Meistaraflokkur Hamars spilaði sinn annann leik á undirbúningstímabilinu á Selfossvelli í gær. Spilað var við KFR og var þetta leikur í sunnlenska.is mótinu. KFR leikur í 3. deild, Hamar mun leika í 4.deild.

Í byrjun einkenndist leikurinn af löngum sendingum og miklum barningi. Hamarsmenn áttu erfitt með að halda boltanum innann liðsins, um miðjan fyrri hálfleik komust KFR yfir með góðu marki. Hamar fengu gott færi í fyrri hálfleik til að jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki. Langar sendingar og hraðir leikmenn KFR héldu áfram að valda Hamarsmönnum usla og náðu KFR að bæta öðru marki við fyrir hálfleik. Staðan var 0-2 í hálfleik. Í seinni hálfleik náðu Hamarsmenn að halda boltanum mun betur innann liðsins og voru þéttir fyrir í varnarlega. Hamar fengu nokkur ágætis færi til að laga stöðuna en eins og áður vildi boltinn ekki fara inn. KFR fengu líka sín færi en markalaust var í seinni hálfleik. Leikurinn endaði 0-2 fyrir KFR. Seinni hálfleikur var mun betur leikinn af hálfu Hamarsmanna og eru greinilega framfarir síðan úr síðasta leik. Það fengu allir 19 leikmenn liðsins tækifæri á að spreyta sig í leiknum.

Gaman er að segja frá því að það mættu 24 leikmenn á æfingu fyrir leikinn og voru þar að auki nokkrir fjarverandi að sökum meiðsla. Hópurinn hjá meistaraflokki er því orðinn stór og eru nánast allir Hvergerðingar! Æft er þrisvar í viku í Hamarshöllinni auk þess sem leikmenn mæta í Laugasport og æfa þar af krafti. Það verður gaman að fylgjast með strákunum í framhaldinu og er mikil stemmning innann hópsins.

Næsti leikur Hamarsmanna verður 15. Febrúar gegn Árborg í sunnlenska.is mótinu.