Hamarsmenn taka á móti Eyfirðingunum í Dalvík/Reyni fimmtudaginn 16. ágúst á Grýluvelli kl. 19:00. Það verður án efa hart barist á vellinum og vilja Hamarsmenn væntanlega viðhalda sínu góða gengi í deildinni undanfarið. 

Gestirnir að norðan eru ekki langt frá Hamarsmönnum í deildinni, D/R situr í 8. sætinu á meðan Hamar er í því 10. Síðustu fimm leikir D/R hafa fært þeim 9 stig og er markatalan úr þeim leikjum 7-6 D/R í vil. Hamarsmenn hafa aftur á móti landað 6 stigum úr síðustu fimm leikjum sínum og eru með markatöluna 9-9. Frá því að nýju liðsmenn Hamars léku sína fyrstu leiki í konungbláa litnum, hefur Hamar unnið tvo af þremur leikjum sínum, skorað 8 mörk og fengið á sig 3. 

Með sigri gegn D/R færist Hamar fjær hættusvæðinu í deildinni því bæði Fjarðabyggð og KFR töpuðu leikjum sínum í 16. umferðinni, sem þessi leikur er hluti af. Það er því mikið í húfi á Grýluvelli fimmtudaginn 16. ágúst og frá kl. 19:00 til u.þ.b. 20:54 má búast við baráttu og spennu sem gæti endað með gosi í Grýlu gömlu ef allt gengur vel. 

Fjölmennum á leikinn og styðjum Hamar til sigurs. 

Áfram Hamar!!!