Nú þegar árið er senn á enda er ekki úr vegi að líta yfir sviðið. Í heildina hefur starf deilda Hamars gengið vel á árinu. Heildarfjöldi iðkenda heldur áfram að vaxa og er svo komið að aldrei í sögu félagsins hafa fleiri iðkendur stundað íþróttir hjá deildum Hamars.

Aðstaðan hefur verið bætt jafnt og þétt, þó að alltaf megi gera betur einhvers staðar.

Á haustmánuðum kom upp sú umræða, á fundi fræðslunefndar, (að frumkvæði Sævars Þór Helgasonar aðstoðarskólastjóra) að koma fyrir dúk í miðju lofti á salnum í íþróttahúsinu.  Dúknum væri hægt að slaka niður eftir þörfum og gæfi þetta möguleika á því að skipta salnum upp.   Með þessari lausn myndi aðbúnaður til íþróttakennslu bætast til mikilla muna, ásamt því að fjölga tímum í íþróttahúsinu.

Stjórn Hamars tók undir þessa góðu ábendingu  og fylgdi hugmyndinni eftir á árlegum fundi með bæjayfirvöldum.  Það var því mikið ánægjuefni að þetta skyldi rata inn í fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2015.

Undir merkjum Hamars eru reknar sex deildir og þar að auki rekur Hamar Laugasport heilsurækt.

Að hafa þetta fjölbreytt úrval í ekki stærra bæjarfélagi er nánast einsdæmi á landsvísu. Það væri lífsins ómögulegt að halda svo fjölbreyttu starfi úti ef ekki væri fyrir ötult starf margra fórnfúsra sjálboðaliða. Mig langar að vitna í afbragðsgóðan leiðara um sjálboðaliðastarf sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skemmstu.

„Starf sjálfboðaliða er ekki aðeins að finna í íþróttahreyfingunni.  Sjálfboðaliðar starfa fyrir Rauða krossinn og björgunarsveitirnar, leggja hönd á plóg í kirkjustarfi, telja fugla og svo mætti halda lengi áfram. Sjálfboðaliðar halda í raun mörgum þáttum samfélagsins gangandi og verður starf þeirra seint ofmetið.  Aðalhagfræðingur Englandsbanka, Andy Haldane, leiddi í fyrirlestri í haust getum að því að sjálboðaliðar á Bretlandi væru um 15 milljónir og ynnu 4,4 milljarða klukkustunda á ári. Það væri um það bil einn tíundi launaðra vinnustunda í landinu á ári. Þarna miðaði hann eingöngu við formlegt sjálfboðaliðastarf, en umfangið væri sennilega mun meira.

Hagfræðingurinn taldi að virði þeirrar vöru og þjónustu, sem sjálboðaliðar framleiddu, gæti verið um 40 milljarðar punda (7.800 milljarðar króna) á ári. Félagslegi ábatinn af sjálfboðaliðastarfi væri gríðarlegur, tvisvar til tíu sinnum meiri en efnahagslegi ábatinn. Sagði hann að líta mætti á sjálboðaliðastarf sem „einn af mikilvægustu geirum samfélagsins“ .“

Þessi samantekt er ágætis áminning um það gríðalega mikla sjálboðaliðstarf sem fer fram í íþróttahreyfingunni og víðar á hverjum degi og mikilvægi þess fyrir samfélagið.

Fyrir hönd stjórnar Hamars vil ég þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og senda okkar bestu óskir um gleðileg jól, farsæld og hamingju á nýju ári

 

Áfram Hamar!

Hjalti Helgason, formaður Hamars

Stjórn körfuknattleiksdeildar Hamars hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við Ara Gunnarsson þjálfara meistaraflokks karla. Körfuknattleiksdeild Hamars vill þakka Ara fyrir samstarfið og óska honum velfarnaðar á nýju ári. Hallgrímur Brynjólfsson mun taka við liðinu út tímabilið ásamt því að stýra kvenna liði félagsins og mun Oddur Benediktsson verða honum til aðstoðar.

Körfuknattleiksdeild Hamars óskar öllum Hamarsmönnum nær og fjær sem og landsmönnum öllum gleðilegrar jólahátíðar með þökk fyrir stuðninginn og samstarfið á árinu sem er að líða.

Áfram Hamar!

Á morgun fimmtudag verður sannkallaður stórleikur hjá strákunum þegar þeir heimsækja FSu í Iðu á Selfossi. Suðurlandsslagur af bestu gerð en þegar þessi tvö lið mætast er alltaf mikil dramatík og spenna. Liðin mættust í október í deildinni í frystikistunni og fóru þá strákarnir okkar með sigur 84-78

Hamar og FSu eru að berjast á toppi deildarinnar og eru í öðru og þriðja sæti með 14 stig eftir níu leiki. Höttur er í fyrsta sæti með 16 stig en þeir hafa leikið einum leik meira en Suðurlandsliðin.

Það verður enginn svikinn af því að mæta á þennan toppslag í Iðu á morgun. Hvetjum alla Hvergerðina og Hamarsmenn að fjölmenna og styðja strákana sem ætla sér að enda árið með stæl

Áfram Hamar!

Mynd: Jónas H. Ottósson.

Mikill fjöldi fólks var mætt í Hamarshöllina um helgina. Á Laugardaginn voru 7.flokkur karla og kvenna að keppa, á sunnudaginn var 6.flokkur karla. Um 800 keppendur frá 15 félögum mættu leiks um helgina. Mótið heppnaðist virkilega vel og var fólk hrifið af þeirri aðstöðu sem við Hvergerðingar höfum fyrir knattspyrnuiðkun.

Þetta mót mun klárlega verða haldið aftur að ári og vonandi verður þetta árlegur viðburður í framtíðinni!

 

10460905_314428958752070_6112879960234889816_o

Spilaðir voru 306 leikir um helgina

Markmið mótsins var að allir færu heim með bros á vör eftir að hafa spilað skemmtilegan fótbolta. Úrslit leikjana voru ekki skráð, enda voru þau algjört aukaatriði!

1064887_314429092085390_1896709431613350222_o

Hamar spilaði í sameiginlegu liði með Ægir frá Þorlákshöfn á mótinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir mót fengu allir keppendur verðlaunapening, pítsu frá Hoflandsetrinu og íspinna frá Kjörís. Það voru allir keppendur ótrúlega ánægðir með og ætla að koma aftur að ári.

10547874_314428802085419_5767401507528428563_o

Sýndir voru miklir taktar á mótinu.

Mikið af foreldrum og sjálfboðaliðum úr Hveragerði hjálpuðu til við ýmis störf á mótinu. Þau lögðu á sig mikla vinnu til að mótið heppnaðist eins vel og það gerði. 

IMG_0369

Erla Kristín og Guðrún Eirika stóðu vaktina í sjoppunni

IMG_0399_2

Núverandi og fyrrverandi formenn knattspyrnudeildar fara yfir málin.

 

Næstu helgi heldur fjörið áfram. Þá er komið að 6. fl kvenna og 5. fl karla og kvenna að spila á Jólamóti Kjörís.

 

 

Í dag var dregið 8-liða úrslit Poweradebikarsins en drátturinn fór fram í  íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Okkar strákar hafa staðið sig vel í keppninni og voru í skálinni góðu og fengu heimaleik við Stjörnuna sem spilar í Dominos deildinni. Stjarnan hefur verið með betri liðum landsins undanfarin ár en með Stjörnunni leikur Marvin Valdimarsson sem þekkir vel til í frystikistunni en hann á að baki nokkur góð tímabil með Hamri.

Okkar drengir hafa slegið út Álftanes og ÍA í keppninni á meðan Stjarnan hefur slegið út Hauka og ÍR. Leikdagar eru 17 til 19. janúar en leikdagur verður auglýst síðar.

Áfram Hamar!

Strákarnir spiluðu í gærkvöldi við ÍA á skipaskaga í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins. Eftir tap í deildinni í síðustu viku mættu Hamarsmenn ákveðnir til leiks og leiddu 14-18 eftir fyrsta leikhluta. Bæði lið spiluðu sterkan varnarleik sem sást á lokatölunum en skemmst er frá  því að segja að strákarnir okkar fóru með sigur af hólmi 72-80 og verða því í pottinum á morgun þegar dregið verður í 8-liða úrslitin. Hamar hefur ekki komist svona langt í bikarkeppninni síðan tímabilið 2011/2012 en þá datt liðið út í 8-liða úrstlitum fyrir KFÍ.

Nánari umfjöllun um leikinn hér að neðan sem kom á heimasíðunni karfan.is í gær.

Lið Hamars lagði Skagamenn í kvöld(gær) í 16 liða úrslitum Powerade-bikars KKÍ, en liðin mættust í Býflugnabúinu á Akranesi. Nafn Hamars verður því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslitin næstkomandi þriðjudag. Leikurinn fór rólega af stað. Bæði liðin voru varfærin í byrjun og léku góða vörn. Hamarsmenn voru þó ákveðnari þegar leið á fyrsta fjórðung og höfðu fjögurra stiga forystu að honum loknum, 18:14. Annar leikhluti var svipaður og einkenndist, líkt og leikurinn allur, af mikilli baráttu. Skagamenn náðu góðum kafla í lok hálfleiksins og náðu að jafna 34:34 þegar skammt var eftir. Hamarsmenn skoruðu hins vegar síðustu körfu hálfleiksins og leiddu að honum loknum 36:34.

Þriðji leikhlutinn reyndist eins og svo oft í vetur banabiti Skagamanna. Þeir virtust ekki ná takti í sinn leik, hvorki sóknarlega né í vörn og Hvergerðingar gengu á lagið. Hamar hafði yfir fyrir loka fjórðunginn 60:48. Sóknarleikur Skagamanna lagaðist í síðasta fjórðung og náðu þeir að minnka muninn niður í 5 stig þegar skammt lifði leiks. Vörnin hélt hins vegar ekki eins vel og náðu því heimamenn í raun aldrei almennilega að ógna sigri Hamars, sem verður að teljast sanngjarn þegar á allt er litið. Lokatölur voru 80-72 Hamar í vil.

Áfram Hamar!

Mynd; Jónas H. Ottósson frá leiknum í gær.

Grindavík í heimsókn í Hveragerði á laugadaginn og allir kátir. Lárus Ingi formaður Hamars meira að segja með nammipoka í hálfleik enda nammidagur.
Stelpurnar frá Grindavík voru ekki í neinni skemmtiferð, heldur komnar til að vinna og náðu strax að setja Hamar út af laginu með góðri pressu. Þetta skilaði nokkrum töpuðum boltum að hálfu heimakvenna sem sáu 33 stig gestanna í 1.leikhluta gegn 18. Aðeins þéttist varnarleikur hjá Hamri í 2. leikhluta meðan Grindavík gat leyft sér að rúlla vel á sínum mannskap. Hamar vann leikhlutann 21-18 og 39-51 í hálfleik. Fremstar í stigaskori fóru Sydnei Moss hjá Hamri með 14 stig en hjá Grindavík, Rachel með 17.
Hér var komið nóg að hálfu Sverris, þjálfari Grindavíkur sem var grimmur út í allt í kringum sig og smitaði það í Grindavíkurliðið sem náðu með áræðni þægilegri forystu aftur sem hélst þetta 9-18 stig það sem eftir lifði leiks. Hamar hélt sig að mestu í 3-2 svæðisvörn sem var ekki að virka nógu vel. Þriðja leikhluti vann Grindavík 19-25.
Þegar um 3 mínútur lifðu leiks var staðan 71-82 og Hamar var aðeins að ná að þétta vörnina en í tvígang geigaði 3ja stiga skot heimakvenna á næstu mínútunni og úr varð að gestirnir silgdu þessu nokkuð öruggt heim 74-88. Öflug byrjun Grindavíkurkvenna dróg bitið úr heimsatúlkum sem misstu aðeins trúna á verkefninu á tímabili. Hamar vann þó 2 leikhluta í dag og þurfa að hafa aðeins meiri trúa á sér því batamerki eru klárlega á liðinu.
Gestunum er óskað gleðilegrar bikarkeppni áfram og þeirra bestu konur í dag voru Rachel Tecca með 27 stig/11 fráköst og María Ben með 14 stig. Í Hamri bar mest á Sydnei Moss með 30 stig og Salbjörg með 11 stig/13 fráköst.
Næsti leikur hjá Hamars stúlkum er við KR í Vesturbænum á miðvikudaginn 10.desember kl. 19:15 og hvetjum fólk að kíkja við í DHL höllinni þá og hvetja okkar stelpur.
Tölfræði úr leiknum á laugardaginn.

Hamarsstrákarnir töpuðu sínum fyrsta heimaleik í gærkvöldi þegar Valsmenn fóru með sigur af hólmi. Valsliðið var mun betri aðilinn í leiknum og vildu þennan sigur miklu meira en okkar drengir. Leikur Hamarsliðsins var ekki nægilega góður í heild sinni og varnarleikurnn var ekki boðlegur leikmönnum í meistaraflokki og hvað þá hjá liði sem ætlar sér í úrvalsdeild. Strákarnir fá gott tækifæri að bæta upp fyrir þetta þegar þeir heimsækja Skagamenn í 16 liða úrslitum bikarsins á sunnudaginn.

Umfjöllun um leikinn sem birtist á karfan.is hér að neðan

Hamarsmenn tóku á móti Val í hörkuleik í frystikistunni í Hveragerði í gær rn leikurinn hófst seinna en venjulega eða kl 20:15. Það virtist eitthvað fara illa í heimamenn en Valsmenn mættu áræðnir og skoruðu þeir fyrstu 7 stig leiksins. Þá fyrst fóru Hamarsmenn að spila körfuknattleik líkt og þeir vilja vera kenndir við, að minnsta kosti í sókninni, en vörnin var þó ekki að ná að halda og því héldu Valsmenn yfirhöndinni allan leikhlutan sem fór 25-28.
Valsmenn héldu áfram að vera sterkari í öðrum leikhluta og juku þeir jafnt og þétt við forskot sitt og skyndilega voru þeir komnir með 11 stiga mun 34-45. En þá settu Hamarsmenn í annan gír og náðu góðu áhlaupi 13-2 og jöfnuðu þeir leikinn 47-47, Valsmenn áttu þó loka atkvæðið í fyrri hálfleik, staðan 49-52.
Þriðji leikhlutinn var síðan ógurlega spennandi þar sem bæði lið sýndu oft á köflum flotta kafla, enn það voru gestirnir sem fyrr sem kláruðu leikhlutanna sterkt og munurinn kominn uppí átta stig 74-82 fyrir loka fjórðunginn.
Sá leikhluti bauð þó aldrei uppá neina spennu þar sem strákarnir frá Hlíðarenda reyndust mun sterkari og sigldu þeir öruggum tveimur stigum í hús 91-110, Allt sauð þó uppúr í lokinn þar sem hver tæknivillan fékk að fjúka á varamannabekk Hamars.
Atkvæða mestur í sigurliðinu var fyrrum leikmaður Hamars Danero Thomas sem skoraði 27 stig og bætti við 11 stigum, Þorbergur átti frábæran leik einnig með 24 stig og 5 fráköst, og Illugi kom með myndarlega tvennu 19 stig og 10 fráköst, Örn Sigurðarson átti flottan leik fyrir Hamar 26 stig, 6 fráköst og 4 varin skot, Næstur kom Þorsteinn með 16 stig og 17 fráköst.
Áfram Hamar!

Á morgun fimmtudag kl: 20:15 koma Valsmenn í heimsókn í frystikistuna að spila við okkar drengi. Liðin mættustu í fyrsta leik tímabilsins í haust þar sem Hamar vann nokkuð sannfærandi . Valsmenn hafa spilað sjö leiki í deildinni og unnið fjóra á meðan Hamar hefur sigrað sex í sjö leikjum. Strákarnir hafa verið á góðu skriði í síðustu leikjum og áttu mjög góðan leik í síðustu umferð á móti KFÍ. Valsliðið hefur verið upp og ofan á þessum tímabili en þeir munu klárlega selja sig dýrt á morgun.

Með Val leikur Danero Thomas sem spilaði í frystikistunni á síðasta tímabili og jafnframt er Ágúst Björvins þjálfari Valsmanna en hann þekkir vel til Hamarsliðsins en eins og allir vita þjálfaði hann bæði kalla og kvennalið félagsins á sínum tíma. Í okkar liði eru tveir leikmenn sem hafa spilað með Val þeir Snorri Þorvaldsson og Kristinn Ólafsson, Ari þjálfari var aðstoðaþjálfari hjá Valsmönnum á síðasta tímabili.

Leikurinn hefst eins og áður sagði kl: 20:15.

Allir að fjölmenna í frystikistuna á morgun og styðja strákana í baráttunni!

Áfram Hamar!

Mynd: Kristinn Ólafsson mætir sínum gömul félögum á morgun.