Í sumar tók stjórn Hamars ákvörðun um að endurnýja heimasíðu Hamars.  Eldri síðan hefur þjónað sínum tilgangi ágætlega í gegnum árin en margt vantar þó upp á svo hún sé nútímaleg og notendavæn.  Nýja síðan verður notendavænni í alla staði, fyrir iðkendur,foreldra og þjálfara.  Linkar verða á síðunni inn á Facebook og Twitter og einnig verður aðvelt að setja inn efni á síðuna t.d með snjallsímum.

Það er fyrirtækið Vefþjónustan sf. sem sér um hönnun og uppsetningu.  Anton Tómasson  hefur verið  okkur í stjórn Hamars til halds og trausts við gerð síðunnar.

Á árinu hefur Hamar innleitt Nori skráningarkerfið.  Markmiðið er að allar deildir félagsins noti kerfið en það mun gjörbreyta allri vinnu og utanumhaldi vegna deilda Hamars.  Kerfið bíður upp á greiðslur með kreditkortum og einnig er mögulegt að dreifa greiðslum yfir árið.  

Það er von okkar að þetta muni stórbæta vinnuumhverfi þjálfara  ásamt því að vera til mikilla hagsbóta fyrir foreldra og iðkendur.

En aðeins af starfi félagsins sl. mánuði.  Í sumar stóð Hamar fyrir leikjanámskeiði í samstarfi við bæjaryfirvöld.  Námskeiðið lukkaðist með eindæmum vel þetta árið og vill stjórn Hamars færa Maríu Kristínu Hassing og hennar dyggu aðstoðarmönnum þakkir fyrir framúrskarandi störf í sumar.

Haldin voru 2 strandblakmót í sumar á nýja vellinum við sundlaugina.  Blakdeild Hamars sá um skipulagningu og utanumhald mótanna. Völlurinn hefur sannað gildi sitt rækilega og voru iðkendur sem komu víða að himinlifandi með völlinn og ekki síður með staðsetninguna sem er einstök.

Hamarshöllin kemur vel út og hefur gjörbyllt allri aðstöðu til íþróttaiðkunar í Hveragerði.  Möguleikar við nýtingu húsins eru miklir og mikil aukning er á notkun húsins  milli ára.

Ég vil að lokum í upphafi vetrar hvetja sem flesta til að iðka þær íþróttir sem í boði eru hjá Hamri. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á www.hamarsport.is

Kveðja

Hjalti Helgason

Formaður Hamars