Björn Þór Jónsson hefur verið ráðinn þjálfari blakliða Hamars, kvenna og karla, veturinn 2012-2013. Björn Þór er Hamarsmönnum að góðu kunnur en hann hefur leikið með karlaliðinu undanfarin ár. Björn hefur þegar hafið störf og mikil gróska er þegar farin að sjást í starfi hans, þar sem mikil fjölgun iðkennda er í kvennaflokki deildarinnar. Býður blakdeild Hamars Björn Þór velkominn til starfa.

Nú eru æfingar að hefjast aftur hjá knattspyrnudeildinni eftir örlítið hlé. Enn er þó bið á því að hægt verði að æfa í Hamarshöllinni vegna framkvæmda sem eru í gangi innandyra. Vonir standa til þess að um næstu mánaðarmót verði hægt að byrja að æfa í Hamarshöllinni en þangað til verður íþróttahúsið við Skólamörk og Hamarsvöllurinn nýtt til þess. 

Þjálfarar yngri flokka verða þeir Ólafur Jósefsson og Sveinbjörn Jón Ásgrímsson sem er mikill fengur að fá fyrir iðkendur og aðstandendur knattspyrnudeildarinnar. 
Hér að neðan má sjá bráðabirgða æfingatöflu fyrir september og gildir hún þar til æfingar hefjast í Hamarshöllinni. Fyrstu æfingar samkvæmt töflunni hefjast fimmtudaginn 20. september. 

Vonumst til að sjá sem flesta á æfingum. 

Áfram Hamar!!! 

 

aefingatafla_i_september

Hamarsmenn lutu í lægra haldi fyrir Njarðvík á útivelli í dag 2-1. Þrátt fyrir tapið eru Hamarspiltar öruggir með sæti í 2. deild næsta tímabil því Fjarðabyggð tapaði einnig sínum leik og getur ekki náð okkar mönnum að stigum þegar einni umferð er ólokið því á milli liðanna skilja fimm stig. 

Leikurinn í dag var fjörugur og áttu okkar menn hættulegri færi fram að miðjum fyrri hálfleik og hefðu á venjulegum degi átt að vera búnir að setja eitt til tvö mörk á heimamenn. Liðsuppstilling dagsins var nokkuð óvenjuleg, Sene lék sem miðvörður við hlið Andy í fjarveru Ölla. Sene hafði sýnt ágætist tilþrif í vörninni allt þar til ógæfan dundi yfir, klaufalegt sjálfsmark Sene kom heimamönnum óverðskuldað yfir 1-0. Snérist þá leikurinn við og sóttu nú heimamenn í sig veðrið en þökk sé Bjössa í markinu hélst sú staða er flautað var til leikhlés. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, Hamar sterkari og skapaði sér betri færi. Ingvi Rafn jafnaði leikinn fyrir okkur á 61. mínútu eftir þunga sókn. Leikurinn var í járnum og mikið um baráttu á vellinum. Heimamönnum í Njarðvík tókst svo að komast aftur yfir á 83. mínútu eftir klaufagang í vörninni og héldu út til loka leiks. 

Þrátt fyrir tap í dag var mönnum létt því fregnir höfðu borist af tapi Fjarðabyggðar gegn Aftureldingu og sætið mikilvæga í 2. deild á næsta ári því tryggt. Eftir erfiða byrjun á Íslandsmótinu tókst strákunum því ætlunarverk sitt og mega þeir vel við una því deildin í ár hefur verið með þeim sterkustu í árabil. Framtíðin hjá Hamri er björt því í sumar hafa fjölmargir ungir heimamenn fengið að spreyta sig hjá meistaraflokknum og sumir fest sig í sessi sem byrjunarliðsmenn. Nú er að byggja á reynslu drengjanna og hópsins í heild því efniviðurinn og aðstaðan er svo sannarlega fyrir hendi. 

Framundan er lokaleikur Íslandsmótsins, gegn KF á Grýluvelli laugardaginn 22. sept. kl. 14:00, og um að gera að fjölmenna á völlinn til að samgleðast með strákunum og þakka þeim fyrir sumarið. Við taka spennandi tímar í vetur í nýju Hamarshöllinni og undirbúningur fyrir næsta tímabil. 

Áfram Hamar!!!

Ólafur Jósefsson, betur þekktur sem Óli Jó, hefur látið af störfum sem yfirþjálfari knattspyrnudeildar Hamars. Af því tilefni vill hann koma eftirfarandi tilkynningu á framfæri: 

Heil og sæl öll sömul. 

Ég er því miður hættur sem yfirþjálfari og því þurfa allar fyrirspurnir að beinast til Steinars formanns unglingaráðs og/eða annarra í stjórn eftir atvikum. Mailið hjá þeim er að finna hér og ég mun ekki heldur svara í síma knattspyrnudeildar frá og með morgundeginum. 

Æfingar mun hefjast fljótlega og vonandi verður fjölgun á iðkendum í öllum flokkum með stórbættri aðstöðu. Mig langar að þakka öllum stjórnarmönnum, foreldrum, iðkendum og öðrum ótöldum innilega fyrir samstarfið og samvinnuna og óska ykkur öllum alls hins besta í framtíðinni.

Bestu kveðjur, 
Óli Jó 

Fimleikar á haustönn 2012 munu hefjast laugardaginn 8. september samkvæmt stundaskrá. Þeir sem ekki hafa skráð sig geta gert það hjá Maríu Hassing yfirþjálfara með því að senda henni póst ámariahassing5@gmail.com eða skráð sig hjá henni á staðnum.