Blaksamband Íslands tilkynnti um val á blakmanni og blakkonu ársins 2021 í hádeginu í dag á árlegum blaðamannafundi sambandsins í höfuðstöðvum ÍSÍ.

Ragnar Ingi Axelsson, leikmaður Hamars var valinn Blakmaður ársins 2021. Hamar óskar Ragnari innilega til hamingju með nafnbótina enda er hann vel að henni kominn. Hér fyrir neðan má sjá umsögn Blaksambandsins um Ragnar.

“Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í Úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu, vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari í vor. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri Úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu. 

Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður Úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð. 

Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.”

Blakkona ársins var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir en frétt BLÍ af valinu má nálgast hér.