Hamarsmenn fengu lið GG frá Grindavík í heimsókn í undanúrslitum Lengjubikars KSÍ á Selfossi sunnudaginn sl. Leikurinn enadaði með 1-2 sigri GG manna eftir mikinn baráttuleik. GG komst yfir á 12.mínutu eftir klaufaskap í vörn Hamarsmanna. Bæði lið fengu færi til að skora en allt kom fyrir ekki endaði fyrri hálfleikurinn verðskuldað 0-1 fyrir GG. Hamarsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn mun betur og fengu nokkur færi til að jafna leikinn en á 55.mínútu komust GG menn í skyndisókn og bættu við öðru marki og á brattann að sækja fyrir Hamarsmenn. Eftir seinna mark GG færðist harka í leikinn og ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir. Hamar hélt áfram að sækja og komu sér í góð færi en tókst þó ekki að klóra í bakann fyrr en of seint með góðu marki Ísaks Leó Guðmundssonar í uppbótartíma en það reyndist síðasta spyrna leiksins og enduðu leikurinn því 1-2 fyrir sterku liði GG og mæta þeir liði Snæfells í úrslitum Lengjubikarsins.

Þetta var síðasti leikur Hamars áður en alvaran tekur við en fyrsti leikur Hamars er 14.maí þegar Hamar tekur á móti Álafoss á Grýluvelli kl.20. ljóst er að þetta verður skemmtilegt knattspyrnusumar í Hveragerði.

Öldungamót í blaki sem heitir Rokköld í ár verður haldið í Keflavík 25. til 27. apríl. Mótið er fyrir blakara 30 ára og eldri. Blakdeild Hamars mun senda fjögur lið, tvö karlalið og tvenn kvennalið. Að sögn Barböru Meyer, formanns blakdeildarinnar, er mikill spenningur í loftinu fyrir mótinu. „Við stefnum með fjögur lið á mótið. Veturinn hefur verið kaflaskiptur hjá okkur og jafnvel ekki auðvelt með að ná í lið en svo höfum við líka spilað mjög vel inn á milli. Mjög sterkt B-lið karla mun keppa í Keflavík og er ég bjartsýn á að þeir nái góðum árangri og það væri auðvitað frábært ef þeir ná að vinna sig upp um deild. Sömu vonir hef ég um A-lið karla sem spilar í annari deild í ár, þeir unnu sig upp úr þriðju deild í fyrra og við höfum loksins fengið Kristján Valdimarson til okkar sem varð 30 ára á árinu og er orðinn löglegur öldungur á mótið. Hann mun styrkja A-lið karla svo um munar. Kristján var valinn blakmaður ársins 2018 og einnig 2017. Hann spilaði með BK Tromsö í Noregi og er einn af burðaásum í karlalandsliði Íslands. Það er búið að bíða lengi eftir að Kristján verði 30 ára svo hann getur farið með okkur á þetta stærsta mót ársins. Gaman hefði verið að fá tvíburabróðir hans líka en hann Hafsteinn er erlendis að spila svo við vonum að fá hann inn til okkar að ári. Svo erum við einnig með mjög sterkan leikmann sem libero og annað leynivopn sem diagonal. Gaman er að segja frá því að feðgar spila saman í A-liði karla, þeir Valdimar Hafsteinsson og Kristján Valdimarsson og einnig eru feðgar í B-liði karla, Hörður Reynisson og Reynir Örn Harðarson. Mannskapurinn í ár er afar góður en má ekki tæpara standa. Það er enginn varamaður í A-liði karla og ekki heldur í A-liði kvenna, þannig það er eins gott að leikmenn verða ekki fyrir meiðslum.

Kristján Hafsteinsson er loksins orðinn löglegur öldungur.
Feðgarnir Reynir Örn Harðarson og Hörður Reynisson munu keppa saman á Rokköld 2019. ÁFRAM HAMAR!

Hamarsmenn heldu svalasta blakmót ársins. Kjörísmót 2019!

Metskráning var á hraðmóti í blaki, Kjörísmót 2019, haldið af blakdeild Hamars síðasta laugardag. 40 lið mættu til leiks, þar af 8 karlalið og 32 kvennalið. Karlarnir kepptu í Hamarshöllinni í Hveragerði en konurnar í Iðu á Selfossi. Mótstjóri var Barbara Meyer, formaður blakdeildar Hamars og var hún afar ánægð með mótið: „Við höldum þetta trimmmót árlega. Kjörís er styrktaraðilinn okkar og allir félagsmenn taka þátt að gera þetta mót glæsilegt í alla staði. Mætingin var 7.30 bæði í Hamarsjöll og í Iðu og um leið og húsin voru opnuð streymdu blakararnir inn með bros á vör. Kjörísmótið er mjög vinsælt mót enda seinasta mót fyrir Öldungamót og vilja mörg lið koma til okkar til að taka lokaæfingu fyrir það. Í ár var gífurleg skráning hjá okkur. Alls kepptu 40 lið og komust því miður færri að en vildu. Í fyrra spiluðu 28 lið, þannig í ár voru 12 lið fleiri eða 30 % aukning. Keppt var í einni karladeildinni en fjórum kvennadeildum.  Massabland sigraði karladeildinni en Polska var í öðru sæti og Fylkir í því þriðja.

Keppt var í fjórum kvennadeildum. Það var Álftanes-A  sem sigraði 1 deild kvenna, Alftanes vann 2. deild, Hrunamenn 3. deild og Polska kvk sigraði 4 deild kvenna.

Alls mættu þrjú  pólsk lið til okkar, þannig við vorum mjög alþjóðleg í ár, sem er bara frábært. Það fengu allir frían ís frá Kjörís áður en þau lögðu heim á leið með bros á vör. Umfjöllum um Kjörísmótið hefur verið afar góð og eru menn og konur sammála um að Kjörísmótið er svalasta og vinsælasta trimmmót ársins“.

Fyrsta Kjörísmót var haldið 1999 svo að um 20 ára afmæli var að ræða. Verðlaunin eru ávallt hefðbundin, blóm og ís frá Hvergerði. Veitt eru verðlaun fyrir fyrsta og annað sæti í öllum deildum.

Kjörísmótið er fastur liður í undirbúningi fyrir Öldungamót sem fram fer í lok apríl í Keflavík og er stærsta blakmót á árinu. Þar eru 161 lið skráð í ár og má eiga von á um tæplega 2000 blökurum.

Hrunamenn unnu 3. deild kvenna

Hið árlega páskasund hjá sunddeildinni fór fram í dag. Mikil stemning var hjá sundkrökkunum og gleðin allsráðandi á æfingunni og allir skemmtu sér konunglega. Það er alltaf mikil eftirvænting fyrir páskahappadrættinu en þá eru nöfn iðkenda sett í pott og einn heppinn dreginn út sem hlýtur stórt páskaegg. Í ár var það Sandra Kristín sem hlaut það. Hinir iðkendurnir fóru þó ekki tómhentir heim eftir æfinguna því allir fengu lítið páskaegg að gjöf frá sunddeildinni. Síðasta æfing fyrir páskafrí verður þriðjudaginn 16. apríl.