Dagbjartur Kristjánsson, hlaupari, var kjörinn íþróttamaður Hamars fyrir árið 2016 á aðalfundi félgasins sem haldinn var þann 27. febrúar s.l. Dagbjartur var tilnefndur af skokkhópi Hamars en hann hefur hlaupið með hópnum á undanförnu ári. Hann hefur náð afar góðum árangri í lengri hlaupum og á vafalaust mikið inni. Dagbjartur sem áður stundaði sund af kappi hefur nú hafið æfingar með frjálsíþróttadeild ÍR.

Eftirtaldir voru kosnir íþróttamenn sinnar deildar:
*Badmintondeild : Hrund Guðmundsdóttir
*Blakdeild : Hilmar Sigurjónsson
*Fimleikadeild: Erla Lind Guðmundsdóttir
*Knattspyrnudeild: Tómas Aron Tómasson
*Körfuknattleiksdeild: Snorri Þorvaldsson
*Sunddeild: Guðjón Ernst Dagbjartsson
*Hlaupari ársins: Dagbjartur Kristjánsson

Á aðalfundi Hamars var Lárus Ingi Friðfinnsson formaður og stofnandi körfuknattleiksdeildar Hamars, sæmdur gullmerki Hamars. Kom fram í máli formanns að Lárus hlyti gullmerkið fyrir áratuga ósérhlífið starf og einstaka elju við uppbyggingu og rekstur Körfuknattleiksdeildarinnar í Hveragerði.

Á aðalfundi Hamars lét núverandi formaður Hjalti Helgason af störfum sem formaður Hamars eftir 5 ára setu í embætti. Nýr formaður, Hallgrímur Óskarsson, var kjörinn á fundinum. Aðrir í stjórn Hamars eru Svala Ásgeirsdóttir, Dagrún Ösp Össurardóttir, Hjalti Valur Þorsteinsson og Daði Steinn Arnarsson.

Á Hlíðarenda héldu Hamarmenn í einvígi gegn liði Vals í kvöld. Valsmenn fyrir leikinn héldu í þá von um að ná efsta sæti deildarinnar en sú von varð veik eftir kvöldið. Valsmenn voru með 30 stig fyrir leikinn í þriðja sætinu en gátu með sigri jafnað lið Fjölnis, en þó búnir að leika einum leik minna. Hamarmenn með 18 stig í 5 sætinu.
Leikurinn fór fjörlega af stað og leiddu Hamarsmenn eftir 6 mín 14-15, þá tóku heimamenn áhlaup og staðan 23-15 heimamönnum í vil eftir fyrsta fjórðung.Valsmenn leiddu svo allan annan leikhlutann, en með góðum loka mínútum Hamars var munurinn þó aðeins tvö stig 44-42.
Valsmenn náðu svo að slíta sig aðeins frá gestunum og komust mest tíu stigum yfir 65-55. Hamarmenn lögðu þó ekki árar í bát og minnkuðu muninn aftur niður í 5 stig 67-62 eftir þrjá fjórðunga.
Fjórði leikhlutinn og þá er að duga eða drepast. Hamarmenn komu sterkari til leiks og náðu að leiða með 6 mín eftir 71-73, Valsmenn svöruðu 79-76. En næstu 5 stig voru frá Hvergerðingum og 79-81 staðan og ekki nema rétt rúmar tvær mínútur eftir. Valsmenn virtust hinsvegar ætla hirða stigin tvö því þeir svöruðu með tveimur þriggja stiga körfum og leiddu 85-81 þegar 40 sekúndur lifðu leiks. Hilmar Pétursson sýndi hvers hann var megnugur þegar hann minnkaði muninn í næstu sókn í eitt stig. Chris Woods skoraði síðan úr sniðskoti í næstu sókn og skyndilega Hamar í forustu 85-86 og 10 sek eftir. Valsmenn héldu í sókn og uppskáru tvö vítaskot með 5 sekúndur eftir. Það síðara geigaði og því þurfti að framlengja leikinn.
Í framlengingunni reyndust Hamarsmenn sterkari og fóru þeir heim með tvö stig í pokanum 96-98 lokatölur.
Chris Woods var í tröllaham í kvöld með algera töllatvennu 36 stig og 24 fráköst. Erlendur kom síðan með 25 stig, 5 stoð, og 5 fráköst, aðrir: Hilmar 19 stig, Oddur 9 stig, Rúnar 5 stig og 7 stoð, Smári 3 stig og Örn 2 stig.
Með sigrinum er 5 sætið nánast tryggt en Hamarliðið þarf að tapa öllum leikjum sínum sem eftir eru og FSu eða Vestri að vinna alla sína.

Næsti leikur er á fimmtudag í Hveragerði kl 19:15, þegar Lárus Jónsson mætir á sinn gamla heimavöll með lið Breiðabliks.

Mynd: Karfan.is

Hamarsmenn unnu auðveldan sigur á botnliði Ármanns í kvöld. Hamarsmenn mættu án Chris Woods í leikinn í kvöld sem fékk að hvíla fyrir leikinn sem er á Sunnudaginn gegn Val á Hlíðarenda. Hamarsmenn leiddu eftir fyrsta leikhluta 39-11 og var leikurinn strax búinn. Allir leikmenn liðsins komust á blað, en stigahæðstur var Erlendur Ágúst annan leikinn í röð með 21 stig. Næstur var milli nafni hans Guðjón Ágúst með 18 stig og 9 fráköst, Hilmar skoraði 10 stig ásamt Birni Ásgeiri, Smári 9 stig og 7 stoðsendingar, Bjarki, Örn og Diddi settu 8 stig en Diddi var einnig með 11 fráköst. Oddur og Rúnar Ingi settu 6 stig hvor og Arvydas var með 4 stig. Snorri var svo með 3 stig á þeim 2 mínútum sem hann lék. Lokastaðan í leiknum var 111-71. Sigurinn kemur Hamarsmönnum uppí 18 stig með fjórar umferðir eftir. Vestramenn anda svo í hálsmálið á Hamri með 16 stig, en þurfa þó að treysta á að Hamarsmenn tapi 2 leikjum útaf innbyrgðis viðureigninni. FSu eru svo með 14 stig en hafa leikið einum leik meira og þurfa því að vinna rest ætli þeir sér yfir Hamarsmenn í deildinni.
Næsti leikur er strax á Sunnudagskvöldið kl 19:30, en þar geta Hamarmenn gull tryggt 5 og síðasta sætið inní úrslitakeppnina.

Í gær var dregið í 8 – liða úrslitum Kjörísbikarsins og var karlalið Hamars í pottinum.

Svo fór að Hamar, sem er í toppbaráttunni í 1. og næstefstu deild, dróst á móti Aftureldingu sem er um miðja úrvalsdeild.

Það má því búast við hörku viðureign og aldrei að vita nema Hamar endi sem eitt af 4 liðum í Laugardalshöllinni á bikarhelgi BLÍ.

Leikurinn við Aftureldingu fer fram 9. mars kl. 20:00 í íþróttahúsinu við Skólamörk.

Á aðalfundi Blakdeildar Hamars þann 20.2.2017 var Hilmar Sigurjónsson heiðraður sem blakmaður ársins 2016.

Samhliða þjálfun kvenna- og karlaliða Hamars hefur Hilmar jafnframt lengst af leikið lykilhlutverk með karlaliðinu og verið, að öðrum leikmönnum ólöstuðum, lang besti leikmaður liðsins. Sem þjálfari er Hilmar skipulagður, áhugasamur og hvetjandi gagnvart breiðum hópi iðkenda, barna jafnt sem fullorðina, með misjafnan bakgrunn, reynslu og getu. Hilmar er liðsmaður góður, kappsamur og léttlyndur og góð fyrirmynd utan vallar sem innan. Hilmar á allan heiður skilið fyrir starf sitt, leik og veittan félagsskap hjá Hamri.

Hamarsmenn héldu í kvöld vestur á firði til þess að etja kappi við lið Vestra frá Ísafirði. Liðin voru jöfn að stigum í 5-6 sæti deildarinnar og búin að vinna sitthvorn leikinn í vetur. Innbyrgðis viðureignin undir og einnig kæmist sigurliðið í þægilega stöðu uppá framhaldið í baráttunni um fimmta og síðasta sætið í úrslitakeppnina.
Hamarsmenn mættu mun stemmdari til leiks og komust í 2-10 eftir tvær og hálfa mínútu. Vestramenn virtust slegnir útaf laginu og ógnuðu Hamarsmönnum aldrei eftir þetta. Hamarsliðið var að spila gríðarlega fallegan sóknarbolta og létu boltann ganga á milli manna þar til galopin skot fundust. Þeir pressuðu svo heimamenn stíft og uppskáru 19 stiga forskot að loknum 1.leikhluta 13-32.
Hlutirnir breytust lítið í öðrum leikhluta en þar skorðuð Vestramenn 12 stig gegn 26 frá Hamri og staðan í hálfleik 25-58. Erlendur var atkvæðamestur í fyrri hálfleik með 19 stig.
Hamarmenn jóku við forskotið og leiddu mest með 40 stiga mun áður en Vestramenn settu niður nokkur skot. Hamarmenn svöruðu hinsvegar bara aftur og Erlendur setti niður þrist undir lok leikhlutans staðan 45-84.
Fjórði leikhlutinn var því bara spilaður uppá formsatriðið þar sem útkoman var löngu ráðinn. Hamarmenn slökuðu aðeins á þeim leikhluta og unnu þeir hann með 7 stigum. Lokatölur leiksins voru því 65-111. Erlendur Ágúst var maður leiksins með 31 stig og 4 fráköst en allt liðið spilaði stórkostlega í kvöld.
Aðrir voru Chris Woods 28stig 8.fráköst, Örn 16 stig , Snorri 16 stig, 6 fráköst, Hilmar 7 stig, Oddur 4 stig 7 stoðsendingar 5 stolnir, Björn 4 stig, Smári 3 stig, Rúnar 2 stig 4 fráköst.
Hamarmenn eru því komnir með 8 sigra í deildinni og 11 töp. Vestramenn skilja þeir svo eftir með 7 sigra og 12 töp, og þurfa því Vestramenn að vinna tveimur fleiri leiki en Hamarmenn í síðust fimm útaf innbyrgðis viðureigninni. Nágrannar Hamars í FSu eru því þeir sem eiga hvað mestan séns í að ná 5 sætinu af Hamri en þau lið mættast einmitt í síðustu umferðinni 10.mars. Næsti leikur Hamars er hinsvegar eftir viku gegn botnliði deildarinnar Ármanni sem á enn eftir að vinna leik.

5.sæti Hamar 8-11  16 stig
6.sæti Vestri 7-12  14 stig
7.sæti FSu 7-13  14 stig
Umfjöllun: Ívar Örn
Mynd: Sunnlenska.is

Staða Hamarsliðanna sem taka þátt í Íslandsmótum á vegum Blaksambandsins með betra móti.

Hamar á 3 lið á Íslandsmótunum, karlalið í 1. og næstefstu deild og svo tvö kvennalið, einn í 2. deild og annað í 5. deild.

Karlaliðið er sem stendur í efsta sæti 1. deildar og stefnir hraðbyr í úrvalsdeild. Vestri frá Ísafirði sem er í 2. sæti, á þrjá leiki til góða og eru líklegir til að taka efsta sætið af okkar mönnum en 2 lið fara upp í úrvalsdeild að loknu tímabili.

 

Eftir aðra keppnishelgi í 2. deild kvenna er Hamar í 1. sæti með 28 stig og aðeins einn tapaðan leik af 11.  Fimmtán stig eru eftir í pottinum, eða 5 leikir og því ljóst að staða liðsins er góð fyrir lokaumferðina sem fram fer helgina 18. – 19. mars á Siglufirði.

5. deildar liðið stendur ekki alveg jafn vel að vígi. Liðið er rétt fyrir neðan miðja deild í 5. sæti af 8.  Sæti í 4. deild er úr augsýn en fall enn mögulegt þar sem 5 stig eru í fallsætið þegar 18 stig eru eftir í pottinum. Lokaumferðin í 5. deild fer einnig fram helgina 18. – 19. mars en í Garðabæ.