Íslandsmót öldunga, stærsta öldungumóti sem haldið hefur verið er nú lokið.

Mótið var haldið í Mosfellsbæ undir styrkri stjórn Aftureldingar.

Hamar sendi 4 lið til keppni, 2 í kvennaflokki og 2 í karlaflokki.

Kvennaliðin spiluðu í 3. deild og 7. deild en karlaliðin í 3. og 4. deild.

Árangurinn var ágætur en öll liðin héldu sætum sínum í deild. Þriðju deildar lið kvenna gerði gott betur og hafnaði í 2. sæti og mun því spila í 2. og næstefstu deild að ári líkt og á Íslandsmótinu.

Öldungamótið á næsta ári verður svo í höndum KA fólks á Akureyri að ári.

Karlalið Hamars í blaki tók kvennaliðið sér til fyrirmyndar og varð HSK meistari í vikunni.

6 lið tóku þátt í mótinu og þar af 2 frá Hamri, einu félaga. Leikin var einföld umferð, allir við alla.

Hamar 1 varð hlutskarpast með 14 stig, 3 stigum meira en Laugdælir sem höfnuðu í 2 sæti. Hamar A hafnaði svo í 4. sæti með 5 stig.

Úrslit héraðsmóts HSK karla 2017 voru annars sem hér segir:

1. sæti Hamar 1 með 14 stig

2. sæti UMFL með 11 stig

3. sæti Hrunamenn með 8 stig

4 sæti Hamar A með 5 stig

5. sæti Dímon með 4 stig

6. sæti Þjótandi með 3 stig

Seinni hluti HSK móts kvenna í blaki fór fram á Laugarvatni í gær.

Sjö lið voru skráð til leiks og var leikin einföld umferð í tveimur hlutum.

Hamar 1 og Dímon/Hekla 1 voru bæði taplaus eftir fyrri hlutann og allar líkur á að lokaleikur mótsins, á milli þessara tveggja liða, yrði úrslitaleikur.

Það var raunin og Hamar 1 sigraði Dímon/Heklu 2-1 eftir oddahrinu í skemmtilegum leik.

Hamar 2 varð svo efst þeirra félaga sem sendu 2 lið til keppni.

Flottur árangur hjá kvennaliðunum sem hefja nú undirbúning fyrir Íslandsmót öldunga.

Lokastaða mótsins varð þessi;

1.sæti  Hamar 1 með 17 stig

2.sæti  Dímon/Hekla 1 með 15 stig

3.sæti  UMFL með 10 stig

4.sæti  Hrunamenn 2 með 10 stig

5.sæti  Hamar 2 með 5 stig

6.sæti  Dímon/Hekla 2 með 3 stig

7.sæti  Hrunamenn 1 með 2 stig

Karlalið Hamars lék síðustu leiki sína á Íslandsmótinu í 1. deild um liðna helgi.

Vestri frá Ísafirði kom í heimsókn en Vestri hafði tryggt sér 1. sæti deildarinnar áður en að leikjunum kom og Hamar var öruggt um 2. sætið.

Það var því aðallega spilað upp á heiðurinn og grobbréttinn.

Leikar fóru svo að Hamar vann báða leikina, þann fyrri í oddahrinu, 3-2 en þann síðari 3-0.

Flottur árangur hjá Hamarsliðinu sem nú þarf að ákveða hvort það vill taka sæti í úrvalsdeild í haust.

 

Kvennalið Hamars1 varð Íslandsmeistari í 2. deild um helgina og vann sér þar með sæti í 1. og næstefstu deild næsta vetur.

Liðið steig varla feilspor í vetur og tapaði aðeins einum leik á öllu Íslandsmótinu.

Liðið sem féll úr 1. deild síðasta vor, stoppaði því stutt í 2. deild en ljóst er að það er krefjandi vetur framundan.

5. deild Íslandsmóts kvenna í blaki kláraðist einnig um helgina.

Sæti Hamars2 í deildinni var ekki öruggt og mátti ekki mikið fara úrskeiðis ef halda átti sætinu í deildinni.

Einn unnin leikur og hagstæð úrslit var það sem til þurfti og varð lokastaðan sú að sætið hélst nokkuð örugglega með 6 stig á næsta lið HK E sem féll.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu Hamarsmanna í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins, náði liðið ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitum í kvöld.

Útlendingahersveit Aftureldingar var einfaldlega of sterk og fór svo að þeir unnu leikinn 3-0.

Hamarsmenn létu Mosfellinga þó hafa fyrir hlutunum á meðan orka var á tönkunum og skoruðu heimamenn 17 stig í fyrstu hrinu og 21 í annarri hrinu. Þriðja hrinan var þó í styttri kantinum með einungis 14 stig heimamanna gegn þeim 25 sem andstæðingarnir þurfa til að sigra hrinuna.

Að öðrum leikmönnum ólöstuðum, þá voru þeir Hilmar Sigurjónsson og Sigþór Helgason stekastir í sókn Hamars en sérstaklega ber að benda á frábæra endurkomu Óskars Haukssonar í stöðu frelsingja.
Eftir þónokkra fráveru eftir hásinarslit, dró Kópaskersbúinn knái fram blakskóna og spilaði eins og engill í vörninni og var á tímabili með yfir 90% móttöku.

Þó gaman hefði verið að sjá Hamar í höllinn í fjögurra liða úrslitum, þá verður það að bíða betri tíma:)

 

Í gær var dregið í 8 – liða úrslitum Kjörísbikarsins og var karlalið Hamars í pottinum.

Svo fór að Hamar, sem er í toppbaráttunni í 1. og næstefstu deild, dróst á móti Aftureldingu sem er um miðja úrvalsdeild.

Það má því búast við hörku viðureign og aldrei að vita nema Hamar endi sem eitt af 4 liðum í Laugardalshöllinni á bikarhelgi BLÍ.

Leikurinn við Aftureldingu fer fram 9. mars kl. 20:00 í íþróttahúsinu við Skólamörk.

Á aðalfundi Blakdeildar Hamars þann 20.2.2017 var Hilmar Sigurjónsson heiðraður sem blakmaður ársins 2016.

Samhliða þjálfun kvenna- og karlaliða Hamars hefur Hilmar jafnframt lengst af leikið lykilhlutverk með karlaliðinu og verið, að öðrum leikmönnum ólöstuðum, lang besti leikmaður liðsins. Sem þjálfari er Hilmar skipulagður, áhugasamur og hvetjandi gagnvart breiðum hópi iðkenda, barna jafnt sem fullorðina, með misjafnan bakgrunn, reynslu og getu. Hilmar er liðsmaður góður, kappsamur og léttlyndur og góð fyrirmynd utan vallar sem innan. Hilmar á allan heiður skilið fyrir starf sitt, leik og veittan félagsskap hjá Hamri.

Staða Hamarsliðanna sem taka þátt í Íslandsmótum á vegum Blaksambandsins með betra móti.

Hamar á 3 lið á Íslandsmótunum, karlalið í 1. og næstefstu deild og svo tvö kvennalið, einn í 2. deild og annað í 5. deild.

Karlaliðið er sem stendur í efsta sæti 1. deildar og stefnir hraðbyr í úrvalsdeild. Vestri frá Ísafirði sem er í 2. sæti, á þrjá leiki til góða og eru líklegir til að taka efsta sætið af okkar mönnum en 2 lið fara upp í úrvalsdeild að loknu tímabili.

 

Eftir aðra keppnishelgi í 2. deild kvenna er Hamar í 1. sæti með 28 stig og aðeins einn tapaðan leik af 11.  Fimmtán stig eru eftir í pottinum, eða 5 leikir og því ljóst að staða liðsins er góð fyrir lokaumferðina sem fram fer helgina 18. – 19. mars á Siglufirði.

5. deildar liðið stendur ekki alveg jafn vel að vígi. Liðið er rétt fyrir neðan miðja deild í 5. sæti af 8.  Sæti í 4. deild er úr augsýn en fall enn mögulegt þar sem 5 stig eru í fallsætið þegar 18 stig eru eftir í pottinum. Lokaumferðin í 5. deild fer einnig fram helgina 18. – 19. mars en í Garðabæ.