Ný stjórn yngri flokka knattspyrnudeildar Hamars tók til starfa í byrjun árs.

Í vetur hafa æfingar gengið vel í Hamarshöllinni þrátt fyrir nokkrar mannabreytingar í þjálfaramálum. Stjórnin setti sér það markmið að ná að skrá kvennalið á Íslandsmót sem hafðist en það hafði ekki tekist í nokkurn tíma. Það er markmið nýrrar stjórnar að efla kvennaboltann til mikilla muna næstu misseri.

Sú nýbreytni átti sér stað í vetur að meistaraflokkur bauð öllum yngri flokka iðkendum á æfingu. Það var spilað farið í leiki og myndaðist mikið fjör í Hamarshöllinni. Æfingin endaði svo með flottri grillveislu.

Það var einnig markmið stjórnar að skrá alla flokka á Íslandsmót og yngstu flokkana á alla vega eitt stórt mót, ásamt öðrum dagsmótum. Liðin stóðu sig mjög vel á þeim mótum sem farið var á. Meðal annars lenti 6. flokkur í 3. sæti á Smábæjarleikunum á Blönduósi nú í sumar. Sameiginlegt lið Hamars/Ægis fékk verðlaun fyrir góða framkomu innan sem utan vallar á N1 mótinu á Akureyri. Í kringum stóru sumarmótin voru stofnuð foreldraráð sem voru skipuð áhugsasömum og duglegum foreldrum iðkenda og viljum við þakka þeim fyrir frábært starf. Foreldraráðin héldu utan um fjáraflanir fyrir mótin og var meðal annars seldur áburður sem sló í geng. Þeir iðkendur sem tóku þátt náðu að safna fyrir mótsgjöldum. Stefnt er að því næsta vor að halda áburðarsölu áfram.

Í júlí hefur knattspynudeildin haldið úti Knattspyrnuskóla fyrir börn fædd 2007-2008 í umsjón Ágústar Ö. Magnússonar (Ölla) og börn fædd 2001-2006 í umsjón Höllu Karenar Gunnarsdóttur og Sigurðar Gísla Guðjónssonar. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og stefnt er að því að vera með knattspyrnuskólann aftur næsta sumar.

Eitt af þeim markmiðum sem ný stjórn setti sér var að allir iðkendur yngri flokkanna fengu hettupeysur að gjöf frá deildinni. Stjórnin lagðist á eitt að safna auglýsingum á peysurnar og gekk það framar vonum. Stjórnin vill koma á framfæri góðum þökkum til þeirra fyrirtækja sem styrktu þetta verkefni. Iðkendur fengu peysurnar afhentar í byrjun júní og voru því allir klæddir fínu Hamarspeysunum á mótum sumarsins.

Næsta vetur verður ráðinn yfirþjálfari hjá knattspyrnudeildinni sem mun sjá um þjálfun allra flokka og mun hann hafa með sér einn aðstoðarþjálfara. Fyrstu æfingarnar munu hefjast kl. 13:00 í Hamarshöllinni og munu yngstu iðkendurnir fá fyrsta æfingatímann til þess að tengja starfið sem best við skólasel. Stefnt er að því að hafa námskeið í vetur ef áhugi er fyrir hendi svo sem markmannsþjálfun og spyrnutækni. Á vorin verða ráðnir fleiri þjálfarar undir umsjón yfirþjálfara en þeir munu sjá um einn til tvo flokka hver og fylgja þeim á mót. Allt þetta er gert til þess að fá markvissari þjálfun og nýta Hamarshöllina sem best.

Það von okkar í stjórn yngri flokka knattspyrnudeildar Hamars að þeir iðkendur sem nú eru skráðir haldi áfram að æfa af krafti næsta vetur og enn fleiri bætist í góðan hóp.

Með knattspyrnukveðju,

stjórn yngri flokka knattspyrnudeildar Hamars,

Ævar Sigurðsson

Þorsteinn T. Ragnarsson

Arnar Stefánsson

Þorkell Pétursson

Matthías Þórisson

Elínborg María Ólafsdóttir