hamarshollinSá skemmtilegi og langþráði viðburður að Hamarshöllin verði formlega vígð á sér stað sunnudaginn 19. ágúst kl. 15:00. Loksins eru Hvergerðingar komnir með íþróttaaðstöðu sem hæfir 21. öldinni og er hér um gríðarlega lyftistöng fyrir íþróttalíf og bæjarbúa í heild að ræða.

Búast má við fjölmenni í Hamarshöllina og verður án efa hápunktur dagsins leikur stjörnuliðs Atla Eðvaldssonar, fv. atvinnumanns og landsliðsþjálfara, gegn „gömlum“ hetjum hvergerðskrar knattspyrnusögu. Þess ber að geta að Atli Eðvaldsson varð fyrsti erlendi leikmaður þýsku Bundeligunnar til að skora 5 mörk í leik með liði sínu Fortuna Dusseldorf gegn Eintracht Frankfurt, laugardaginn 4. júní 1983 er Dusseldorf sigraði 5-1 í lokaleik tímabilsins. Afreks Atla er m.a. minnst hér í sömu andrá og ekki ómerkari manna en Messi, Jurgen Klinsman og Andy Cole.

Við hverjum alla Hvergerðinga sem og gesti til að mæta og samgleðjast með okkur og um leið berja hinar “fornu“ stórstjörnur augum í leik aldarinnar.