3.flokkur_2012Lagt var af stað úr Hveragerði í kringum níu á laugardagsmorgni í grenjandi rigningu. Hópurinn var fámennur en góðmennur og mikil tilhlökkun hjá drengjunum að fara að keppa. Ferðin norður tók örlítið lengri tíma en áætlað hafði verið sökum þess að þjálfarinn og fararstjórinn var alveg ókunnur sela- og ísbjarnaslóðum áfangastaðarins. Við komuna á Hvammstanga var farangrinum komið fyrir í grunnskóla staðarins, liðið græjað í keppnisfatnað og haldið á völlinn. 

Fyrsti leikur dagsins var gegn Hetti/Einherja sem höfðu unnið fyrri leik liðanna 6-0 í byrjun júní. Dagsskipun liðsins var að verjast og beita skyndisóknum sem gekk eftir því enginn annar en Árni Busk braut 4 ára markaþurrð sína með því að koma okkar liði yfir 1-0. En Árni og strákarnir voru ekki lengi í paradís því í næstu sókn á eftir jöfnuðu Austanmenn 1-1. Hamarsdrengir héldu haus út leikinn og vörðust gríðarlega vel með Stebba “klett” í markinu og Viktor, Jóa og Bárð fyrir framan sem áttu leik lífs síns. Jafntefli varð því niðurstaðan og Hamarsdrengir mjög sáttir og gátu vel við unað enda frábær leikur af þeirra hálfu. 

Annar leikur dagsins var gegn heimamönnum í Kormáki/Hvöt. Sá leikur var eins slakur og sá fyrri var góður. Því miður náðu stákarnir ekki upp sömu baráttu og í fyrri leiknum og brast að auki úthald mjög fljótt. Fyrri leik liðanna í júní lauk með sigri Kormáks/Hvatar 6-1 en þessa helgi unnu þeir 4-0 eftir að hafa leitt 3-0 í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var skelfilegur en með smá peppi í hléi tóku strákarnir sig saman í andlitinu og mættu einbeittari til leiks í þem síðari. 

Að loknum leikjum dagsins var skolað af sér í sundlaug staðarins og haldið í Sjoppuna, veitingastaðinn á Hvammstanga, í hamborgaraveislu. Svo var rölt um bæinn og mannlíf staðarins skoðað. 

Sunnudagurinn byrjaði með grilluðum morgunverði “a la Busk-samlokugrill” sem vakti liðið og kom þeim af stað. Fyrri mótherjar dagsins voru taplausir BÍ/Bolvíkingar. Taktík liðsins var tekin í gegn og varnarlínan þétt enn frekar og stólað á Palla í indíána hlutverki fyrir framan vörnina og Oskar upp á toppi. Hamarsdrengir mættu ákveðnir til leiks og börðu niður alla sóknartilburði tilvonandi Íslandsmeistarana og fengu þrjú dauðafæri til að komast yfir í leiknum en með slysalegum hætti var það BÍ/Bolungarvík sem tók forystuna 1-0 sem var staðan er flautað var til hálfleiks. Seinni hálfleikurinn var ekki eins góður og gáfu strákarnir okkar svolítið eftir og urðu lokatölur 4-0, líkt og í fyrri hluta mótsins í júní. 

Lokaleikur helgarinnar var gegn Skallagrím. Hamarsdrengir höfðu unnið 10-1 stórsigur á fáliðuðum Borgnesingum í júní en nú var lið Skallagríms mannað 14 ferskum og sprækum drengjum sem höfðu veitt andstæðingum helgarinnar harða keppni enda gjörólíkt lið frá fyrri hluta mótsins. Dagsskipun Hamars var að halda vörninni en nú fengu þeir meira frjálsræði í sókninni. Árni kom Hamri yfir 1-0 með glæsilegu marki en Skallagrímur náði að jafna með glæsilegasta marki mótsins. Var þá komið að þætti Oskars. Framherjinn marklausi hafði fengið nóg og ákvað að taka til sinna ráða, smellti þrennu á Borgnesingana, sem svöruðu inn á milli með marki, og var staða því orðin 4-2 fyrir drengina okkar. Kom þá hræðilegur kafli í leik okkar liðs, Árni farinn meiddur af velli og enginn skiptimaður til taks. Borgnesingar gengu á lagið og jöfnuði 4-4 og í þokkabót var Jóa vísað útaf með rautt spjald eftir glórulausa tæklingu. Skammt var eftir af leiknum og fát komið á mannskapinn og þjálfarinn að fara á taugum á hliðarlínunni. Dómarinn hafði kallað 15 sek. eftir af leiknum er Palli sendi á Oskar af vinstri kantinum sem kom boltanum á Axel inn í teig þar sem hann var straujaður niður og vítaspyrna dæmd. Palli fór á punktinn og hamraði boltanum óverjandi í markið og kom okkur yfir 5-4. Miðjan var tekin en um leið var leikurinn flautaður af. Glæsileg endurkoma hjá Hamarsdrengjum þar sem barátta og þrautseigja skilaði sigri og 3 stigum í hús. 

Var nú brunað út í skóla til að taka saman og svo farið í sund til að slaka örlítið á fyrir ferðina heim. Svo var auðvitað stoppað í Staðarskála til að bæta á orkuforðann sem á hafði gengið eftir leiki helgarinnar. 

Axel kom sterkur inn og bjargaði okkur alveg með þátttöku sinni og framlagi á vellinum. Bárður átti frábært mót og var eins og klettur í bakverðinum og stórhættulegur fram á við. Jói stýrði vörninni eins og herforingi og Viktor stóð sig eins og hetja og leysti sínar stöður eins og til var ætlast. Palli “playmaker” var að gera góða hluti á kantinum og á miðsvæðinu og Árni, sem var á einum fæti alla helgina, átti flotta leiki og flott mörk. Oskar “stræker” komst vel frá sínum hlutverkum, hvort heldur sem framherji eða sem miðvörður og Stebbi, sem var langbesti markmaður mótsins, átti hvern stórleikinn á fætur öðrum. 

Allt í allt mega drengirnir vel við una og geta gengi stoltir frá verkefni helgarinnar. Lagt var upp með að við lok hver leiks skyldu drengirnir finna það hjá sér að þeir væru stoltir af sínu framlagi og að þeir hefðu gefið allt sem þeir áttu hverju sinni. Vissulega má bæta nokkra þætti drengjanna á knattspyrnuvellinum en fullt af hlutum voru, og eru, í lagi. Ástundun og einbeitin ásamt vilja og þrá á æfingum skilar miklu, það vita drengirnir og er ég viss um að leið þeirra á knattspyrnuvellinum liggur bara upp á við með því hugarfari sem þeir búa yfir og sýndu oft á tíðum um helgina. Æfingin er mikilvæg en aukaæfingin skapar meistarann og framtíðin er björt hjá piltunum ef þeir tileinka sér það hugarfar og vinna eftir því. 

Þakkir fá Gizur og Ísafold sem sáu ekki bara um að ferja hluta drengjanna heldur héldu þeim einnig uppteknum með heilabrotsæfingum og skemmtunum ásamt ómetanlegum stuðningi innan vallar sem utan. 

Takk fyrir mig strákar, þetta er búinn að var skemmtilegur og góður tími með ykkur. Þið megið vera stoltir af ykkur, ég er það svo sannarlega. 

Kveðja,  
Hjörtur.