Nýkrýndir bikar- og deildarmeistarar Hamars og Vestri frá Ísafirði, áttust við í dag í fyrri leik liðanna þessa helgi.

Damian Sapor uppspilari Hamars kenndi sér meins í baki í upphitun og þurfti Radek þjálfari að gera breytingar á byrjunarliðinu.

Hamarsmenn áttu í kjölfarið erfitt í fyrstu hrinu sem tapaðist 25-16 og ljóst að mikið þyrfti til að bikarmeistararnir næðu að snúa leiknum aftur sér í hag.

Það kraftaverk kom þegar það losnaði um bakið á Damian sem mætti á völlinn í annari hrinu. Hamarsmenn fóru þá að sýna sitt rétta andlit og fór svo að hrina 2 vannst 25-20, þriðja hrina 25-17 og sú fjórða 25-18 og leikurinn þar með 3-1.

Maður leiksins var Jakub en hann var stigahæstur Hamarsmanna og hljóp auk þess í skarðið í uppspilinu fyrir Damian í fyrstu hrinu.

Seinni leikur liðanna fer fram á morgun kl. 13:00 en það er jafnframt síðasti leikur Hamars í deildinni en liðið tryggði sér deildameistaratitilinn í vikunni með sigri á Aftureldingu.