Hin unga og efnilega fimleikakona, Hekla Björt Birkisdóttir, var kjörin íþróttamaður ársins í hófi menningar, íþrótta og frístundanefnar Hveragerðisbæjar. Hekla Björt var Íslands- og deildarmeistari í fullorðinsflokki í hópfimleikum, með blönduðu liði Selfoss. Hún var valin í landslið U18 ára blandað lið Íslands í hópfimleikum sem tók þátt í mjög sterku Evrópumóti í Slóveníu og lenti liðið í 3. sæti. Hún var lykilmaður í liði Íslands og keppti á öllum áhöldum. Hekla Björt hefur stundað fimleika hjá fimleikadeild Selfoss í nokkur ár, en áður var hún í fimleikadeild Hamars. Hekla Björt hefur tekið miklum framförum í greininni síðustu ár og er orðin ein af fremstu fimleikakonum landsins.