Um síðustu helgi fór fram Aldursflokkameistaramót Íslands (AMÍ) í sundi í Reykjanesbæ. Þar átti Sunddeild Hamars sinn fulltrúa sem var María Clausen Pétursdóttir, fyrsti sundmaður Hamars í allmörg ár til að synda á þessu móti.
María synti 100 m bringusund á 1:43,70 mín. og bætti sig þar um 3,59 sek. Hún synti einnig 100 m. skriðsund á 1:18,87 mín og bætti sig þar um 3,92 sek.
María hefur lagt mikinn metnað í æfingar sínar og hefur styrkst mikið í vetur og framistaða hennar og framkoma var til mikillar fyrirmyndar. Því má vænta mikils af henni á næsta keppnistímabili.
Á myndinni eru Hallgerður og Sara frá Selfossi og María sem er lengst til hægri. Þessar stúlkur voru glæsilegir fulltrúar Sunnlendinga á mótinu!

Björn Ásgeir Ásgeirsson hefur gengið til liðs við uppeldisfélag sitt Hamar en Björn kemur heim til Hveragerðis frá Selfyssingum þar sem hann lék í vetur og skilaði 7.2 stigum að meðaltali í leik. Tímabilið áður lék Björn Ásgeir með Vestra við góðan orðstír.

“Það er alltaf gaman að fá uppalda leikmenn heim og enn skemmtilegra þegar það eru góðir leikmenn sem munu hjálpa liðinu á báðum endum vallarins eins og Björn Ásgeir gerir” segir Máté Dalmay þjálfari Hvergerðinga.

Framherjinn Pálmi Geir Jónsson hefur samið við Hamar um að leika með liðinu á komandi tímabili í 1. deild karla. Kemur hann frá Þór Akureyri, sem sigraði deildina og leikur því í Dominos deildinni á næsta tímabili.

Hamar komst alla leiðina í úrslitaeinvígið, þar sem liðið tapaði fyrir Fjölni.

Pálmi er upprunalega úr Tindastóli, en ásamt Þór hefur hann einnig leikið með Breiðabliki og ÍR. Hann var á síðasta tímabili útnefndur í úrvalslið 1. deildarinnar á lokahófi Körfuknattleikssambandsins. Í 21 leik spiluðum á tímabilinu skilaði hann 15 stigum, 7 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Ragnar Jósef hefur gengið til liðs við Hamar eftir frábæran seinni hluta tímabils í fyrra með þeim bláu. Ragnar var á venslasamning frá Breiðablik eftir áramótin og skilaði að meðaltali 13.5 stigum á um 24 mínútum.

Ragnar hefur nú samið við Hamar um að ganga til liðs við félagið og ríkir að sögn þjálfara Hvergerðinga, Máté Dalmay mjög mikil ánægja í herbúðum félagsins.

Hérðasmót HSK í sundi fór fram þann 6. júní síðastliðinn hér í Hveragerði og mættu keppendur frá tveimur félögum til leiks, frá Hamri og Selfossi. Leikar fóru þannig að Selfoss vann liðakeppnina með 118 stig en Hamar fékk 84 stig.
Guðjón Ernst Dagbjartsson frá Hamri var stigahæsti sundmaðurinn með 21 stig en hann sigraði í 3 greinum.
Allir þátttakendur stóðu sig með miklum sóma og var gaman að sjá hve margir unnu persónulega sigra þarna á mótinu. Yngstu krakkarnir í Hamri voru mörg að stíga sín fyrstu skref á sundmóti og fengu þau öll þátttökuverðlaun. Þeir krakkar sem voru 11 ára eldir í Hamri syntu svo til stiga og fengu mörg verðlaun og sýndu miklar framfarir. Það verður gaman að fylgjast með öllum þessum frábæru krökkum í Hamri í náinni framtíð.
Sunddeild Hamars þakkar öllum þeim sem komu að þessu móti og lögðu hönd á plóginn, keppendur, sjálfboðaliðar og starfsmenn sundlaugarinnar í Laugaskarði.

Myndir frá mótinu má sjá á fésbókarsíðu Sunddeildar Hamars

https://www.facebook.com/sunddeildhamars/


Bjarni Rúnar Lárusson er kominn heim í Hamar eftir fjögurra ára veru fyrir Norðan með Þór Akureyri. Þór Akureyri unnu 1.deild karla í vetur en Bjarni spilaði tæplega 20 mínútur í leik og skilaði að meðaltali 6 stigum og 4 fráköstum.
Hamarsmenn bjóða Bjarna hjartanlega velkominn heim.

Landsmót UMFÍ 50+ verður að þessu sinni haldið í Neskaupstað dagana 28. – 30. júní. Mótið er blanda af íþróttakeppni og annarri skemmtun þar sem fólk á besta aldri hefur gaman saman. Mótið er opið öllum þátttakendum sem verða 50 ára á árinu og eldri. Keppt verður í 16 íþróttagreinum. Þar á meðal í boccía, golfi og pútti, línudansi ringó og pönnukökubakstri sem fyrir löngu er orðin klassísk grein. En nýjungar verða á mótinu eins og keppni í lomber, pílukasti og garðahlaupi sem er opið fyrir 18 ára og eldri. Ekki þarf að vera skráð/ur í íþrótta- eða ungmennafélag. Þátttökugjald á mótið er 4.900 krónur. Fyrir eitt gjald er hægt að skrá sig í margar greinar.

Nánari upplýsingar um keppnisgreinar og skráning á vefslóðinni: https://www.umfi.is/verkefni/landsmot-50plus/