Það verður dregið í riðla í Meistaradeildinni í dag og eins og áður er mikil spenna í loftinu enda geta mörg stórlið lent saman í riðla. UEFA er búið að skipta liðunum 32 niður í fjóra styrkleikaflokka og þar vekur athygli að Porto er í efsta flokki frekar en ensku meistararnir í Manchester City. 

Þetta þýðir að Manchester City gæti lent í riðli með spænsku meisturunum (Real Madrid), ítölsku meisturunum(Juventus) og þýsku meisturunum (Borussia Dortmund). Chelsea, Arsenal og Manchester United eru öll í efsta styrkleikaflokki en lið frá saman landi geta ekki lent saman í riðli. 

20 af 32 liðum í pottinum voru með í Meistaradeildinni í fyrra en liðin í ár koma frá 17 löndum. Montpellier, Nordsjælland og Málaga eru í riðlakeppninni í fyrsta sinn og það er örugglega mikill spenningur í þeirra röðum um að fá að vita hvaða stórlið eru á leiðinni í heimsókn á næstu mánuðum. 

Drátturinn í dag hefst klukkan 15.45 að íslenskum tíma en dregið verður í átta riðla þar sem fjögur félög spila heima og að heiman og keppa um tvö sæti í sextán liða úrslitunum. Hægt verður að fylgjast með drættinum á beinni útsendingu af vef UEFA hér.  

Styrkleikalistarnir fyrir Meistaradeildardráttinn í dag: 

Fyrsti styrkleikaflokkur: Chelsea, Barcelona, Manchester United, Bayern Munchen, Real Madrid, Arsenal, Porto, AC Milan. 

Annar styrkleikaflokkur: Valencia, Benfica, Shakhtar Donetsk, Zenit St Petersburg, Schalke, Manchester City, Braga, Dynamo Kiev. 

Þriðji styrkleikaflokkur: Olympiakos, Ajax, Anderlecht, Juventus, Spartak Moskva, Paris St Germain, Lille, Galatasaray. 

Fjórði styrkleikaflokkur: Celtic, Borussia Dortmund, BATE Borisov, Dinamo Zagreb, CFR Cluj, Malaga, Montpellier, FC Nordsjælland. 

Þessi frétt birtist á visir.is og má sjá hana hér.

Breyting hefur orðið á skiptingu æfingatímabila knattspyrnudeildarinnar. Í stað þriggja tímabila (haust, vor, sumar) eru þau nú tvö (1. sept-28. feb. og 1. mars-31. ágúst). Þetta breytta skipulag auðveldar utanumhald og skipulagningu allra flokka og knattspyrnudeildarinnar í heild. 

Eins og flestir vita þá er rekstur og stjórn knattspyrnudeildarinnar algerlega háður framlagi sjálfboðaliða, hvort heldur stjórnarmanna eða annarra sem vilja, geta og hafa lagt lið. Æfingagjöld knattspyrnudeildarinnar hafa verið óbreytt síðustu þrjú ár hið minnsta á sama tíma og verðlag hefur almennt hækkað umtalsvert.

 

Til að deildin hafi tök á að standa undir sínum helsta kostnaðarlið, launum þjálfara og kostnaði, er því nauðsynlegt að hækka æfingagjöldin nú og nemur hækkunin einungis kr. 1.250.- pr. mán. sem er ódýrara en máltíð fyrir einn á flestum skyndibita- og veitingastöðum.

 

Æfingagjöld hvers flokks (6. til 2. flokks) nú eru kr. 25.000.- fyrir hvort tímabil eða kr. 4.166.- pr. mán. og kr. 260.- pr. æfingu, það er því ódýrara að mæta á fótboltaæfingu en að kaupa sér pylsu. Æfingagjöld 7. flokks eru kr. 20.000.- pr. tímabil og fyrir 8. flokk eru þau kr. 10.000.- hvort tímabil. Þá eru allir fjármunir sem knattspyrnudeildin aflar með innheimtu æfingagjalda eða annarra styrkja fyrir yngri flokkana nýttir eingöngu í þeirra þágu og án allrar fjárhagslegrar tengingar við meistaraflokkinn.

 

Knattspyrnudeildin leggur sig fram við að halda öllum kostnaði í lágmarki og hefur dregið það í lengstu lög að hækka gjaldskrá sína, þrátt fyrir hækkun allra kostnaðarliða og verðlags almennt á Íslandi. Að æfa knattspyrnu er því ekki bara frábær og góð skemmtun í gefandi félagsskap heldur einnig ódýrari (og hollari) en regluleg neysla skyndibita. Taktu þátt í skemmtilegu starfi knattspyrnudeildarinnar og æfðu eins atvinnumaður í Hamarshöllinni í vetur með því að skrá þig í fótbolta á skráningardegi Hamars.

Ritnefnd 20 ára afmælisrits Hamars leitar eftir myndum (gömlum sem nýjum) frá starfi og eða viðburðum tengdum íþróttafélaginu Hamri og deildum þess. 

Ef þið eigið myndir eða þekkið einhvern sem gæti átt myndir, þá myndi ritnefndin gjarnan vilja fá þær til skoðunar og hugsanlega nota í 20 ára afmælisritið. 

Þeir sem geta lagt okkur lið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Álfhildi í síma: 847-0945 eða með tölvupósti: alfhildurthorsteins@gmail.com.

Við munum að sjálfsögðu fara vel með allar myndir og munum skila þeim til baka eins og við fáum þær til okkar.

stornur-hamarNú rétt í þessu lauk vígsluathöfn Hamarshallarinnar þar sem meðal annarra viðburða var boðið upp á leik stjörnuliðs Atla Eðvaldssonar gegn (h)eldri Hamarsmönnum. 

Úrslit leiksins eru eitthvað á reiki og eru frásagnir þátttakenda og áhorfenda um þau misvísandi. Um það var rætt meðal áhorfenda að heiti potturinn í Laugaskarði yrði þéttsetinn eftir leik og að pantanir í sjúkranudd færu væntanlega að streyma til sjúkraþjálfara strax í fyrramálið. Leikurinn sjálfur var þó góð skemmtun og sáust ýmis skemmtileg tilþrif leikmanna og dómara sem allir áttu góðan dag og ekki að sjá að nokkur þeirra hafi formlega lagt skóna frægu á hilluna (einn úr stjörnuliðinu er enn að og er orðrómur um að vegna þess verði úrslit leiksins kærð, hver sem þau nú voru…).  

Það er nokkuð víst að sú aðstaða til íþróttaiðkunar sem nú er komin í Hveragerði verður iðkendum á öllum aldri til ánægju, yndisauka og hagsbóta. Til hamingju Hvergerðingar nær og fjær! 

hamarshollinSá skemmtilegi og langþráði viðburður að Hamarshöllin verði formlega vígð á sér stað sunnudaginn 19. ágúst kl. 15:00. Loksins eru Hvergerðingar komnir með íþróttaaðstöðu sem hæfir 21. öldinni og er hér um gríðarlega lyftistöng fyrir íþróttalíf og bæjarbúa í heild að ræða.

Búast má við fjölmenni í Hamarshöllina og verður án efa hápunktur dagsins leikur stjörnuliðs Atla Eðvaldssonar, fv. atvinnumanns og landsliðsþjálfara, gegn „gömlum“ hetjum hvergerðskrar knattspyrnusögu. Þess ber að geta að Atli Eðvaldsson varð fyrsti erlendi leikmaður þýsku Bundeligunnar til að skora 5 mörk í leik með liði sínu Fortuna Dusseldorf gegn Eintracht Frankfurt, laugardaginn 4. júní 1983 er Dusseldorf sigraði 5-1 í lokaleik tímabilsins. Afreks Atla er m.a. minnst hér í sömu andrá og ekki ómerkari manna en Messi, Jurgen Klinsman og Andy Cole.

Við hverjum alla Hvergerðinga sem og gesti til að mæta og samgleðjast með okkur og um leið berja hinar “fornu“ stórstjörnur augum í leik aldarinnar.

1x2_logoNú um helgina hefst loksins enska úrvalsdeildin eftir sumarhlé. 

Töluverðar breytingar hafa orðið á ensku liðunum og spennandi að sjá hvernig deildin spilast í vetur. Þar sem enski boltinn hefur löngum talist ein af þjóðaríþróttum Íslendinga, myndast um hverja helgi mikil spenna fyrir úrslitum leikja. Hefð hefur skapast fyrir að “tippa” á úrslit og eru menn og konur mis-getspök í þeim efnum, eins og gengur og gerist. 

Þeir sem tippa á leiki geta merkt við félagsnúmer á seðlunum sínum, hvort heldur á pappírnum eða á netinu, og með því að skrá 810 er verið að styðja við uppbyggingarstarf knattspyrnudeildar Hamars. Þeir sem tippa eru því hvattir sérstaklega til að merkja við 810 því hlutfall af hverjum keyptum seðli rennur til félagsins án þess að skerða vinningsupphæð, komi til þess. 

Hægt er að tippa á leiki inn á heimasíðu Íslenskra getrauna og er tengill inn á síðuna HÉR

Styðjum Hamar og merkjum við 810 á seðlinum.

hamars_bergrisiHamar sigraði Dalvík/Reyni í lokaleik 16. umferðar 2. deildar á Grýluvelli í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 2-1 eftir að jafnt hafði verið í hálfleik, 1-1. 

Gestirnir í D/R komust yfir á 19. mínútu með föstu skoti sem fór af varnarþvögu Hamars og inn. Nýi skiptineminn okkar, Abdoulaye Ndiaye, jafnaði leikinn með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 44. mínútu. Nokkuð jafnræði hafði verið með liðunum en gestirnir þó sterkari framan af hálfleiknum. 

Hamar tók völdin á vellinum í síðari hálfleik en átti erfitt með að finna netmöskvann allt þar til “gamli” skiptineminn okkar, Sene Abdalha, kom boltanu yfir línuna á 90. mínútu eftir frekar ódýra hornspyrnu. Gestirnir í D/R höfðu sótt í sig veðrið undir lok leiks og voru allt eins líklegir til að stela sigrinum en ein af fjölmörgum sérkennilegum ákvörðunum dómatríósins færði okkar mönnum þá hornspyrnu sem skóp sigurmarkið. Þess ber þó að geta að á hvorugt liðið hallaði sérstaklega í dómgæslunni og geta dómarar, eins og aðrir, átt sína slæmu daga. Verra þætti pistlahöfundi ef hagur Hamars hefði beðið skaða vegna þess er lokaflutið loksins gall. Það er því vonandi að Hamarsmenn hafi fundið lukkudísirnar eftirsóttu og þeim takist að halda þeim heilum og í lagi út tímabilið.

 

Hamarsmenn taka á móti Eyfirðingunum í Dalvík/Reyni fimmtudaginn 16. ágúst á Grýluvelli kl. 19:00. Það verður án efa hart barist á vellinum og vilja Hamarsmenn væntanlega viðhalda sínu góða gengi í deildinni undanfarið. 

Gestirnir að norðan eru ekki langt frá Hamarsmönnum í deildinni, D/R situr í 8. sætinu á meðan Hamar er í því 10. Síðustu fimm leikir D/R hafa fært þeim 9 stig og er markatalan úr þeim leikjum 7-6 D/R í vil. Hamarsmenn hafa aftur á móti landað 6 stigum úr síðustu fimm leikjum sínum og eru með markatöluna 9-9. Frá því að nýju liðsmenn Hamars léku sína fyrstu leiki í konungbláa litnum, hefur Hamar unnið tvo af þremur leikjum sínum, skorað 8 mörk og fengið á sig 3. 

Með sigri gegn D/R færist Hamar fjær hættusvæðinu í deildinni því bæði Fjarðabyggð og KFR töpuðu leikjum sínum í 16. umferðinni, sem þessi leikur er hluti af. Það er því mikið í húfi á Grýluvelli fimmtudaginn 16. ágúst og frá kl. 19:00 til u.þ.b. 20:54 má búast við baráttu og spennu sem gæti endað með gosi í Grýlu gömlu ef allt gengur vel. 

Fjölmennum á leikinn og styðjum Hamar til sigurs. 

Áfram Hamar!!!

Skráningardagur yngri flokka knattspyrnudeildar Hamars. 

Skráningar í flokka fyrir næsta vetur (1. sept til 28. feb.) í Hamarshöllinni verða fimmtudaginn 16. ágúst frá kl. 17:00-19:00 í Hamarshúsinu við Grýluvöll. 

Æfingar frá 8. flokki (leikskólaaldur) og upp úr í boði fyrir stráka, stelpur, karla og konur! 

Komið og æfið vinsælustu íþrótt veraldar við bestu aðstæður á Íslandi!

3.flokkur_2012Lagt var af stað úr Hveragerði í kringum níu á laugardagsmorgni í grenjandi rigningu. Hópurinn var fámennur en góðmennur og mikil tilhlökkun hjá drengjunum að fara að keppa. Ferðin norður tók örlítið lengri tíma en áætlað hafði verið sökum þess að þjálfarinn og fararstjórinn var alveg ókunnur sela- og ísbjarnaslóðum áfangastaðarins. Við komuna á Hvammstanga var farangrinum komið fyrir í grunnskóla staðarins, liðið græjað í keppnisfatnað og haldið á völlinn. 

Fyrsti leikur dagsins var gegn Hetti/Einherja sem höfðu unnið fyrri leik liðanna 6-0 í byrjun júní. Dagsskipun liðsins var að verjast og beita skyndisóknum sem gekk eftir því enginn annar en Árni Busk braut 4 ára markaþurrð sína með því að koma okkar liði yfir 1-0. En Árni og strákarnir voru ekki lengi í paradís því í næstu sókn á eftir jöfnuðu Austanmenn 1-1. Hamarsdrengir héldu haus út leikinn og vörðust gríðarlega vel með Stebba “klett” í markinu og Viktor, Jóa og Bárð fyrir framan sem áttu leik lífs síns. Jafntefli varð því niðurstaðan og Hamarsdrengir mjög sáttir og gátu vel við unað enda frábær leikur af þeirra hálfu. 

Annar leikur dagsins var gegn heimamönnum í Kormáki/Hvöt. Sá leikur var eins slakur og sá fyrri var góður. Því miður náðu stákarnir ekki upp sömu baráttu og í fyrri leiknum og brast að auki úthald mjög fljótt. Fyrri leik liðanna í júní lauk með sigri Kormáks/Hvatar 6-1 en þessa helgi unnu þeir 4-0 eftir að hafa leitt 3-0 í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var skelfilegur en með smá peppi í hléi tóku strákarnir sig saman í andlitinu og mættu einbeittari til leiks í þem síðari. 

Að loknum leikjum dagsins var skolað af sér í sundlaug staðarins og haldið í Sjoppuna, veitingastaðinn á Hvammstanga, í hamborgaraveislu. Svo var rölt um bæinn og mannlíf staðarins skoðað. 

Sunnudagurinn byrjaði með grilluðum morgunverði “a la Busk-samlokugrill” sem vakti liðið og kom þeim af stað. Fyrri mótherjar dagsins voru taplausir BÍ/Bolvíkingar. Taktík liðsins var tekin í gegn og varnarlínan þétt enn frekar og stólað á Palla í indíána hlutverki fyrir framan vörnina og Oskar upp á toppi. Hamarsdrengir mættu ákveðnir til leiks og börðu niður alla sóknartilburði tilvonandi Íslandsmeistarana og fengu þrjú dauðafæri til að komast yfir í leiknum en með slysalegum hætti var það BÍ/Bolungarvík sem tók forystuna 1-0 sem var staðan er flautað var til hálfleiks. Seinni hálfleikurinn var ekki eins góður og gáfu strákarnir okkar svolítið eftir og urðu lokatölur 4-0, líkt og í fyrri hluta mótsins í júní. 

Lokaleikur helgarinnar var gegn Skallagrím. Hamarsdrengir höfðu unnið 10-1 stórsigur á fáliðuðum Borgnesingum í júní en nú var lið Skallagríms mannað 14 ferskum og sprækum drengjum sem höfðu veitt andstæðingum helgarinnar harða keppni enda gjörólíkt lið frá fyrri hluta mótsins. Dagsskipun Hamars var að halda vörninni en nú fengu þeir meira frjálsræði í sókninni. Árni kom Hamri yfir 1-0 með glæsilegu marki en Skallagrímur náði að jafna með glæsilegasta marki mótsins. Var þá komið að þætti Oskars. Framherjinn marklausi hafði fengið nóg og ákvað að taka til sinna ráða, smellti þrennu á Borgnesingana, sem svöruðu inn á milli með marki, og var staða því orðin 4-2 fyrir drengina okkar. Kom þá hræðilegur kafli í leik okkar liðs, Árni farinn meiddur af velli og enginn skiptimaður til taks. Borgnesingar gengu á lagið og jöfnuði 4-4 og í þokkabót var Jóa vísað útaf með rautt spjald eftir glórulausa tæklingu. Skammt var eftir af leiknum og fát komið á mannskapinn og þjálfarinn að fara á taugum á hliðarlínunni. Dómarinn hafði kallað 15 sek. eftir af leiknum er Palli sendi á Oskar af vinstri kantinum sem kom boltanum á Axel inn í teig þar sem hann var straujaður niður og vítaspyrna dæmd. Palli fór á punktinn og hamraði boltanum óverjandi í markið og kom okkur yfir 5-4. Miðjan var tekin en um leið var leikurinn flautaður af. Glæsileg endurkoma hjá Hamarsdrengjum þar sem barátta og þrautseigja skilaði sigri og 3 stigum í hús. 

Var nú brunað út í skóla til að taka saman og svo farið í sund til að slaka örlítið á fyrir ferðina heim. Svo var auðvitað stoppað í Staðarskála til að bæta á orkuforðann sem á hafði gengið eftir leiki helgarinnar. 

Axel kom sterkur inn og bjargaði okkur alveg með þátttöku sinni og framlagi á vellinum. Bárður átti frábært mót og var eins og klettur í bakverðinum og stórhættulegur fram á við. Jói stýrði vörninni eins og herforingi og Viktor stóð sig eins og hetja og leysti sínar stöður eins og til var ætlast. Palli “playmaker” var að gera góða hluti á kantinum og á miðsvæðinu og Árni, sem var á einum fæti alla helgina, átti flotta leiki og flott mörk. Oskar “stræker” komst vel frá sínum hlutverkum, hvort heldur sem framherji eða sem miðvörður og Stebbi, sem var langbesti markmaður mótsins, átti hvern stórleikinn á fætur öðrum. 

Allt í allt mega drengirnir vel við una og geta gengi stoltir frá verkefni helgarinnar. Lagt var upp með að við lok hver leiks skyldu drengirnir finna það hjá sér að þeir væru stoltir af sínu framlagi og að þeir hefðu gefið allt sem þeir áttu hverju sinni. Vissulega má bæta nokkra þætti drengjanna á knattspyrnuvellinum en fullt af hlutum voru, og eru, í lagi. Ástundun og einbeitin ásamt vilja og þrá á æfingum skilar miklu, það vita drengirnir og er ég viss um að leið þeirra á knattspyrnuvellinum liggur bara upp á við með því hugarfari sem þeir búa yfir og sýndu oft á tíðum um helgina. Æfingin er mikilvæg en aukaæfingin skapar meistarann og framtíðin er björt hjá piltunum ef þeir tileinka sér það hugarfar og vinna eftir því. 

Þakkir fá Gizur og Ísafold sem sáu ekki bara um að ferja hluta drengjanna heldur héldu þeim einnig uppteknum með heilabrotsæfingum og skemmtunum ásamt ómetanlegum stuðningi innan vallar sem utan. 

Takk fyrir mig strákar, þetta er búinn að var skemmtilegur og góður tími með ykkur. Þið megið vera stoltir af ykkur, ég er það svo sannarlega. 

Kveðja,  
Hjörtur.