Í gær fór fram hið árlega páskasund hjá sunddeildinni. Það var líf og fjör í sundlauginni í Laugaskarði á meðan það fór fram og skemmtu allir sér konunglega. Hápunkturinn var auðvitað happadrættið en þá eru nöfn iðkenda sett í pott og einn heppinn dreginn út sem hlýtur stórt páskaegg. Í ár var það Sigríður Kristín sem hlaut það. Hinir fóru þó ekki tómhentir heim eftir æfinguna því allir fengu páskaegg að gjöf. Sunddeildin óskar iðkendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska. Næsta sundæfing verður á venjubundnum tíma þriðjudaginn 3. apríl.

 

Aðalfundur Sunddeildar Hamars var haldinn þann 8. febrúar. Þar var sundmaður ársins 2017 kynntur og var það María Clausen Pétursdóttir sem hlaut þann titil. Vilhelmína Sigurðardóttir fékk viðurkenningu fyrir góðar framfarir og ástundun. Við óskum þeim til hamingjum með viðurkenningarnar.

Breytingar urðu á stjórn en Stella Hrönn Jóhannsdóttir lét af störfum sem formaður og við henni tók Sigurbjörg Hafsteinsdóttir. Aðrir í stjórn héldu áfram störfum, þau Björg Hjördís Ragnarsdóttir sem gjaldkeri og Pétur Guðmundsson meðstjórnandi.
Við þökkum Stellu Hrönn innilega fyrir samstarfið í gegnum árin sem og hennar góða starf sem hún hefur innt af hendi fyrir sunddeildina.

 

Á aðalfundi körfuknattleiksdeildar Hamars sem haldin var um miðjan febrúar 2018 voru samþykkt lög körfuknattleiksdeildar Hamars. Lögin eru unnin upp úr lögum íþróttafélags Hamars en eru þó aðlöguð að sérþörfum kkd Hamars. Helstu breytingar eru að nú er bundið í lög körfuknattleiksdeildar að ef haldið er úti meistaraflokki hjá félaginu skal vera starfandi sérráð fyrir þann meistaraflokk, sitthvort kynið. Ráð meistarflokka fer með daglegan rekstur viðkomandi meistarflokks og sér um fjármál viðkomandi flokks ásamt þvi að ráða þjálfara fyrir sína flokka. Áfram er þó starfandi stjórn körfuknattleiksdeildar sem hefur yfirumsjón með öllu starfi körfuknattleiksdeildar Hamars.