Þjálfarar U15 ára liðanna hjá drengjum og stúlkum hafa valið sín 18 manna lokalið fyrir sumarið 2019. Haukur Davíðsson var valin að þessu sinni og mun hann taka þátt í verkefni sumarsins, Ísland sendi lið á á Copenhagen-Inviational mótið í Danmörku tvö níu manna lið hjá strákum og stúlkum. Mótið fer fram í Farum, Kaupmannahöfn dagana 21.-23. júní en hópurinn heldur út þann 20. júní.

Um helgina fór Unglingameistaramót Íslands fram í TBR húsunum við Gnoðavog. Þarna áttust við bestu badmintonkrakkar landsins og átti Hamar 10 keppendur af 143 og komust átta þeirra í undanúrslit og tveir keppendur í úrslit. Keppni var hörð og fóru margir leikirnir í oddalotur og var mikil barátta um að komast á verðlaunapall. 
Margrét Guangbing Hu sigraði í tvíliðaleik í flokknum U15 Meyjar, ásamt Maríu Rún Ellertsdóttur frá ÍA og sömueiðis fékk Margrét silfur í einliðaleik A-flokk U15 Meyjar. Úlfur Þórhallsson sigraði einliðaleik í flokknum U11 Snáðar. Innilega til hamingju með frábæran árangur krakkar.

Úlfur Þórhallsson
Margrét Guangbing Hu

Lokahóf kvennaliðs Hamars

Kvennalið Hamars hélt lokahóf sitt laugardaginn 23. mars. Liðið átti saman góðan dag og fór í Aeriel Yoga á Selfossi þar sem liðsmenn prófuðu ýmsar kúnstir í slæðunum og tóku svo góða slökun undir Gong hljómum. Að því loknu var haldið í sund og svo snæddu leikmennirnir saman humarsúpu að
hætti Fjöruborðsins og áttu saman góða kvöldstund.

Leikmenn í Aeriel Yoga á Selfossi

Að venju voru þeir leikmenn sem þóttu skara fram úr á tímabilinu heiðraðir.


Perla María Karlsdóttir var valin besti varnarmaðurinn.
Una Bóel Jónsdóttir var valin efnilegasti leikmaðurinn.
Álfhildur Þorsteinsdóttir var valin dugnaðarforkurinn.
Íris Ásgeirsdóttir var valin mikilvægasti leikmaðurinn.
Leikmennirnir fengu glæsilega verðlaunagripi sem Hafsteinn Þór hjá Steinasafninu Ljósbrá útbjó.

Vinningshafar kvöldsins frá vinstri, Perla María, Álfhildur Þorsteinsdóttir og Íris Ásgeirsdóttir. Á myndina vantar Unu Bóel

Liðið endaði tímabilið að þessu sinni í neðsta sæti 1.deildar, en liðið er í uppbyggingarferli og stefnir á stærri hluti á komandi árum. Liðið er eingöngu skipað leikmönnum af Suðurlandi og margir ungir og
efnilegir leikmenn stigu sín fyrstu skref í meistaraflokki á tímabilinu og fengu stór hlutverk. Leikmennirnir fengu mikilvæga reynslu sem mun vafalítið skila sér á næsta tímabili. Áfram verður lagt kapp á að byggja upp gott kvennalið á Suðurlandi og þá er mikilvægt að byggja vel á góðum
grunni. Góðir hlutir gerast hægt gæti átt við í þessu tilfelli sem og oftar. Áfram Hamar.

Stelpurnar í 8 flokk Hamar/Selfoss stóðu sig frábærlega um liðna helgi. Þær spiluðu í Hafnarfirði þar sem þær gerðu sér lítið fyrir og unnu alla sína leik. Þetta þýðir að þær eru komnar í A riðil sem í eru fimm bestu lið landsins og fá þar tækifæri til að keppa um íslandsmeistaratitilinn. Flottur árangur og vonandi bara byrjunin á nýrri gull öld í kvennakörfunni á Selfossi.

Guðlaugssundi 2019 er lokið!
Það voru sjö manns sem syntu að þessu sinni. 
Fimm fór heilt sund (6 km) og tveir fóru hálft!
Sara Ægisdóttir synti á bestum tíma 1:39,13 klst. sem er næst besti tíminn frá upphafi (2007).
Ægir Sigurðsson (faðir Söru) synti á 1:47,03 klst. 
Stefán Ólafsson synti á 1:55,47 klst. 
Guðjón Ernst Dagbjartsson synti á 1:58,00 klst. og María Clausen Pétursdóttir synti á 2:05,51klst.
Guðrún Ásta Ægisdóttir synti 4 km á 1:46,00 klst (3 km á 1:20,12 klst. og yngsti sundmaðurinn Guðjón Árnason synti 3 km á 1:17,20 klst.
Sundið gekk ljómandi vel, elsti sundmaðurinn var 40 ára og sá yngsti 13 ára.
Kunnum við sundfólkinu bestu þakkir fyrir!
Á myndinni er hluti af þeim sem syntu í dag: María, Sara, Stefán, Ægir og Guðrún Ágústa.

Íþróttafélagið Hamar í Hveragerði lauk nýverið við ráðningu á fyrsta framkvæmdastjóra félagsins. Eftir umsóknarferli var ákveðið að ráða Hafþór Vilberg Björnsson í starfið en Hafþór hefur um langt skeið verið virkur í flestum deildum Hamars og þekkir því starfsemi félagsins mjög vel. Hafþór er fæddur 1987 og er að ljúka B.Sc. námi í íþróttafræðum við Háskólann í Reykjavík og hefur margþætta reynslu úr félags- og íþróttastarfi, jafnframt því sem Hafþór hefur til þessa einnig sinnt sölu- og markaðsstörfum m.a. fyrir Ölgerðina. Hafþór hóf störf nú um nýliðin mánaðarmót, 1. mars.

Þetta er í fyrsta sinn sem Íþróttafélagið Hamar ræður framkvæmdastjóra og er því um að ræða mjög ánægjuleg tímamót í sögu félagsins. Til stendur að hafa fasta opnunartíma á skrifstofu félagsins, sem er í suðurenda Íþróttahússins í Hveragerði og verða þeir tímar auglýstir síðar. Vonir standa til þess að sterkt starf Íþróttafélagsins Hamars eflist á alla lund með tilkomu þess að framkvæmdastjóri hefji störf hjá félaginu. Aðalstjórn Hamars býður Hafþór innilega velkomin til starfans og hlakkar til samstarfsins, félaginu og félagsmönnum til heilla.