Aðalfundur Sunddeildar Hamars var haldinn þann 5. febrúar síðastliðinn.
Þar var sundmaður ársins 2018 valinn og var það María Clausen Pétursdóttir sem hlaut þann titil. Hafrún Kemp Helgadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðar framfarir og ástundun. Við óskum þeim til hamingjum með viðurkenningarnar.
Breytingar urðu á stjórn en Björg Hjördís Ragnarsdóttir lét af störfum sem gjaldkeri og við henni tók Brynja Hrafnkelsdóttir. Aðrir í stjórn héldu áfram störfum, þau Sigurbjörg Hafsteinsdóttir formaður og Pétur Guðmundsson meðstjórnandi.
Við þökkum Björgu Hjördísi innilega fyrir samstarfið síðastliðin ár og hennar góða starf sem hún hefur innt af hendi fyrir sunddeildina.

Helga Sóley Heiðarsdóttir er Íþróttamaður Hamars 2018. Þetta var tilkynnt í dag á aðalfundi Hamars sem haldinn var í Grunnskólanum í Hveragerði.

Helga Sóley er ákaflega vel af þessum titli komin, hún hefur verið ein aðalmanneskja körfuknattleiksliðs Hamars í meistaraflokki og verið öflug í unglingalandsliðinu einnig.

Tímabilið 2017-2018 var Helga Sóley að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki, enda aðeins 15 ára gömul í upphafi tímabils. Hún varð strax lykilleikmaður í meistaraflokk Hamars sem spilaði í 1.deild. Helga vakti mikla athygli á vellinum fyrir mikla snerpu, ákveðni og dugnað á báðum endum vallarins þrátt fyrir ungan aldur og að vera að spila á móti töluvert eldri og reyndari leikmönnum.

Helga Sóley Heiðarsdóttir í leik.

Á sama tíma var Helga Sóley að spila með sínum jafnöldrum í 10. Flokk kvenna í sameiginlegu liði Hamars og Hrunamanna. Liðið endaði tímabilið með frábærum árangri og náði 4. sæti Íslandsmótsins. Helga Sóley var einn af lykilleikmönnum þessa liðs.

Á vordögum ársins 2018 var Helga Sóley valin í u16 ára landslið Íslands. Hún spilaði með íslenska landsliðinu á Norðurlandamótinu í Helsinki og Evrópumótinu í Serbíu. Helga Sóley var í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu þetta ár og var til að mynda byrjunarliðsmaður í öllum leikjum liðsins.

Haustið 2018 hóf Helga Sóley þátttöku í körfuknattleiksakademíu FSu og spilar með stúlknaflokki undir merkjum Fsu. Stúlknaflokkliðið hefur náð góðum árangri á Íslandsmótinu nú þegar tímabilið er hálfnað.. Helga Sóley er einnig lykilleikmaður í meistaraflokki Hamars og fær stórt hlutverk í öllum leikjum liðsins.

Það er ljóst að árið 2018 hefur verið viðburðarríkt hjá þessum unga og efnilega íþróttamanni.

Helga Sóley er metnaðarfull og það fer aldrei fram hjá neinum að hún leggur sig ávallt 100% fram á öllum æfingum og leikjum. Hún skilur enga orku eftir. Hún er sterkur leikmaður á báðum endum vallarins. Í sókninni er hún dugleg að sækja upp að körfunni og stingur jafnan varnarmennina af.. Helga Sóley er líka ákveðinn varnarmaður sem er dugleg að gera sóknarmönnum andstæðingana erfitt fyrir.

Helga Sóley mætir allar æfingar og er dugleg að gera aukaæfingar. Hún hlustar vel á leiðbeiningar frá þjálfurum og er sífellt að vinna í að verða enn betri leikmaður.

Helga Sóley er góð fyrirmynd sem sýnir hvað hægt er að ná langt með áhuga, dugnað og vinnusemi í farteskinu.

Íþróttafélagið Hamar óskar Helgu Sóleyju innilega til hamingju með titilinn og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.

Aðrir sem tilnefndir voru eru sem hér segir:

Hluti af þeim hópi sem var tilnefndur í kjöri Íþróttamanns Hamars 2018. Allt saman mikið afreksfólk sem við erum stolt af.

KÖRFUKNATTLEIKSDEILD
Helga Sóley Heiðarsdóttir, körfuknattleiksmaður Hamars 2018

KNATTSPYRNA
Stefán Þór Hannesson, knattspyrnumaður Hamars 2018

SUNDDEILD
María Clausen Pétursdóttir, sundmaður Hamars 2018

BLAKDEILD
Baldvin Már Svavarsson, blakmaður Hamars 2018

BADMINTONDEILD
Margrét Guangbing Hu, badmintonmaður Hamars 2018

FIMLEIKADEILD
Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir, fimleikamaður Hamars 2018

8- liða úrslit Kjörísbikarsins fór fram um helgina og tóku Hamarsmenn á móti þreföldum meisturum KA í íþróttahúsinu að Skólamörk.
KA er gífurlega sterkt lið og byrjaði fyrstu hrinu af krafti og staðan var orðin 11-3 fyrir KA þegar heimamenn náðu að koma sér í gang. Þeir minnkuðu 8 stiga muninn niður í 2 stig og staðan var orðin bara 15-13 fyrir KA. Akureyringum tókst þó að sigra hrinuna 25-19. Önnur hrinan byrjaði svipuð, KA byrjaði vel og náði góðum forskot en Hamarsmenn náðu þó að berjast fyrir hvert stig og endaði hrinan 25-23 fyrr KA. Þriðja hrinan var gífurlega jöfn og spennandi út í gegn. Hörður Reynisson, frelsingi Hamars, átti stórleik og varði bæði föstum uppgjöfum og smössin frá KA-mönnum með glæsibrag. Hamarsmenn sigruðu þriðju hrinu 25-22. KA reyndust svo töluvert sterkari í fjórðu hrinu og voru lengst af með gott forskot. Þrátt fyrir að leikmenn Hamars reyndu hvað þeir gátu til að komast inn í leikinn þá reyndist það ekki nóg og hafði KA að lokum sigur 25-17. KA sigraði því leikinn 3-1 og á því ennþá möguleika á að sigra Kjörísbikarinn en Hamarsmenn eru því miður úr leik.

Þau blakhjónin Sigrún Kristjánsdóttir og Valdimar Hafsteinsson, eigendur Kjörís, gáfu svo öllum leikmönnum, starfsmönnum, dómurum og áhorfendum ís frá Kjörís eftir leikinn.

Þetta var sannkölluð veisla í Skólamörkinni. Hamarsmenn stóðu sig hetjulega á móti meisturunum að norðan og geta svo sannarlega verið stoltir af frammistöðunni sinni. ÁFRAM HAMAR!

8-liða úrslit Kjörísbikarsins fara fram um næstu helgi og á sunnudaginn kl. 16:00 fær karlalið Hamars þrefalda meistara KA í heimsókn.
Skemmtilegur vinkill á leikinn er að fyrrum leikmaður Hamars, Sigþór Helgason, er einn af lykilleikmönnum KA-liðsins og verður gaman að fá hann aftur í heimsók í Skólamörkina.

Við hvetjum alla áhugamenn um íþróttir til að mæta á flugeldasýninguna á sunnudaginn en frítt er á leikinn.

Á aðalfundi blakdeildar Hamars í gær fór fram stjórnarkjör en formaðurinn Kristín H. Hálfdánardóttir gaf ekki áfram kost á sér sem stjórnarmaður. Karen Ragnarsdóttir gaf ekki heldur kost á sér í stjórn og þurfti því að manna tvö stjórnarsæti fyrir komandi vetur.
Barbara Meyer er nýr formaður deildarinnar og í stað Karenar kemur Greta Sverrisdóttir en báðar hafa spilað með félaginu um árabil.
Hermann Ólafsson, Hörður Reynisson og Hugrún Ólafsdóttir halda áfram í stjórninni en kosið er til eins árs í senn.

Blakmaður Hamars árið 2018 er Baldvin Þór Svavarsson

Baldvin er með eindæmum jákvæður og hvetjandi leikmaður og leggur sig alltaf fram fyrir liðið. Hann mætir alltaf á æfingu ef hann mögulega getur og hann hefur tekið gríðarlegum framförum í blaki frá því hann byrjaði að æfa með liðinu. Jákvætt og hvetjandi hugarfar Baldvins er ekki einungis smitandi og hvetjandi fyrir þá sem spila með honum heldur alla sem hann svo mikið sem talar um blak við, slíkur er áhuginn. Baldvin leikur með 1. deildar liði Hamars sem er í toppbaráttunni í næst efstu deild og hefur hann á skömmum tíma orðið einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins.

Karlalið Hamars tók í gær á móti toppliði Vestra frá Ísafirði í 1. deild karla í blaki.
Vegna anna liðsmanna utan blakvallarins, fengu leikmenn með minni leikreynslu tækifæri til að sýna sig og áttu liðið ansi góða spretti á köflum þrátt fyrir miklar breytingar á liðinu.
Það dugði þó ekki til og vel æft og mannað lið Vetra vann leikinn örugglega 3-0 og tryggði þar með stöðu sína á toppi deildarinnar.

Næsta verkefni Hamars er hinsvegar ansi strembið en sunnudaginn 24. febrúar, kl. 16:00 mæta þeir Íslands- og bikarmeisturum KA frá Akureyri í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Við hvetjum ykkur öll til að mæta og styðja strákana og horfa á glæsilegt blak.

Aðalfundur Badmintondeildar Hamars verður haldinn laugardaginn 16. febrúar kl. 13 – 14 í fundarherbergi Hamars (inngangur við Crossfit Hengil).

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf.

Allir foreldrar eru hvattir til að mæta

Kveðja,
Stjórn Badmintondeildar.