Hamar og ÍA áttust við í frystikistunni í kvöld. Leikurinn fór fjörlega af stað og skiptust liðin á að taka forustuna. Hamarsmenn sem sátu í öðru sæti fyrir leikinn þurftu nauðsynlega á sigri að halda í toppbaráttunni, en sömu sögu má segja af Skagamönnum sem voru í þriðja sætinu. Eftir fyrsta leikhluta leiddu gestirnir af skaganum eftir stórleik frá Zac sem skoraði 16 stig fyrir skagamenn 24-26. Í öðrum leikhluta dróg þó til tíðinda þegar dómari leiksins Björgvin Rúnarsson meiddist, við þetta var mikil töf á leiknum og þurfti Gunnlaugur að dæma restina af fyrri hálfleik einn. Hamarsmenn voru allan leikhlutann að elta skagann en náðu að jafna þegar 6 sek voru eftir 45-45, En hvar annar en Zac-Attack var mættur og smellti niður þrist sem kláraði fyrri hálfleikinn og staðann því 45-48 gestunum í vil.

Við tók svo lengsti hálfleikur sem nokkurn tíman hefur verið í körfu þar sem kalla þurfti á Davíð Hreiðarsson til þess að koma og dæma síðari hálfleikinn með Gunnlaugi. Loks hóst þó leikurinn aftur og héldu liðin áfram að vera hníf jöfn, það voru þó ÍA strákar sem náðu fínu forskoti 57-64 en þá vöknuðu heimamenn loksins. Með körfum úr öllum áttum náðu Hamarsmenn að vinna stemmninguna yfir sín megin og komast yfir fyrir loka fjórðunginn 69-68, og Spennan gífurleg þó seint værir liðið á fimmtudagskvöld. Það ætlaði síðan allt að verða vitlaust þegar að Fannar þjálfari Skagamanna lenti í samstuði við Sigurð Hafþórsson leikmann Hamars í upphafi 4 leikhluta og uppskar hann ásetningsbrot. Þennan meðbyr nýttu Hamarsmenn sér og náðu smá forskoti þó ekki væri nema 3-5 stig og sigldu að lokum sex stiga sigri í hús 93-87.

Hjá Hamri var það liðsheildin sem skóp sigurinn en atkvæðamestur var Þorsteinn Gunnlaugsson með 25 stig og 13 fráköst, næstur kom Julian Nelson með 20 stig,  Örn Sigurðarson var með 18 stig og 9 fráköst, Halldór Gunnar Jónsson setti 12 stig, Kristinn Ólafsson og Birgir Þór Sverrisson settu 5 stig hvor. Hjá ÍA var það Zachary „ZAC-ATTACK“ Warren með 47 stig og 6 fráköst, þá var Fannar með 14 stig og 10 fráköst.

Áfram Hamar!