Nú er sumri farið að halla sem þýðir að sundæfingar í sunddeildinni fara að hefjast. Maggi mun byrja með æfingar í vikunni sem er framundan. Þriðjudaginn 25. ágúst verður fyrsta æfing svo allir krakkar eru velkomnir þá í sundlaugina.

Æfingar verða sem hér segir:

Yngri hópur (1.- 5. bekkur) æfir á þriðjudögum kl. 16:15-17:00, fimmtudögum kl. 16:15-17:00 og föstudögum kl. 13:15 – 14:15.

Eldri hópur (6. bekkur og eldri) æfir á þriðjudögum kl. 17:00-18:30, fimmtudögum kl. 17:00-18:30 og á föstudögum kl. 13:15 – 14:15.

Hlökkum til að sjá sem flesta í sundlauginni og minnum á að allir krakkar geta mætt á æfingar nú í byrjun til að prufa.

Sundkveðjur frá stjórn og þjálfara.

Aðalfundur Sunddeildar Hamars verður haldinn þriðjudaginn 4. febrúar kl. 18 – 18:45 Mjólkurbúinu í Grunnskólanum í Hveragerði.
Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða veittar viðurkenningar til iðkenda. Allir foreldrar hvattir til að mæta.

Hlökkum til að sjá ykkur sem allra flest.

Bestu kveðjur,
stjórn Sunddeildar Hamars.

 

Sundráð HSK býður um helgina upp á æfingabúðir í sundi í Þorlákshöfn. Þar munu sunddeildirnar frá Selfossi, Hamri og Dímoni koma saman, styrkja böndin og auðvitað synda mikið. Eldri iðkendur verða tvo daga en þeir yngri einn dag. Það verður því mikið fjör í Þorlákshöfn og gaman verður að fylgjast með öfluga sundfólkinu okkar þar.

Magnús Tryggvason þjálfari hjá Sunddeild Hamars útskrifaðist af Level 3 þjálfaranámskeiði Alþjóðasundsambandsins (FINA) sem haldið var á vegum Sundsambands Íslands nú í lok september. Er þetta æðsta stig þjálfaramenntunar sem FINA býður upp á. Sá sem kenndi á námskeiðinu var Genadijus Sokolovas sem er einn helsti sérfræðingur heims í sundi og hefur hann komið að þjálfun helstu afreksmanna heimsins í sundi eins og Michael Phelps og Natalie Coughlin.

Þeir sem sátu þetta námskeið voru sammála um að þeir höfðu lært gríðarlega mikið og það hefði verið mikill heiður að fá þennan sundsérfræðing hingar til lands. Magnús var eini Íslendingurinn sem sat þetta alþjóðlega námskeið og er því fyrsti Íslendingurinn sem nær þessu þjálfarastigi.

Við óskum Magnúsi innilega til hamingju með þennan áfanga.

Æfingar í sunddeildinni fara vel af stað þetta haustið og gaman er að sjá hve margir hafa verið að mæta á æfingarnar.

Nú er búið að opna fyrir skráningar í Sunddeildina inn á síðu Hamars, https://hamar.felog.is/ Endilega skráið ykkar barn sem fyrst. Þeir sem skrá barnið sitt fyrir 1. október fá vegleg sundgleraugu frá sunddeildinni.

Sjáumst í sundi 🙂
Með kveðju,
stjórn og þjálfari Sunddeildar Hamars

Nú eru æfingar í sunddeildinni komnar af stað þetta haustið. Allir eru velkomnir að mæta á æfingar og prufa sundið fram til 15. september.

Hér má sjá æfingatímana hjá sunddeildinni þetta haustið.

Æfingatímar hjá sunddeildinni haustið 2019:
Yngri hópur (1. – 5. bekkur):
Þriðjudaga og fimmtudaga kl. 16-17 og
föstudaga frá kl. 13:15 – 14:15.

Eldri hópur (6. bekkur og eldri):

Þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17 – 18 og
föstudaga kl. 13:15 – 14:15

Sjáumst í sundi 😊

Það verður fjör í Hamarshöllinni næsta fimmtudag, þann 29. ágúst, á fjölskyldudegi Hamars.

Við í sunddeildinni verðum auðvitað á staðnum og tökum vel á móti öllum sem mæta og vilja fræðast nánar um starfið í sunddeildinni.

Hlökkum til að sjá sem flesta 🙂

Um síðustu helgi fór fram Aldursflokkameistaramót Íslands (AMÍ) í sundi í Reykjanesbæ. Þar átti Sunddeild Hamars sinn fulltrúa sem var María Clausen Pétursdóttir, fyrsti sundmaður Hamars í allmörg ár til að synda á þessu móti.
María synti 100 m bringusund á 1:43,70 mín. og bætti sig þar um 3,59 sek. Hún synti einnig 100 m. skriðsund á 1:18,87 mín og bætti sig þar um 3,92 sek.
María hefur lagt mikinn metnað í æfingar sínar og hefur styrkst mikið í vetur og framistaða hennar og framkoma var til mikillar fyrirmyndar. Því má vænta mikils af henni á næsta keppnistímabili.
Á myndinni eru Hallgerður og Sara frá Selfossi og María sem er lengst til hægri. Þessar stúlkur voru glæsilegir fulltrúar Sunnlendinga á mótinu!

Hérðasmót HSK í sundi fór fram þann 6. júní síðastliðinn hér í Hveragerði og mættu keppendur frá tveimur félögum til leiks, frá Hamri og Selfossi. Leikar fóru þannig að Selfoss vann liðakeppnina með 118 stig en Hamar fékk 84 stig.
Guðjón Ernst Dagbjartsson frá Hamri var stigahæsti sundmaðurinn með 21 stig en hann sigraði í 3 greinum.
Allir þátttakendur stóðu sig með miklum sóma og var gaman að sjá hve margir unnu persónulega sigra þarna á mótinu. Yngstu krakkarnir í Hamri voru mörg að stíga sín fyrstu skref á sundmóti og fengu þau öll þátttökuverðlaun. Þeir krakkar sem voru 11 ára eldir í Hamri syntu svo til stiga og fengu mörg verðlaun og sýndu miklar framfarir. Það verður gaman að fylgjast með öllum þessum frábæru krökkum í Hamri í náinni framtíð.
Sunddeild Hamars þakkar öllum þeim sem komu að þessu móti og lögðu hönd á plóginn, keppendur, sjálfboðaliðar og starfsmenn sundlaugarinnar í Laugaskarði.

Myndir frá mótinu má sjá á fésbókarsíðu Sunddeildar Hamars

https://www.facebook.com/sunddeildhamars/