Glæsileg byrjun hjá karlaliðinu. Fyrsti leikurinn í Benecta-deildinni í blaki fór fram Laugardaginn 21.september á Siglufirði. Hamarsmenn gerðu sér litið fyrir og unnu 25-20, 25-18 og 25-17 ! Þetta er frábær byrjun á nýja tímabilinu. Næsti leikur fer fram 3. október kl. 20.00 í Fagralundi á móti HK.

Kvennaliðið mun keppa á Siglufirði 12. og 13. október.

Öldungamót í blaki sem heitir Rokköld í ár verður haldið í Keflavík 25. til 27. apríl. Mótið er fyrir blakara 30 ára og eldri. Blakdeild Hamars mun senda fjögur lið, tvö karlalið og tvenn kvennalið. Að sögn Barböru Meyer, formanns blakdeildarinnar, er mikill spenningur í loftinu fyrir mótinu. „Við stefnum með fjögur lið á mótið. Veturinn hefur verið kaflaskiptur hjá okkur og jafnvel ekki auðvelt með að ná í lið en svo höfum við líka spilað mjög vel inn á milli. Mjög sterkt B-lið karla mun keppa í Keflavík og er ég bjartsýn á að þeir nái góðum árangri og það væri auðvitað frábært ef þeir ná að vinna sig upp um deild. Sömu vonir hef ég um A-lið karla sem spilar í annari deild í ár, þeir unnu sig upp úr þriðju deild í fyrra og við höfum loksins fengið Kristján Valdimarson til okkar sem varð 30 ára á árinu og er orðinn löglegur öldungur á mótið. Hann mun styrkja A-lið karla svo um munar. Kristján var valinn blakmaður ársins 2018 og einnig 2017. Hann spilaði með BK Tromsö í Noregi og er einn af burðaásum í karlalandsliði Íslands. Það er búið að bíða lengi eftir að Kristján verði 30 ára svo hann getur farið með okkur á þetta stærsta mót ársins. Gaman hefði verið að fá tvíburabróðir hans líka en hann Hafsteinn er erlendis að spila svo við vonum að fá hann inn til okkar að ári. Svo erum við einnig með mjög sterkan leikmann sem libero og annað leynivopn sem diagonal. Gaman er að segja frá því að feðgar spila saman í A-liði karla, þeir Valdimar Hafsteinsson og Kristján Valdimarsson og einnig eru feðgar í B-liði karla, Hörður Reynisson og Reynir Örn Harðarson. Mannskapurinn í ár er afar góður en má ekki tæpara standa. Það er enginn varamaður í A-liði karla og ekki heldur í A-liði kvenna, þannig það er eins gott að leikmenn verða ekki fyrir meiðslum.

Kristján Hafsteinsson er loksins orðinn löglegur öldungur.
Feðgarnir Reynir Örn Harðarson og Hörður Reynisson munu keppa saman á Rokköld 2019. ÁFRAM HAMAR!

Hamarsmenn heldu svalasta blakmót ársins. Kjörísmót 2019!

Metskráning var á hraðmóti í blaki, Kjörísmót 2019, haldið af blakdeild Hamars síðasta laugardag. 40 lið mættu til leiks, þar af 8 karlalið og 32 kvennalið. Karlarnir kepptu í Hamarshöllinni í Hveragerði en konurnar í Iðu á Selfossi. Mótstjóri var Barbara Meyer, formaður blakdeildar Hamars og var hún afar ánægð með mótið: „Við höldum þetta trimmmót árlega. Kjörís er styrktaraðilinn okkar og allir félagsmenn taka þátt að gera þetta mót glæsilegt í alla staði. Mætingin var 7.30 bæði í Hamarsjöll og í Iðu og um leið og húsin voru opnuð streymdu blakararnir inn með bros á vör. Kjörísmótið er mjög vinsælt mót enda seinasta mót fyrir Öldungamót og vilja mörg lið koma til okkar til að taka lokaæfingu fyrir það. Í ár var gífurleg skráning hjá okkur. Alls kepptu 40 lið og komust því miður færri að en vildu. Í fyrra spiluðu 28 lið, þannig í ár voru 12 lið fleiri eða 30 % aukning. Keppt var í einni karladeildinni en fjórum kvennadeildum.  Massabland sigraði karladeildinni en Polska var í öðru sæti og Fylkir í því þriðja.

Keppt var í fjórum kvennadeildum. Það var Álftanes-A  sem sigraði 1 deild kvenna, Alftanes vann 2. deild, Hrunamenn 3. deild og Polska kvk sigraði 4 deild kvenna.

Alls mættu þrjú  pólsk lið til okkar, þannig við vorum mjög alþjóðleg í ár, sem er bara frábært. Það fengu allir frían ís frá Kjörís áður en þau lögðu heim á leið með bros á vör. Umfjöllum um Kjörísmótið hefur verið afar góð og eru menn og konur sammála um að Kjörísmótið er svalasta og vinsælasta trimmmót ársins“.

Fyrsta Kjörísmót var haldið 1999 svo að um 20 ára afmæli var að ræða. Verðlaunin eru ávallt hefðbundin, blóm og ís frá Hvergerði. Veitt eru verðlaun fyrir fyrsta og annað sæti í öllum deildum.

Kjörísmótið er fastur liður í undirbúningi fyrir Öldungamót sem fram fer í lok apríl í Keflavík og er stærsta blakmót á árinu. Þar eru 161 lið skráð í ár og má eiga von á um tæplega 2000 blökurum.

Hrunamenn unnu 3. deild kvenna

8- liða úrslit Kjörísbikarsins fór fram um helgina og tóku Hamarsmenn á móti þreföldum meisturum KA í íþróttahúsinu að Skólamörk.
KA er gífurlega sterkt lið og byrjaði fyrstu hrinu af krafti og staðan var orðin 11-3 fyrir KA þegar heimamenn náðu að koma sér í gang. Þeir minnkuðu 8 stiga muninn niður í 2 stig og staðan var orðin bara 15-13 fyrir KA. Akureyringum tókst þó að sigra hrinuna 25-19. Önnur hrinan byrjaði svipuð, KA byrjaði vel og náði góðum forskot en Hamarsmenn náðu þó að berjast fyrir hvert stig og endaði hrinan 25-23 fyrr KA. Þriðja hrinan var gífurlega jöfn og spennandi út í gegn. Hörður Reynisson, frelsingi Hamars, átti stórleik og varði bæði föstum uppgjöfum og smössin frá KA-mönnum með glæsibrag. Hamarsmenn sigruðu þriðju hrinu 25-22. KA reyndust svo töluvert sterkari í fjórðu hrinu og voru lengst af með gott forskot. Þrátt fyrir að leikmenn Hamars reyndu hvað þeir gátu til að komast inn í leikinn þá reyndist það ekki nóg og hafði KA að lokum sigur 25-17. KA sigraði því leikinn 3-1 og á því ennþá möguleika á að sigra Kjörísbikarinn en Hamarsmenn eru því miður úr leik.

Þau blakhjónin Sigrún Kristjánsdóttir og Valdimar Hafsteinsson, eigendur Kjörís, gáfu svo öllum leikmönnum, starfsmönnum, dómurum og áhorfendum ís frá Kjörís eftir leikinn.

Þetta var sannkölluð veisla í Skólamörkinni. Hamarsmenn stóðu sig hetjulega á móti meisturunum að norðan og geta svo sannarlega verið stoltir af frammistöðunni sinni. ÁFRAM HAMAR!

8-liða úrslit Kjörísbikarsins fara fram um næstu helgi og á sunnudaginn kl. 16:00 fær karlalið Hamars þrefalda meistara KA í heimsókn.
Skemmtilegur vinkill á leikinn er að fyrrum leikmaður Hamars, Sigþór Helgason, er einn af lykilleikmönnum KA-liðsins og verður gaman að fá hann aftur í heimsók í Skólamörkina.

Við hvetjum alla áhugamenn um íþróttir til að mæta á flugeldasýninguna á sunnudaginn en frítt er á leikinn.

Á aðalfundi blakdeildar Hamars í gær fór fram stjórnarkjör en formaðurinn Kristín H. Hálfdánardóttir gaf ekki áfram kost á sér sem stjórnarmaður. Karen Ragnarsdóttir gaf ekki heldur kost á sér í stjórn og þurfti því að manna tvö stjórnarsæti fyrir komandi vetur.
Barbara Meyer er nýr formaður deildarinnar og í stað Karenar kemur Greta Sverrisdóttir en báðar hafa spilað með félaginu um árabil.
Hermann Ólafsson, Hörður Reynisson og Hugrún Ólafsdóttir halda áfram í stjórninni en kosið er til eins árs í senn.

Blakmaður Hamars árið 2018 er Baldvin Þór Svavarsson

Baldvin er með eindæmum jákvæður og hvetjandi leikmaður og leggur sig alltaf fram fyrir liðið. Hann mætir alltaf á æfingu ef hann mögulega getur og hann hefur tekið gríðarlegum framförum í blaki frá því hann byrjaði að æfa með liðinu. Jákvætt og hvetjandi hugarfar Baldvins er ekki einungis smitandi og hvetjandi fyrir þá sem spila með honum heldur alla sem hann svo mikið sem talar um blak við, slíkur er áhuginn. Baldvin leikur með 1. deildar liði Hamars sem er í toppbaráttunni í næst efstu deild og hefur hann á skömmum tíma orðið einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins.

Karlalið Hamars tók í gær á móti toppliði Vestra frá Ísafirði í 1. deild karla í blaki.
Vegna anna liðsmanna utan blakvallarins, fengu leikmenn með minni leikreynslu tækifæri til að sýna sig og áttu liðið ansi góða spretti á köflum þrátt fyrir miklar breytingar á liðinu.
Það dugði þó ekki til og vel æft og mannað lið Vetra vann leikinn örugglega 3-0 og tryggði þar með stöðu sína á toppi deildarinnar.

Næsta verkefni Hamars er hinsvegar ansi strembið en sunnudaginn 24. febrúar, kl. 16:00 mæta þeir Íslands- og bikarmeisturum KA frá Akureyri í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Við hvetjum ykkur öll til að mæta og styðja strákana og horfa á glæsilegt blak.

Aðalfundur blakdeildar Hamars fyrir árið 2018, verður haldinn mánudaginn 18. febrúar n.k. kl. 21:00. Fundarstaður er á 2. hæð í Íþróttahúsinu við Skólamörk (framan við áhorfendapalla).

Efni fundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar

3. Ársreikningur og fjármál

4. Kosning stjórnar

5. Önnur mál

6. Viðurkenningar

Allir velkomnir,

Stjórn blakdeildar Hamars

Dregið var í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins í Laugardalnum í dag.
Skemmst er frá því að segja að Hamar dróst á móti Íslands- og bikarmeisturum KA frá Akureyri og því ljóst að þeir eiga ærið verkefni fyrir höndum.

Leiðtími hefur enn ekki verið ákveðinn en liðin tvö eiga eftir að komast að samkomulagi um leiktíma en leikurinn fer fram á heimavelli Hamars.

Allir leikir í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins eiga að fara fram leikvikuna 17. – 24. febrúar.