Blaktímabilið hófst formlega um helgina þegar haustmót Blaksambands Íslands fór fram í Mosfellsbæ.

Keppt var í 5 deildum kvennamegin og 2 karlamegin.
Mótið er ekki hluti af Íslandsmótinu og því ekki öll lið landsins sem taka þátt en Hamar sendi bæði kvennalið félagsins til keppni. Á mótinu er liðum raðað í deildir eftir getu í samræmi við skráningu þeirra á Íslandsmótinu og kepptu liðin því í 2. og 5. deild.
Það er óhætt að segja að Hamar hafi byrjað veturinn vel því liðin unnu alla leiki sína á mótinu 2-0 og urðu því haustmótsmeistarar í 2. og 5. deild.
Á meðfylgjandi myndum er 2. deildar liðið og hluti 5. deildar liðsins.
Enn er pláss fyrir áhugasama blakara í deildinni, karla og konur. Upplýsingar um æfingatíma fást í gegnum netfangið hamarblakdeild@gmail.com.

Mikil vakning hefur verið í blaki undanfarin ár og hefur fjöldi iðkenda vaxið gríðarlega hratt.

Þessi aukning hefur þó aðallega átt sér stað í fullorðinsflokki en Hamar í Hveragerði hefur undanfarin ár einnig boðið upp á krakkablak og eru efnilegir blakarar að líta dagsins ljós í félaginu.
Tvær þeirra, þær Marey Birgisdóttir og Ása Jóhannsdóttir Wolfram tóku ásamt öðrum efnilegum ungum blökurum frá fjölda félaga, tóku á dögunum þátt í afreksbúðum í Mosfellsbæ með frábærum árangri.
Blakdeild Hamars bíður alla unga blakara velkomna. Æfingar eru fyrir 12 ára og eldri á mánudögum frá kl. 19-20:00 í íþróttahúsinu við Skólamörk og á fimmtudögum í Hamarshöll kl. 18:30-19:30 og æfingagjöld eru 0 krónur.

Hamar hefur ráðið nýjan þjálfara fyrir bæði blaklið karla og kvenna næsta vetur.

Þjálfarinn, Roberto Guarino, hefur leikið í neðri deildum á Ítalíu og í Kosta Ríka en hann hefur spilað blak frá unga aldri.  Roberto kom til Íslands sem ferðamaður fyrir rúmu ári síðan ásamt kærustu sinni og féllu þau algerlega fyrir landi og þjóð og ákváðu því að flytja hingað nú í sumar.
Gríðarleg blakhefð er á Ítalíu og án efa margt sem Roberto getur kennt áhugasömum blökurum, hvort sem þeir eru lengra komnir eða byrjendur.
Blakdeild Hamars bíður upp á æfingar á mánudögum og fimmtudögum í vetur fyrir karla, konur, byrjendur og lengra komna og börn á aldrinum 10-16 ára og eru allir áhugasamir um íþróttina og heilbrigða hreyfingu hvattir til að mæta og prófa.

Aðalfundur blakdeildar Hamars verður kl. 21:15, þann 8. febrúar næstkomandi í félagsaðstöðunni við Hamarshöll.

Efni fundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar

3. Ársreikningur og fjármál

4. Kosning stjórnar

5. Önnur mál

6. Viðurkenningar

Allir velkomnir,

Stjórn blakdeildar Hamars

 

1.deildar lið karla og kvenna hjá Hamri byrja nýja árið af krafti.

Kvennalið Hamars sigraði botnlið ÍK, 3-1, í 6 stiga leik gerði svo gott betur og sigraði Vestra, einnig 3-1, í dag í öðrum 6 stiga leik og er nú aðeins 3 stigum á eftir Vestra sem situr í 5.sæti og 4 stigum á undan Fylki sem er í 7. sæti. Með sigrinum tókst Hamri að slíta sig nokkuð frá fallsætunum en liðið á eftir að leika við bæði ÍK og Fylki síðar á árinu.

Karlaliðið vann svo Stjörnuna örugglega 3-1 og er með 11 stig í öðru sæti deildarinnar, í harðri baráttu við Blakfélag Fjallabyggðar og HK B sem eru með 11 og 10 stig.

4.deildar lið kvenna keppir svo í 2. umferð Íslandsmótsins í 4. deild í dag og á morgun en liðið er í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni.

 

Kvennalið Hamars í 1. deild fékk Fylki í heimsókn í kvöld.

Leikurinn var svokallaður 6 stiga leikur þar sem bæði lið voru í botnbaráttu og því að miklu að keppa.

Hamar byrjaði leikinn vel og komst í 2-0 í jöfum og spennanfi hrinum. Liðið átti svo erfitt með að halda einbeitingu í 3ju hrinu og tapaði henni 16-25.

4ða hrinan var svo jöfn og spennandi. Hamar lagði allt í sölurnar til að vinna hrinuna og sleppa við að fara í oddahrinu. Fór svo að hamar sigraði 28-26 og þar með leikinn 3-1 og lyfti sér með því úr botnsæti deildarinnar, uppfyrir ÍK sem er án stiga og upp að hlið Fylkis sem er einnig með 3 stig.

Haustmótum HSK í blaki er nú lokið en þau voru haldin nú í vikunni.

Karlarnir voru fáliðaðir og misstu menn í meiðsli í miðju móti. Árangurinn var í samræmi við þessi skakkaföll því ekki frásögu færandi.

Hamar 1 í kvennaflokki varð hinsvegar hraðmótsmeistari HSK í kvöld. Þrátt fyrir erfiða kafla í sumum leikjum, tapaði liðið aðeins einni hrinu og vann öruggan sigur á mótinu með 11,5 stig. Hamar 2 hafnaði í 7. sæti með 4 stig.

Alls tóku 8 lið frá 4 félögum þátt í mótinu.

Nú þegar karlalið Hamars í fyrstu deild hefur spilað 2 leiki í deildinni og unnið þá báða, er liðið í 3ja sæti deildarinnar með 5 stig. Næsti leikur hjá körlunum er 11. nóvember gegn Stjörnunni á Álftanesi.

Kvennalið Hamars í 1. deild er í allt annarri stöðu þar sem liðið hefur tapað öllum 3 leikjum sínum það sem af er tímabils. Á fimmtudaginn kemur spilar liðið við Fylki sem er í neðri hluta deildarinnar líkt og Hamar. Þeikurinn hefst klukkan 21:00.

4.deildar lið kvenna hefur leik á sínu Íslandsmóti 4. og 5. nóvember, þegar liðið spilar 4 leiki á helgarmóti í Kórnum í Kópavogi.

 

Karlalið Hamars og Blakfélags Fjallabyggðar áttust við í 2. umferð 1. deildar karla í Hamarshöllinni í dag.

Greinilegur haustbragur var á liðunum og mikið um klaufamistök en þau voru á báða bóga og leikurinn því jafn og spennandi.

Fyrsta hrinan tapaðist 18-25 en Hamarsstrákar komu til baka í annari hrinu og unnu hana 25-23. Þriðja hrinan var erfið og tapaðist hún 25-15. Það var því að duga eða drepast fyrir Hamar í 4. hrinu sem var gríðarlega jöfn og spennandi og lauk með 25-22 sigri Hamars. Það þurfti því oddahrinu til að skera út um sigurvegara. Þar virtust bæði lið vera orðin þreytt og réðust úrslitin frekar á mistökum andstæðingsins en góðri spilamennsku. Fór að lokum svo að Hamar vann oddinn 15 – 12 og leikinn þar með 3-2 og eru strákarnir því taplausir í deildinni eftir 2 leiki.

Næsti blakleikur hjá Hamri er svo á fimmtudag þegar 1. deildar lið kvenna mætir ÍK kl. 21:00 í íþróttahúsinu við Skólamörk.

Blakið er komið á fullt eftir sumarfrí og fóru fram tveir leikir í 1.deild kvenna og karla þann 2. október. Kvennalíðið sem vann sig upp um deild tók á móti liði Aftureldingar B. Þrátt fyrir góða spretti inná milli þá tapaðist leikurinn 3-0 (18-25 20-25 9-25).
Karlalið Hamars sem endaði í 2. sæti 1.deildar síðasta vetur tók á móti Fylki eftir kvennaleikinn. Þrátt fyrir að hafa misst hinn unga og efnilega Sigþór til KA fyrir veturinn byrjuðu okkar menn á 3-0 sigri í fyrsta leik gegn Fylki 25-18, 25-20 og 25-19. Næsti leikur karlaliðs Hamars er næsta sunnudag gegn nýliðum BF frá Fjallabyggð kl. 13. á heimavelli en stelpurna eiga heimaleik næst gegn Ými fimmtudaginn 12. október kl. 21.