Jón Guðmundsson, fyrsti formaður knattspyrnudeildar Hamars, féll frá nú í janúarmánuði. Jón var drengur góður, vildi öllum vel og vildi allt fyrir alla gera. Jón var vakinn og sofinn yfir starfi knattspyrnudeildarinnar og vann ötullega að uppbyggingu knattspyrnuíþróttarinnar í Hveragerði í sinni formannstíð. Það fór varla fram knattspyrnuleikur hjá Hamri öðruvísi en að Jón væri viðstaddur, hvetjandi sitt fólk áfram. Knattspyrnuiðkendur Hamars eiga Jóni mikið að þakka, án hans eljusemi og ástríðu er óvíst hvernig umhorfs væri hjá knattspyrnudeildinni í dag. Jón var frumkvöðull og hugsjónamaður, hann lagði líf sitt og sál í að koma knattspyrnudeildinni á koppinn á erfiðum og umhleypingasömum tímum. Jón markaði djúp spor í sögu knattpyrnudeildarinnar, hann var hvers manns hugljúfi, sanngjarn, réttsýnn, jákvæður, skynsamur og umfram allt góður maður. Menn eins og Jón eru fyrirmyndir, fyrirmyndir þeirra sem gefa frítíma sinn í þágu annarra án þess að óska einhvers í staðinn. Á lokahófi meistaraflokks knattspyrnudeildarinnar árið 2006, var Jóni veitt viðurkenning fyrir hans störf  og hann um leið útnefndur sem fyrsti heiðurfélagi knattspyrnudeildarinnar. Þurfti að beita Jóni umtalsverðum fortölum til að taka við þeirri viðurkenningu, enda var Jón hógvær með eindæmum og ekki mikið fyrir að trana sér fram. Við syrgjum fráfall Jóns og vottum fjölskyldu hans okkar samúð. Um leið og við kveðjum Jón með söknuði, viljum við þakka, minnast og gleðjast yfir þeim tíma og því starfi sem hann gaf af sér í þágu knattspyrnudeildarinnar.

Hjörtur Sveinsson

Verðlaunahafar

Jón útnefndur