Blakmaður Hamars árið 2013 er Ásdís Linda Sverrisdóttir. 

Valið á blakmanni ársins er alltaf erfitt.  Blak er leikur liðsheildarinnar og það á sérlega vel við í blakliðum Hamars, þar sem liðin eru mönnuð vel spilandi einstaklingum í öllum stöðum og liðsheildin ræður jafnan úrslitum.  Þannig að þó hér sé einn einstaklingur heiðraður, þá mega allir iðkendur félagsins una vel við sinn hlut og taka til sín hluta af þessum heiðri. 

Blakmaður ársins á að vera einstaklingur sem spilar íþróttina vel, en einnig einstaklingur sem leggur sig fram bæði í keppni og á æfingum, byggir á styrkleikum sínum en vinnur á veikleikum og tekur þannig framförum, mætir vel á æfingar og er drífandi í félagsstarfinu, og er góður félagi bæði innan og utan vallar.  Blakmaður ársins 2013 uppfyllir svo sannarlega allar þessar kröfur. 

Blakmaður ársins hefur aðeins stundað blakið í nokkur ár.  Hún var engu að síður lykilmanneskja í sókn Hamarsliðsins undanfarið ár, auk þess að vera mjög öflug í hávörn.  Þá hefur hún tekið stórstígum framförum í lágvörn og skilar því hlutverki af prýði, auk þess sem varnir andstæðinganna kvíða uppgjöfum hennar.  Fyrir utan deildakeppni og öldungamót tók hún þátt í strandblaki í sumar með góðum árangri og kom til keppni í haust í betra formi en nokkru sinni.  Loks er hún einstaklega ljúfur og skemmtilegur félagi, góð bæði við menn og dýr.