Posts

Mikið mæðir á íþróttastarfi um þessar mundir og kappkosta allir við að fylgja reglum um sóttvarnir og um leið finna leiðir til að gera íþróttir sem öruggastar fyrir alla iðkendur félagisins. Við látum þó ekkert stoppað okkur (nema að einhverju leiti reglugerðir).

Undirrituð og Aðalstjórn Hamars eru í mikilli undirbúnings- og rannsóknarvinnu er lítur að þjónustu og framtíðarsýn félagsins. Þar sem miklar hömlur eru á samkomum og viðburðum höfum við þurft að fresta í tvígang svokölluðum “þjóðfundi”, en okkur þykir mikilvægt að fá bæjarbúa með okkur í lið til að vinna að enn bjartari framtíð félagsins. Við erum aftur á móti afar bjartsýnn hópur fólks og hlökkum til að geta hitt alla!

Einnig höfum við sett af stað könnun í samstarfi við Hveragerðisbæ og höfum við nú þegar fengið góða svörun frá foreldrum, takk fyrir það! Við viljum með þessu nálgast foreldra og opna línu milli okkar og ykkar. Við stefnum á að sú könnun verði framkvæmd árlega til að fá enn betri sýn á starfið og nýtum það verkfæri til að bæta okkur, með hjálp frá ykkur.

Starfið hefur farið af stað með ágætum þetta haustið og lágmarks truflun hefur verið á almennri starfssemi deilda. Við höfum þó að sjálfsögðu fundið fyrir því að takmarkanir eru settar á áhorfendur leikja meistaraflokka en ég held að liðin finni þó alltaf fyrir stuðningi bæjarbúa. Þar sem flestir iðkendur hafa fundið sinn stað í félaginu höfum við farið yfir skráningar og sjáum að einhverjir foreldrar/forráðamenn eiga eftir að ganga frá skráningu en við höfum fulla trú á að það gerist fljótt og örugglega á næstu dögum.

Breytingar og aukning hefur orðið á meistaraflokkum okkar á árinu en stofnaður var meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu, meistaraflokkur karla í blaki og meistaraflokkur kvenna í körfu hóf samstarf við Þór í Þorlákshöfn. Meistaraflokkar karla í knattspyrnu og körfuknattleik halda að sjálfsögðu ótröðir áfram að venju. Við gætum ekki verið stoltari af öllum okkar meistaraflokkum – áfram Hamar! Það gefur auga leið að meistaraflokkar eru frábærar fyrirmyndir fyrir iðkendur í yngri flokka.

Mig langar að taka smá pláss í þessum pistli til að færa þakkir þangað sem þær eru einnig verðskuldaðar. Þakkir til foreldra/forráðamanna, þakkir til sjálfboðaliða, þakkir til velunnara. Án óeigingjarns starfs og stuðnings ykkar væri íþróttastarfið ekki nærri því jafn öflugt og það er. Það á við um öll íþróttafélög á landinu og erum við sannarlega ekki undanskilin. Við hlökkum til að halda áfram samvinnu og horfum björtum augum til framtíðarinnar.

Sandra Björg Gunnarsdóttir

Framkvæmdastjóri

Nú er vetrarstarf allra deilda hjá íþróttafélaginu Hamri að komast á fullt skrið, deildirnar eru að byrja keppni á íslandsmótum og vonandi að sem flestir geri sér ferð í íþróttahúsin í Hveragerði til að fylgjast með starfi deilda Hamars. Nú í kvöld er tvíhöfði hjá blakdeild þar sem konurnar ríða á vaðið með leik við Aftureldinu b í 1. deild kvenna. Strax þar á eftir eru karlarnir að spila við Fylkir, endilega að drífa sig í íþróttahúsið við Skólamörk og hvetja okkar fólk áfram. Þriðjudaginn 3. október er síðan drengjaflokkur í körfuknattleik að spila við KR b og Laugardaginn 7. okt spila stúlkurnar í mfl kvenna í körfuknattleik sinn fyrsta leik á vetrinum við KR í vesturbæjnum. Vikuni líkur síðan á því að karlalið Hamars í körfuknattleik spilar sinn fyrsta leik á tímabilinu við ÍA á Akranesi, verum duglega að styðja við íþróttafólkið okkar í Hveragerði sama í hvaða íþróttagrein það er og mætum á áhorfendabekkina í vetur, áfram Hamar alltaf allstaðar. 

Dagbjartur Kristjánsson, hlaupari, var kjörinn íþróttamaður Hamars fyrir árið 2016 á aðalfundi félgasins sem haldinn var þann 27. febrúar s.l. Dagbjartur var tilnefndur af skokkhópi Hamars en hann hefur hlaupið með hópnum á undanförnu ári. Hann hefur náð afar góðum árangri í lengri hlaupum og á vafalaust mikið inni. Dagbjartur sem áður stundaði sund af kappi hefur nú hafið æfingar með frjálsíþróttadeild ÍR.

Eftirtaldir voru kosnir íþróttamenn sinnar deildar:
*Badmintondeild : Hrund Guðmundsdóttir
*Blakdeild : Hilmar Sigurjónsson
*Fimleikadeild: Erla Lind Guðmundsdóttir
*Knattspyrnudeild: Tómas Aron Tómasson
*Körfuknattleiksdeild: Snorri Þorvaldsson
*Sunddeild: Guðjón Ernst Dagbjartsson
*Hlaupari ársins: Dagbjartur Kristjánsson

Á aðalfundi Hamars var Lárus Ingi Friðfinnsson formaður og stofnandi körfuknattleiksdeildar Hamars, sæmdur gullmerki Hamars. Kom fram í máli formanns að Lárus hlyti gullmerkið fyrir áratuga ósérhlífið starf og einstaka elju við uppbyggingu og rekstur Körfuknattleiksdeildarinnar í Hveragerði.

Á aðalfundi Hamars lét núverandi formaður Hjalti Helgason af störfum sem formaður Hamars eftir 5 ára setu í embætti. Nýr formaður, Hallgrímur Óskarsson, var kjörinn á fundinum. Aðrir í stjórn Hamars eru Svala Ásgeirsdóttir, Dagrún Ösp Össurardóttir, Hjalti Valur Þorsteinsson og Daði Steinn Arnarsson.

Samningur var undirritaður nýverið á milli Íþróttafélagsins Hamars og Hveragerðisbæjar.  Samningurinn gildir út árið 2018 en í honum er fjallað um gagnkvæmar skyldur aðila á tímabilinu.  Samningnum er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda í Hveragerðisbæ og íþróttafélagsins og tryggja öflugt íþrótta-, forvarna- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni í Hveragerði. Með samningnum fær íþróttafélagið 22,6 m. kr. á tímabilinu frá Hveragerðisbæ.  Auk þess fær íþróttafélagið íþróttamannvirki bæjarins til endurgjaldslausra afnota og er sá styrkur metinn á 83,5 mkr. Í samningunum kemur fram að um sé að ræða rekstrarstyrki til barna og ungmennastarfs, framlag vegna meistaraflokka, fjárveiting í ferða- og tækjasjóð og rekstrarstyrkur vegna íþróttasvæða.

Íþróttafélagið Hamar býður flóttafjölskyldu frá Sýrlandi velkomna til Hveragerðis, um leið hefur aðalstjórn Hamars ákveðið að bjóða ungmennum innan fjölskyldunnar að æfa íþróttir hjá Hamri á árinu 2017. Það er von aðalstjórnar að þetta hjálpi ungmennum innan fjölskyldunnar að aðlagast nýjum aðstæðum hér í Hveragerði.

Íþróttamenn Hveragerðis 2016

Að þessu sinni voru 15 íþróttamenn heiðraðir en þeir hafa sýnt mikinn metnað til að ná langt í sinni íþróttagrein og eru svo sannarlega góð fyrirmynd fyrir bæinn og yngri íþróttamenn.

Eftirfarandi íþróttamenn voru í kjöri:

  • Ágúst Örlaugur Magnússon knattspyrnumaður
  • Björn Ásgeir Ásgeirsson körfuknattleiksmaður
  • Dagný Lísa Davíðsdóttir körfuknattleikskona
  • Fannar Ingi Steingrímsson golfari
  • Hafsteinn Valdimarsson blakmaður
  • Hekla Björt Birkisdóttir fimleikakona
  • Hrund Guðmundsdóttir badmintonkona
  • Kristján Valdimarsson blakmaður
  • Kristrún Rut Antonsdóttir knattspyrnukona
  • Matthías Abel Einarsson lyftingamaður
  • Úlfar Jón Andrésson íshokkímaður

Einnig fengu þeir viðurkenningu sem hafa hlotið Íslands- og bikarmeistaratitla á árinu.