í aðstöðuhúsinu við Hamarshöllina.