8- liða úrslit Kjörísbikarsins fór fram um helgina og tóku Hamarsmenn á móti þreföldum meisturum KA í íþróttahúsinu að Skólamörk.
KA er gífurlega sterkt lið og byrjaði fyrstu hrinu af krafti og staðan var orðin 11-3 fyrir KA þegar heimamenn náðu að koma sér í gang. Þeir minnkuðu 8 stiga muninn niður í 2 stig og staðan var orðin bara 15-13 fyrir KA. Akureyringum tókst þó að sigra hrinuna 25-19. Önnur hrinan byrjaði svipuð, KA byrjaði vel og náði góðum forskot en Hamarsmenn náðu þó að berjast fyrir hvert stig og endaði hrinan 25-23 fyrr KA. Þriðja hrinan var gífurlega jöfn og spennandi út í gegn. Hörður Reynisson, frelsingi Hamars, átti stórleik og varði bæði föstum uppgjöfum og smössin frá KA-mönnum með glæsibrag. Hamarsmenn sigruðu þriðju hrinu 25-22. KA reyndust svo töluvert sterkari í fjórðu hrinu og voru lengst af með gott forskot. Þrátt fyrir að leikmenn Hamars reyndu hvað þeir gátu til að komast inn í leikinn þá reyndist það ekki nóg og hafði KA að lokum sigur 25-17. KA sigraði því leikinn 3-1 og á því ennþá möguleika á að sigra Kjörísbikarinn en Hamarsmenn eru því miður úr leik.

Þau blakhjónin Sigrún Kristjánsdóttir og Valdimar Hafsteinsson, eigendur Kjörís, gáfu svo öllum leikmönnum, starfsmönnum, dómurum og áhorfendum ís frá Kjörís eftir leikinn.

Þetta var sannkölluð veisla í Skólamörkinni. Hamarsmenn stóðu sig hetjulega á móti meisturunum að norðan og geta svo sannarlega verið stoltir af frammistöðunni sinni. ÁFRAM HAMAR!

8-liða úrslit Kjörísbikarsins fara fram um næstu helgi og á sunnudaginn kl. 16:00 fær karlalið Hamars þrefalda meistara KA í heimsókn.
Skemmtilegur vinkill á leikinn er að fyrrum leikmaður Hamars, Sigþór Helgason, er einn af lykilleikmönnum KA-liðsins og verður gaman að fá hann aftur í heimsók í Skólamörkina.

Við hvetjum alla áhugamenn um íþróttir til að mæta á flugeldasýninguna á sunnudaginn en frítt er á leikinn.

Á aðalfundi blakdeildar Hamars í gær fór fram stjórnarkjör en formaðurinn Kristín H. Hálfdánardóttir gaf ekki áfram kost á sér sem stjórnarmaður. Karen Ragnarsdóttir gaf ekki heldur kost á sér í stjórn og þurfti því að manna tvö stjórnarsæti fyrir komandi vetur.
Barbara Meyer er nýr formaður deildarinnar og í stað Karenar kemur Greta Sverrisdóttir en báðar hafa spilað með félaginu um árabil.
Hermann Ólafsson, Hörður Reynisson og Hugrún Ólafsdóttir halda áfram í stjórninni en kosið er til eins árs í senn.

Blakmaður Hamars árið 2018 er Baldvin Þór Svavarsson

Baldvin er með eindæmum jákvæður og hvetjandi leikmaður og leggur sig alltaf fram fyrir liðið. Hann mætir alltaf á æfingu ef hann mögulega getur og hann hefur tekið gríðarlegum framförum í blaki frá því hann byrjaði að æfa með liðinu. Jákvætt og hvetjandi hugarfar Baldvins er ekki einungis smitandi og hvetjandi fyrir þá sem spila með honum heldur alla sem hann svo mikið sem talar um blak við, slíkur er áhuginn. Baldvin leikur með 1. deildar liði Hamars sem er í toppbaráttunni í næst efstu deild og hefur hann á skömmum tíma orðið einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins.

Karlalið Hamars tók í gær á móti toppliði Vestra frá Ísafirði í 1. deild karla í blaki.
Vegna anna liðsmanna utan blakvallarins, fengu leikmenn með minni leikreynslu tækifæri til að sýna sig og áttu liðið ansi góða spretti á köflum þrátt fyrir miklar breytingar á liðinu.
Það dugði þó ekki til og vel æft og mannað lið Vetra vann leikinn örugglega 3-0 og tryggði þar með stöðu sína á toppi deildarinnar.

Næsta verkefni Hamars er hinsvegar ansi strembið en sunnudaginn 24. febrúar, kl. 16:00 mæta þeir Íslands- og bikarmeisturum KA frá Akureyri í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Við hvetjum ykkur öll til að mæta og styðja strákana og horfa á glæsilegt blak.

Aðalfundur blakdeildar Hamars fyrir árið 2018, verður haldinn mánudaginn 18. febrúar n.k. kl. 21:00. Fundarstaður er á 2. hæð í Íþróttahúsinu við Skólamörk (framan við áhorfendapalla).

Efni fundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar

3. Ársreikningur og fjármál

4. Kosning stjórnar

5. Önnur mál

6. Viðurkenningar

Allir velkomnir,

Stjórn blakdeildar Hamars

Dregið var í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins í Laugardalnum í dag.
Skemmst er frá því að segja að Hamar dróst á móti Íslands- og bikarmeisturum KA frá Akureyri og því ljóst að þeir eiga ærið verkefni fyrir höndum.

Leiðtími hefur enn ekki verið ákveðinn en liðin tvö eiga eftir að komast að samkomulagi um leiktíma en leikurinn fer fram á heimavelli Hamars.

Allir leikir í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins eiga að fara fram leikvikuna 17. – 24. febrúar.

Karlalið Hamars spilaði 2 leiki í 2.deild Íslandsmótsins í blaki um helgina sem leið.
Leikirnir voru gegn Völsungi á Húsavík annarsvegar og Blakfélagi Fjallabyggðar (BF) hinsvegar.
Fyrir leik helgarinnar voru Hamarsmenn í 2. sæti á undan Fjallabyggð en Völsungar vermdu botnsæti deildarinnar.
Leikjafyrirkomulagið hjálpaði Hamri lítið, en eftir langan akstur norður á Húsavík voru strákarnir lengi í gang og lentu 2 – 0 undir. Þá var díselvélin hinsvegar orðin heit og með bakið upp við vegginn, unnu þeir næstu 2 hrinur og tryggðu sér oddahrinu, sem þeir svo unnu og fengu fyrir vikið 2 stig af 3 mögulegum út úr leiknum.
Fimm hrinu leikur var hinsvegar erfiður undirbúningur fyrir leikinn gegn fersku liði Fjallabyggðar daginn eftir. Eftir sannfærandi tap í fyrstu hrinu sýndu strákarnir þó betri takta og börðust hetjulega þó 3-0 tap hafi verið niðurstaðan.
Blakfélag Fjallabyggðar tefldi fram nokkuð endurnýjuðu liði með ungum og efnilegum leikmönnum. Nokkuð sem Hamarsmenn væru alveg tilbúnir að búa að en endurnýju leikmanna í liðinu hefur gengið erfiðlega undanfarin ár.

Niðurstaða helgarinnar, 2 stig af 6 mögulegum í hús og BF fór uppfyrir liðið á töflunni og Hamar er því í 3ja sæti þegar 4 leikir eru eftir af tímabilinu.

Uppskeran var heldur rýr eftir blakhelgina miklu sem leið. Af 11 blakleikjum helgarinnar, töpuðu kvennaliðin tvö 5 leikjunum hvort en karlaliðið vann sinn leik í oddahrinu 3-2.

Það er því ljóst þegar tveimur keppnishelgum af þremur er lokið að bæði kvennaliðin munu í lok mars, berjast fyrir sæti sínu í deildunum.
Karlaliðið er hinsvegar í gríðarlega spennandi toppbaráttu í 2. deildinni en þar eru 3 lið jöfn í 1. – 3. sæti með 18 stig, Vestri, HK-B og Hamar. Í 4. sæti kemur svo Blakfélag Fjallabyggðar með 17 stig.

B lið Hamars keppti á Akureyri um helgina

Það er mikið að gera hjá blakdeildinni um helgina en karlaliðið keppir í 1. deildinni klukkan 19:00 í kvöld gegn Aftureldingu B.
Karlaliðið er í toppbaráttu 1. deildarinnar og mikilvæg stig í boði gegn Aftureldingu.

Kvennaliðin spila svo sína hvora 5 leikina. Á Akureyri er keppnishelgi í 5. deild og þar er B-lið félagsins í botnbaráttu. í Kórnum í Kópavogi er keppt í 2. deild og þar er A-liðið um miðja deild.

Samtals spila lið Hamars því 11 blakleiki á Íslandsmóti um helgina.