Laugardaginn 23. febrúar fór fram firma- og hópakeppni knattspyrnudeildar Hamars. Hér á árum áður var firmamót knattspyrnudeildar Hamars árlegur viðburður en hefur mótið legið niðri um hríð, þar til síðasta laugardag. Stærsta breytingin frá gömlu firmamótunum er auðvitað sú að nú er leikið í hinni stórglæsilegu Hamarshöll og því hægt að leika á tveimur völlum í einu við bestu aðstæður. 

Þátttaka í mótið var mjög góð og tóku tíu lið þátt, lið allt frá Sandgerði austur að Hvolsvelli. Leikið var í tveimur fimm liða riðlum og því hverju liði tryggðir að minnsta kosti fjórir leikir en sex leikir fyrir þau tvö efstu sem kæmust í undanúrslit. Sólin frá Sandgerði

Umjörð og skipulag mótsins tókst með ágætum og var til fyrirmyndar. Þá var á staðnum glæsileg veitingasala sem var í umsjón forráðamanna- og kvenna yngri flokka knattspyrnudeildar, pössuðu þau upp á að hinir hátt í eitthundrað þátttakendur og tugir áhorfenda héldu orku og athafnasemi sinni í hámarki yfir daginn með góðum og glæsilegum veitingum. 

Allar tegundir tilþrifa sáust yfir daginn, glæsileg, sérkennileg, vandræðaleg og umfram allt skemmtileg. Riðlakeppnin var æsispennandi á köflum, heitt var í kolunum í sumum leikjanna á meðan í öðrum var léttleikinn í fyrirrúmi. 

Til undanúrslita léku annars vegar lið SS frá Hvolsvelli og Steypustöðvarinnar og hins vegar Sólin frá Sandgerði og Kjörís. Eftir mikla baráttu og spennu voru það Sólin frá Sandgerði og Steypustöðin sem tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum, þar stóð Sólin frá Sandgerði uppi sem sigurvegari á meðan SS sigraði Kjörís í leiknum um þriðja sætið. Sigurvegararnir fengu afhendan bikar og verðlaunapeninga ásamt glaðningi frá Café Rose. Liðin í öðru og þriðja sæti fengu verðlaunapeninga og gjafabréf frá Kjörís, þá fengu allir þátttakendu tilboðsmiða á tveir fyrir einn tilboð af matseðlinum hjá Café Rose og var brjálað að gera hjá Gulla langt fram eftir kvöldi.  

Umsjónarmenn firma- og hópakeppninnar vilja þakka liðunum og hópunum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá þau öll aftur í næsta keppni. Þá vilja umsjónarmenn einnig þakka aðstandendum yngri flokka knattspyrnudeildarinnar fyrir þeirra aðkomu og svo sérstaklega Ingþóri, Ingimari, Tómasi, Óla Jó, Bjarnþóri og Indriða fyrir dómgæslu og reddingu.    

urslit

Nú hafa allar upplýsingar um knattspyrnudeildina verið uppfærðar hér inn á Hamarsport. Inn á svæði knattspyrnudeildarinnar má nú sjá og finna allar nýjustu upplýsingar um stjórn, þjálfara, æfingatíma og síður yngri flokka á Facebook ásamt upplýsingum hvernig hægt er að hafa samband við þá sem starfa við og koma að starfi deildarinnar.

 

Dagskrá:

Hefðbundin aðalfundarstörf

Önnur mál

  

Óskum eftir áhugasömum foreldrum/forráðamönnum til að starfa í stjórn.

Allir velkomnir!

 

Stjórn fimleikadeilar Hamars

Aðalfundur knattspyrnudeildar Hamars var haldinn miðvikudaginn 13. febrúar kl. 19:30 í aðstöðuhúsi félagsins við Grýluvöll. Farið var yfir starfsár félagsins 2012, reikningar lagði fram og ný stjórn kjörin. 

Ágætis mæting var á fundinn og var boðið upp á gómsætt bakkelsi frá Almari bakara, rjúkandi heitt og gott kaffi frá Brasilíu og gosdrykk frá Ameríku. 

Erla Pálmadóttir stýrði fundinum af stakri fagmennsku. Elínborg gjaldkeri yngri flokka og Eyfi formaður fóru yfir skýrslu stjórnar og reikninga flokkanna ásamt því að sitja fyrir svörum. 

Ný stjórn var svo kjörin og er hún mönnuð hvorki fleiri né færri en ellefu mönnum og konum sem hlýtur að vera met. Það sem skipti þó meira máli er að til stjórnar hafa valist einstaklega gott og duglegt fólk sem án efa mun leggja sig fram um að auka veg og virðingu knattspyrnudeildarinnar. Fráfarandi stjórnarmönnum var þakkað gott og óeigingjarnt starf á liðnu ári og árum. 

Ný stjórn knattspyrnudeildar Hamars er eftirfarandi: 

Ævar Sigurðsson – Formaður 

Yngri flokkar: 
Elínborg María Ólafsdóttir – Gjaldkeri 
Þorkell Pétursson/Guðrún Eiríka Snorradóttir 
Matthías Þórisson 
Arnar Stefánsson 
Þorsteinn T. Ragnarsson 

Meistaraflokkur og 2. flokkur: 
Eyjólfur Harðarson – Formaður 
Margrét Jóna Bjarnadóttir – Gjaldkeri 
Michael Hassing 
Steinar Logi Hilmarsson 
Erla M. Pálmadóttir 

Munu stjórnirnar koma saman fljótlega til að skipta frekar með sér verkum.

Hamar vann sannfærandi sigur á Laugdælum í 1.deild kvenna í gær, 93-32 þar sem aldrei var spurning um úrslit leiksins. Íris Ásgeirs var með flottar tölur, 41 stig og 11 fráköst, Marín skoraði 10 stig, Dagný Lísa 8, Margrét Arnars, Álfhildur og Jenný skoruðu 7 stig hver, Freyja Fanndal 5, Rannveig 3 og þær Helga og (Katrín) skoruðu báðar 2 stig. Sunnlenskt yfirbragð var á leiknum en allir leikmenn og dómarar voru sunnlenskir og ljóst að lið Laugdæla hefur tekið miklum framförum í vetur á sínu fyrst ári í deildarkeppni.

Næsti leikur stúlknanna er 24. febrúar á móti Breiðablik úti.

Dósasöfnunin hófst kl 18:00 og var talningu lokið að ganga 23:00 og þakkar Fimleikadeild Hamars bæjarbúum og þeim iðkendum og fjölskyldum þeirra sem mættu innilega fyrir góðar viðtökur. Þið náðuð að safna tæplega 10000 dósum og flöskum sem gefur okkur tækifæri til að gera eitthvað gott fyrir deildina.

Fimleikadeild Hamars þakkar ykkur innilega fyrir þátttökuna og það var virkilega gaman að sjá hvað margir bera hag deildarinnar fyrir brjósti.

Stjórnin

Drengirnir hans Lárusar í mfl. gerðu góða ferð norður á föstudag þar sem þeir lönduðu sigri  á Þór Ak. á síðustu mínútu, 81-88. Þar áður höfðu þeir unnið Reynir Sandgerði hér heima 109-88 og sitja í 3ja sæti eins og stendur en eiga leik til góða á Hauka sem sitja í 2.sæti.  Stelpurnar hans Hadda unnu einnig Þórsara líkt og strákarnir, hér heima á laugardaginn 78-56 og sitja sem fyrr í toppsætinu með fullt hús stiga..

Bæði lið eiga leiki hér heima í vikunni, stelpurnar á miðvikudag gegn Laugdælum og strákarnir á föstudag við Þór Akureyri aftur (frestaður leikur) en báðir leikir hefjast klukkan 19.15 og hvetjum við sem flesta til að koma og Áfram Hamar.

Firma- og hópakeppni knattspyrnudeildar Hamars verður leikin laugardaginn 23. febrúar í nýju Hamarshöllinni í Hveragerði. Það er alltaf gott veður í Hamarshöllinni og er hitastigið þar eins og á mildu vorkvöldi í Suður Evrópu. 

Nú er tækifæri fyrir lið, hópa og bara hverja sem er til að koma saman og leika fótbolta við bestu aðstæður á Suðurlandi. 

Fyrirkomulag mótsins: 
-Leikið er í liðum 6 á móti 6.

-Leikið er eftir reglum KSÍ um keppni 7 manna liða. 
Stærð vallar er 42 x 32 metrar (1/4 af fullum velli). 

-Leiktími hvers leiks er 1 x 12 mín.

-Hvert lið leikur að lágmarki 4 leiki.

-Hver leikmaður er aðeins hlutgengur með einu liði í mótinu.

-Dómgæsla er í höndum mótshaldara. 

Verðlaun:

Öll þátttökulið fá viðurkenningu og verðlaun. Verðlaunapeningar verða veittir fyrir þrjú efstu sætin og hlýtur sigurliðið einnig bikar og vegleg verðlaun frá styrktaraðilum. 

Skráning:

Þátttöku ber að tilkynna í síðasta lagi mánudaginn 18. febrúar á netfangið: motahaldhamars@gmail.com og í síma : 773-3200

Þar sem takmarkaður fjöldi liða kemst að gildir að „fyrstur kemur, fyrstur fær“.

Með þátttökutilkynningunni er nauðsynlegt að með fylgi upplýsingar um nafn tengiliðs hjá viðkomandi liði ásamt símanúmeri og netfangi.

Þátttökugjald í firma- og hópakeppnina er kr. 15.000.- á lið sem ber að greiða um leið og mótshaldari hefur staðfest þátttöku viðkomandi liðs.

Nú er komið að fimleikadeildinni að fá að safna dósum og flöskum í fjáröflunarskyni hjá bæjarbúum hér í Hveragerði. Mánudaginn 11. febrúar kl. 18 biðjum við þá forráðamenn sem geta að koma í áhaldahús bæjarins (hægra megin við slökkvistöðina) og við deilum niður á okkur götum, keyrum krakkana sem ganga í hús og safna dósunum og svo flokkum við og teljum í áhaldahúsinu. Ef margir hjálpast að ætti þetta ekki að taka langan tíma en getur skilað fimleikadeildinni töluverðri peningaupphæð sem nýtist í áhaldakaup. Þeir sem hafa aðgang að stórum bílum eða kerrum eru beðnir að koma með þær.

Stjórn Fimleikadeildar Hamars

 

Sæl öll,

Stúlkur geta fengið að máta boli hjá Maríu eftir æfingu á föstudag 18:00 í íþróttahúsinu í Hveragerði

Bolurinn kostar 14.000 kr, teygja í stíl 1200 kr. Bolur og teygja

Tilboð: 14.500 kr.

María sendir inn pöntun á mánudagskvöldið nk.

Endilega látið vita hvort þið viljið vera með í pöntuninni á mariahassing5@gmail.com