Á árlegum blaðamannafundi Blaksambands Íslands, sem fram fór í hádeginu í dag, var úrvalslið fyrri hluta tímabilsins opinberað. Kosið var rafrænt og voru það þjálfarar og fyrirliðar liðanna sem kusu úrvalsliðið þegar deildarkeppnin er rétt um hálfnuð.

Valdir voru 7 leikmenn og þjálfari fyrri umferðar og voru 5 leikmenn Hamars í liðinu, einn frá Vestra og einn frá HK auk þjálfara.

Liðið var svona skipað; Hafsteinn Valdimarsson, Kristján Valdimarsson, Ragnar Ingi Axelsson, Wiktor Mielczarek og Damian Sapor, allir úr Hamri. Hristiyan Dimitrov úr HK og Carlos Eduardo Rangel Escobar úr Vestra og þjálfari liðsins er Massimo Pistoia þjálfari HK.

Blaksamband Íslands tilkynnti um val á blakmanni og blakkonu ársins 2021 í hádeginu í dag á árlegum blaðamannafundi sambandsins í höfuðstöðvum ÍSÍ.

Ragnar Ingi Axelsson, leikmaður Hamars var valinn Blakmaður ársins 2021. Hamar óskar Ragnari innilega til hamingju með nafnbótina enda er hann vel að henni kominn. Hér fyrir neðan má sjá umsögn Blaksambandsins um Ragnar.

“Ragnar hóf sinn blakferil, líkt og margir aðrir, í Neskaupstað. Í fyrra gekk Ragnar til liðs við nýliða Hamars í Úrvalsdeild karla og spilaði lykilhlutverk í liðinu, vann alla þrjá stóru titlana sem í boði voru á tímabilinu en Hamar varð deildar-, Íslands- og bikarmeistari í vor. Ragnar var valinn í lið ársins í uppgjöri Úrvalsdeildar að keppnistímabilinu loknu. 

Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður Úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð. 

Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.”

Blakkona ársins var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir en frétt BLÍ af valinu má nálgast hér.

Wiktor Mielczarek, einn besti leikmaður úrvalsdeildarliðs Hamars í blaki, mun ekki leika með liðinu eftir áramót.

Eftir frábæra frammistöðu með Hamri síðastliðið eitt og hálft tímabil, tókst Wiktor að tryggja sér samning hjá liði í næst efstu deild í Póllandi.

Wiktor hefur aðlagast lífinu fyrir austan fjall vel, bæði innan og utan vallar. Hans verður sárt saknað það sem eftir lifir tímabils en félagið óskar honum alls hins besta í komandi verkefnum en hann er jafnframt ávallt velkominn aftur.