Sigurður Guðmundsson blakfélagi okkar Hamarsmanna lést þann 12. febrúar, eftir snarpa baráttu við krabbamein. Er þetta fyrsta skarðið sem hoggið er í hóp þeirra ágætu blakara sem stundað hafa íþróttina í Hveragerði undanfarin 20 ár.   Blakdeild Hamars í Hveragerði var stofnuð árið 1993 og á fyrstu árum deildarinnar komu til liðs við okkur hjónin Sigurður Guðmundsson og Hulda Sigurlína Þórðardóttir. Siggi og Lína, eins og þau gjarnan voru nefnd sem órofa heild,.komu inn í blaklífið með okkur af áhuga og krafti. Var mikill styrkur af þeim hjónum sem bæði þóttu afar liðtæk í íþróttinni. Siggi hlaut sitt blakuppeldi með Víkingi í Reykjavík, þar sem á árum áður var rekin kröftug blakdeild. Náði hann á þeim árum að komast í landslið Íslands og leika þónokkra landsleiki. Siggi var hávaxinn miðjumaður og miðlaði af reynslu sinni til yngri manna. Hann var afar fylginn sér og lét okkur heyra það þegar honum þótti nóg um aumingjaskapinn. Að sama skapi hvatti hann okkur yngri mennina til dáða þegar mikið lá við, sem ekki veitti af á þeim árum. Siggi tók að sér þjálfun af og til og til að mynda þjálfaði hann lið HSK sem tók þátt í Landsmóti UMFÍ á Egilsstöðum og Neskaupstað  árið 2001 og  spilaði að sjálfsögðu með. Einnig kom hann að liðsstjórn og var í leikmannahópi HSK liðsins sem keppti á landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki 2004.  Öldungamót blakara eru landsfræg og þar lagði Siggi sitt af mörkum og átti stóran þátt í að Hamar vann sér sæti í 1. deild í fyrsta sinn á því móti. Siggi hlaut að sjálfsögðu nafnbótina “blakmaður Hamars” í sinni tíð.  Tóku þau hjón fullan þátt í félagslífi deildarinnar og gleðistundirnar voru margar sem gott er að minnast nú. Hnjámeiðsli gerðu Sigga blakið erfitt hin seinni ár og eftir að þau hjón fluttu í Kópavog reyndu þau eftir megni að sækja árlegar blaksamkomur, eins og Daddamótið. Þau voru ávallt góð heim að sækja og til marks um gestrisni þeirra þá buðu þau fram hús sitt, í Kópavogi, fyrir bæði lið okkar í uppihald og gistingu þegar við tókum þátt í öldungamótinu í Garðabæ árið 2007. Við blakfélagar þökkum góðan félagskap og samfylgdina á mörgum keppnis og gleðistundum og vottum Huldu Línu, Vigni, Svandísi, Rakel Rebekku, mökum, barnabörnum og aðstandendum okkar dýpstu samúð.    

Valdimar Hafsteinsson

[nggallery  id=25]