Eftirfarandi umfjöllin er fengin frá Sunnlenska.is

Hamar vann sannfærandi 4-0 sigur á Aftureldingu í 2. deild karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld.

hamar_fagnar_gegn_aftureldingu

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og bæði lið fengu ákjósanleg færi en tókst ekki að skora og því var staðan 0-0 í hálfleik.

Hvergerðingar létu hins vegar sverfa til stáls í seinni hálfleik og strax á 47. mínútu skoraði Aron Smárason með skalla eftir hornspyrnu.

Aron lét aftur til sín taka í vítateig Aftureldingar á 70. mínútu en var togaður niður og Hamarsmenn fengu víti. Ágúst Örlaugur Magnússon fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Lánsmaðurinn frá Selfossi, Abdoulaye Ndiaye, lék á alls oddi í seinni hálfleik og hann skoraði tvö mörk á fimm mínútna kafla undir lok leiks. Á 78. mínútu fengu Hamarsmenn aukaspyrnu, Ragnar Sigurjónsson skallaði fyrir markið og þar kom Ndiaye aðvífandi og potaði boltanum í netið. 

Seinna mark hans var öllu glæsilegra þegar hann fékk boltann á vítateignum og plataði Mosfellinga með liprum fótahreyfingum áður en hann hamraði boltann í markhornið.

Stigin þrjú voru Hamri virkilega mikilvæg því á sama tíma gerðu Fjarðabyggð og KFR 1-1 jafntefli í uppgjöri botnliðanna. Hamar er nú með 11 stig í 10. sæti, Fjarðabyggð hefur 6 og KFR 5.

Hamarspiltar í meistaraflokki taka á móti Mosfellingunum í Aftureldingu á Grýluvelli í kvöld kl. 19:00 

Hlutskipti liðanna í sumar hefur verið ólíkt, Afturelding að berjast um að komast upp um deild en strákarnir okkar að losa sig frá fallsætunum. Bæði lið hafa styrkt hópa sína nokkuð í félagaskiptaglugganum í þeirri von að ná sínum markmiðum fyrir lok tímabilsins. 

Fyrri leikur liðanna fór 2-1 fyrir Mosfellinga sem máttust teljast heppnir að landa sigri þar. Drengirnir okkar ætla ekki að láta heilladísirnar hanga í liði gestanna, heldur hafa þeir tekið dísunum opnum örmum og var lögð mikil áhersla að ganga frá félagaskiptum þeirra fyrir miðnætti í gær er félagaskiptagluggi KSÍ lokaðist. 

Það er því von á stórleik í kvöld á Grýluvelli kl. 19:00 og hvetjum við Hvergerðinga sem og aðra stuðningsmenn Hamars til að fjölmenna á völlinn og styðja Hamars til sigurs. 

Áfram Hamar!!!