Nú þegar árið er senn á enda er ekki úr vegi að líta yfir sviðið. Í heildina hefur starf deilda Hamars gengið vel á árinu. Heildarfjöldi iðkenda heldur áfram að vaxa og er svo komið að aldrei í sögu félagsins hafa fleiri iðkendur stundað íþróttir hjá deildum Hamars.

Aðstaðan hefur verið bætt jafnt og þétt, þó að alltaf megi gera betur einhvers staðar.

Á haustmánuðum kom upp sú umræða, á fundi fræðslunefndar, (að frumkvæði Sævars Þór Helgasonar aðstoðarskólastjóra) að koma fyrir dúk í miðju lofti á salnum í íþróttahúsinu.  Dúknum væri hægt að slaka niður eftir þörfum og gæfi þetta möguleika á því að skipta salnum upp.   Með þessari lausn myndi aðbúnaður til íþróttakennslu bætast til mikilla muna, ásamt því að fjölga tímum í íþróttahúsinu.

Stjórn Hamars tók undir þessa góðu ábendingu  og fylgdi hugmyndinni eftir á árlegum fundi með bæjayfirvöldum.  Það var því mikið ánægjuefni að þetta skyldi rata inn í fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2015.

Undir merkjum Hamars eru reknar sex deildir og þar að auki rekur Hamar Laugasport heilsurækt.

Að hafa þetta fjölbreytt úrval í ekki stærra bæjarfélagi er nánast einsdæmi á landsvísu. Það væri lífsins ómögulegt að halda svo fjölbreyttu starfi úti ef ekki væri fyrir ötult starf margra fórnfúsra sjálboðaliða. Mig langar að vitna í afbragðsgóðan leiðara um sjálboðaliðastarf sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skemmstu.

„Starf sjálfboðaliða er ekki aðeins að finna í íþróttahreyfingunni.  Sjálfboðaliðar starfa fyrir Rauða krossinn og björgunarsveitirnar, leggja hönd á plóg í kirkjustarfi, telja fugla og svo mætti halda lengi áfram. Sjálfboðaliðar halda í raun mörgum þáttum samfélagsins gangandi og verður starf þeirra seint ofmetið.  Aðalhagfræðingur Englandsbanka, Andy Haldane, leiddi í fyrirlestri í haust getum að því að sjálboðaliðar á Bretlandi væru um 15 milljónir og ynnu 4,4 milljarða klukkustunda á ári. Það væri um það bil einn tíundi launaðra vinnustunda í landinu á ári. Þarna miðaði hann eingöngu við formlegt sjálfboðaliðastarf, en umfangið væri sennilega mun meira.

Hagfræðingurinn taldi að virði þeirrar vöru og þjónustu, sem sjálboðaliðar framleiddu, gæti verið um 40 milljarðar punda (7.800 milljarðar króna) á ári. Félagslegi ábatinn af sjálfboðaliðastarfi væri gríðarlegur, tvisvar til tíu sinnum meiri en efnahagslegi ábatinn. Sagði hann að líta mætti á sjálboðaliðastarf sem „einn af mikilvægustu geirum samfélagsins“ .“

Þessi samantekt er ágætis áminning um það gríðalega mikla sjálboðaliðstarf sem fer fram í íþróttahreyfingunni og víðar á hverjum degi og mikilvægi þess fyrir samfélagið.

Fyrir hönd stjórnar Hamars vil ég þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og senda okkar bestu óskir um gleðileg jól, farsæld og hamingju á nýju ári

 

Áfram Hamar!

Hjalti Helgason, formaður Hamars