Það verður fjör í Hamarshöllinni næsta fimmtudag, þann 29. ágúst, á fjölskyldudegi Hamars.

Við í sunddeildinni verðum auðvitað á staðnum og tökum vel á móti öllum sem mæta og vilja fræðast nánar um starfið í sunddeildinni.

Hlökkum til að sjá sem flesta 🙂

Um síðustu helgi fór fram Aldursflokkameistaramót Íslands (AMÍ) í sundi í Reykjanesbæ. Þar átti Sunddeild Hamars sinn fulltrúa sem var María Clausen Pétursdóttir, fyrsti sundmaður Hamars í allmörg ár til að synda á þessu móti.
María synti 100 m bringusund á 1:43,70 mín. og bætti sig þar um 3,59 sek. Hún synti einnig 100 m. skriðsund á 1:18,87 mín og bætti sig þar um 3,92 sek.
María hefur lagt mikinn metnað í æfingar sínar og hefur styrkst mikið í vetur og framistaða hennar og framkoma var til mikillar fyrirmyndar. Því má vænta mikils af henni á næsta keppnistímabili.
Á myndinni eru Hallgerður og Sara frá Selfossi og María sem er lengst til hægri. Þessar stúlkur voru glæsilegir fulltrúar Sunnlendinga á mótinu!

Hérðasmót HSK í sundi fór fram þann 6. júní síðastliðinn hér í Hveragerði og mættu keppendur frá tveimur félögum til leiks, frá Hamri og Selfossi. Leikar fóru þannig að Selfoss vann liðakeppnina með 118 stig en Hamar fékk 84 stig.
Guðjón Ernst Dagbjartsson frá Hamri var stigahæsti sundmaðurinn með 21 stig en hann sigraði í 3 greinum.
Allir þátttakendur stóðu sig með miklum sóma og var gaman að sjá hve margir unnu persónulega sigra þarna á mótinu. Yngstu krakkarnir í Hamri voru mörg að stíga sín fyrstu skref á sundmóti og fengu þau öll þátttökuverðlaun. Þeir krakkar sem voru 11 ára eldir í Hamri syntu svo til stiga og fengu mörg verðlaun og sýndu miklar framfarir. Það verður gaman að fylgjast með öllum þessum frábæru krökkum í Hamri í náinni framtíð.
Sunddeild Hamars þakkar öllum þeim sem komu að þessu móti og lögðu hönd á plóginn, keppendur, sjálfboðaliðar og starfsmenn sundlaugarinnar í Laugaskarði.

Myndir frá mótinu má sjá á fésbókarsíðu Sunddeildar Hamars

https://www.facebook.com/sunddeildhamars/

Hið árlega páskasund hjá sunddeildinni fór fram í dag. Mikil stemning var hjá sundkrökkunum og gleðin allsráðandi á æfingunni og allir skemmtu sér konunglega. Það er alltaf mikil eftirvænting fyrir páskahappadrættinu en þá eru nöfn iðkenda sett í pott og einn heppinn dreginn út sem hlýtur stórt páskaegg. Í ár var það Sandra Kristín sem hlaut það. Hinir iðkendurnir fóru þó ekki tómhentir heim eftir æfinguna því allir fengu lítið páskaegg að gjöf frá sunddeildinni. Síðasta æfing fyrir páskafrí verður þriðjudaginn 16. apríl.

Guðlaugssundi 2019 er lokið!
Það voru sjö manns sem syntu að þessu sinni. 
Fimm fór heilt sund (6 km) og tveir fóru hálft!
Sara Ægisdóttir synti á bestum tíma 1:39,13 klst. sem er næst besti tíminn frá upphafi (2007).
Ægir Sigurðsson (faðir Söru) synti á 1:47,03 klst. 
Stefán Ólafsson synti á 1:55,47 klst. 
Guðjón Ernst Dagbjartsson synti á 1:58,00 klst. og María Clausen Pétursdóttir synti á 2:05,51klst.
Guðrún Ásta Ægisdóttir synti 4 km á 1:46,00 klst (3 km á 1:20,12 klst. og yngsti sundmaðurinn Guðjón Árnason synti 3 km á 1:17,20 klst.
Sundið gekk ljómandi vel, elsti sundmaðurinn var 40 ára og sá yngsti 13 ára.
Kunnum við sundfólkinu bestu þakkir fyrir!
Á myndinni er hluti af þeim sem syntu í dag: María, Sara, Stefán, Ægir og Guðrún Ágústa.

Aðalfundur Sunddeildar Hamars var haldinn þann 5. febrúar síðastliðinn.
Þar var sundmaður ársins 2018 valinn og var það María Clausen Pétursdóttir sem hlaut þann titil. Hafrún Kemp Helgadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðar framfarir og ástundun. Við óskum þeim til hamingjum með viðurkenningarnar.
Breytingar urðu á stjórn en Björg Hjördís Ragnarsdóttir lét af störfum sem gjaldkeri og við henni tók Brynja Hrafnkelsdóttir. Aðrir í stjórn héldu áfram störfum, þau Sigurbjörg Hafsteinsdóttir formaður og Pétur Guðmundsson meðstjórnandi.
Við þökkum Björgu Hjördísi innilega fyrir samstarfið síðastliðin ár og hennar góða starf sem hún hefur innt af hendi fyrir sunddeildina.

Aðalfundur Sunddeildar Hamars verður haldinn þriðjudaginn 5. febrúar kl. 18 – 19 í stofu 5 í Grunnskólanum í Hveragerði (austurinngangur hjá Garðshorni). Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða veittar viðurkenningar til iðkenda. Allir foreldrar hvattir til að mæta.

Jafnframt óskar sunddeildin eftir framboðum til gjaldkera sunddeildarinnar.

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.
Bestu kveðjur,

stjórn Sunddeildar.

Sunddeild Hamars er farin af stað með vetrarstarfið. Öll börn sem vilja koma og prufa eru velkomin á æfingar í þessari viku og næstu, fram til 21. september. Opið er fyrir skráningar inn á hamar.felog.is, endilega skráið ykkar barn þar sem fyrst.  Þeir sem skrá sitt barn fyrir 1. október fá vegleg sundgleraugu frá sunddeildinni.
 

Æfingatímar hjá sunddeildinni haustið 2018:


Yngri hópur (1.- 5. bekkur)
æfir á þriðjudögum kl. 16:15-17:00, fimmtudögum kl. 16:15-17:00 og föstudögum kl. 14:15 – 15:15.

Eldri hópur (6. bekkur og eldri) æfir á þriðjudögum kl. 17:00-18:30, fimmtudögum kl. 17:00-18:30 og á föstudögum kl. 14:15 – 15:15.

Við minnum einnig á skriðsundsnámskeiðið fyrir fullorðna sem nú er að byrja. Skráning og upplýsingar hjá Magnúsi 898-3067 eða maggitryggva@gmail.com

Sund er skemmtileg alhliða þjálfun sem byggir á góðri tækni, mýkt, liðleika, styrk og úthaldi. Öll þjálfun í deildinni er einstaklingsmiðuð.

Hægt er að fylgjast með starfi sunddeildarinnar m.a. á fésbókarsíðunni Sunddeild Hamars, Hveragerði.

Héraðsmót HSK í sundi var haldið í Hveragerði þann 5. júní  og mættu keppendur frá þremur félögum til leiks. Það voru liðsmenn frá Hamri, Selfossi og Suðra sem stungu sér til sunds að þessu sinni.

Góð stemming var á mótinu og gaman að sjá keppendur leggja sig alla fram við að reyna að ná sínum besta árangri.

Úrslit í stigakeppni mótsins urðu þau að Selfoss vann með 82 stig, Hamar fékk 54 stig og Suðri 11 stig.

Keppendum eru færðar þakkir fyrir þátttökuna sem og þeim foreldrum sem aðstoðuð við framkvæmd mótsins.
Starfsfólkinu í Laugaskarði eru einnig færðar miklar þakkir fyrir góða aðstoð og frábærar móttökur.

Myndir frá mótinu má sjá á fésbókarsíðu Sunddeildar Hamars: 

https://www.facebook.com/sunddeildhamars/

 

Í gær fór fram hið árlega páskasund hjá sunddeildinni. Það var líf og fjör í sundlauginni í Laugaskarði á meðan það fór fram og skemmtu allir sér konunglega. Hápunkturinn var auðvitað happadrættið en þá eru nöfn iðkenda sett í pott og einn heppinn dreginn út sem hlýtur stórt páskaegg. Í ár var það Sigríður Kristín sem hlaut það. Hinir fóru þó ekki tómhentir heim eftir æfinguna því allir fengu páskaegg að gjöf. Sunddeildin óskar iðkendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska. Næsta sundæfing verður á venjubundnum tíma þriðjudaginn 3. apríl.