Hjalti

Árið sem senn er að líða hefur að flestu leyti verið farsælt fyrir Íþróttafélagið Hamar. Mikil gróska er í starfi deildanna og hefur heildarfjöldi iðkenda aukist á árinu. Sunddeild Hamars hefur aðeins átt undir högg að sækja, en það er von okkar að úr rætist enda fara fyrir starfi deildarinnar öflugir einstaklingar sem eru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að vinna að framgangi sundíþróttarinnar í Hveragerði. Full ástæða er til að hvetja sem flesta til að mæta á æfingar hjá sunddeildinni en þjálfari deildarinnar er hin geðþekki og reynslumikli Magnús Tryggvason.

Talsverð umræða hefur verið að undaförnu um kostnað foreldra við íþróttaiðkun barna. Þessi umræða er að mörgu leyti réttmæt, enda er oft á tíðum um að ræða veruleg fjárútlát af hendi foreldra, ofan á það bætist vinna við fjáraflanir o.fl. Bæjarstjórn Hveragerðis tók á árinu ákvörðun um að innleiða frístundastyrk. Með styrknum skuldbinda bæjaryfirvöld sig til að greiða 12.000 krónur með hverju barni undir 18 ára aldri sem iðkar íþrótta-, lista-og tómstundarstarfsemi. Íþróttafélagið Hamar fagnar þessari ákvörðun og er það von okkar að þessi aðgerð létti undir með foreldrum. Mjög mikilvægt er að deildir Hamars stilli hækkunum á æfingargjöldum í hóf svo að styrkurinn nýtist sem best.

Það þurfti hvorki meira né minna en tvær helgar undir jólamót Knattspyrnudeildar Hamars. Áætlaður fjöldi iðkenda á mótinu var 1.600 manns. Jólamót Kjörís er orðin stærsti einstaki viðburðurinn innan deilda Hamars og er mótið gott dæmi um þau gríðarlegu umskipti sem Hamarshöllin hefur haft fyrir Íþróttafélagið, bæði hvað varðar aðstöðu og ekki síður möguleika til tekjuöflunar. Samstillt átak foreldra, stjórnar og styrktaraðila gerir þennan glæsilega viðburð að veruleika.

Hjá Hamri fer fram öflugt sjálfboðaliðastarf þar sem foreldrar og aðrir aðstandendur leggja mikið á sig til fjáraflana, ferðalaga og annarra starfa sem tilheyra starfi iðkenda. Tæknin hefur í seinni tíð komið sterk inn í allt íþróttastarfið. Foreldrar og þjálfarar nýta sér samskiptamiðla í auknum mæli til að skipuleggja starfið. Kostir t.d Facebook eru ótvíræðir til að koma skilaboðum fljótt og vel áfram. Eins og gefur að skilja geta skoðanir á hinum ýmsu hlutum er tengjast starfinu verið misjafnar. Mjög mikilvægt er að við sýnum hvort öðru kurteisi og virðingu í öllum samskiptum og metum störf hvors annars að verðleikum. Við erum jú þegar á hólminn er komið öll í sama liðinu, það frábæra lið heitir Hamar

Fyrir hönd stjórnar Hamars vil ég þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða og sendi okkar bestu óskir um gleðileg jól, farsæld og hamingju á nýju ári

Áfram Hamar!

Hjalti Helgason, formaður Hamars