Reynslan skilaði sigri í Hveragerði þegar ungt lið Ármanns kom í heimsókn í dag.

Ármanns stúlkur byrjuðu betur og komust í 0-8 áður en Hamar komst á blað en fyrsti leikhluti endaði 20-21 fyrir gestina. Annar leikhluti var jafn á öllum tölum en heimakonur leiddu í hálfleik 36-35. Þriðji leikhluti var alger viðsnúningur eftir jafna 2 fyrstu leikhlutana. Hamars konur voru miklu grimmari og keyrðu fram úr þar sem Þórunn stýrði leik Hamars, skoraði og lagði upp körfur eins og enginn væri morgundagurinn. Á sama tíma lék Sigrún Guðný leikstjórnandi Ármann, með 4.villur sem hafði sitt að segja. 

Tölfræðin var að stríða þar sem sambandið var stopult og leikurinn byrjaði ekki á réttum tíma vegna sambandsleysis við FIBA livestat.

Úrslitin 79-61 og sigur hjá okkar konum þar sem Þórunn var stigahæst með 14 stig, Gígja öflug (líklega u.þ.b. 12 stig) og flestar okkar stúlkna komust á blað.  Athyglisvert að systurnar Katrín og Dagrún Össurar- og Guðrúnardætur spiluðu saman sem og þær systur Gígja, Álfhildur og Fríða Margrét Þorsteins- og Ernudætur. Ekki langt undan var frænka þeirra Laugaskarðs-systra Ragnheiður Magnúsdóttir og ljóst að í þessum ættum er mikil íþróttagen og keppnisskap.  

Synd að tölfræðin fraus því úrvalsdeildarreynslan hjá Sóley, Álfhildi og Þórunni skilaði miklu fleiri fráköstum fyrir Hamar en aftur á móti voru Ármanns stelpur að hitta mun betur framan af og sérstaklega úr sniðskotum sínum.

Góður dagur hjá systrunum Álfhildi og Gígju Marín sem og Þórunni fyrir Hamar. Hjá Ármanni var Sigrún Guðný best með  22 stig.

Slæmur dagur Internetsambandið í Frystikistunni.