Það hefur verið líf og fjör í sundlauginni Laugaskarði í sumar á sundnámskeiðum sunddeildarinnar. Að venju hefur Magnús Tryggvason séð um námskeiðin og lætur nærri að hátt í hundrað börn hafi æft sundtökin hjá honum í sumar. Magnús segir að námskeiðin hafi gengið vel fyrir sig og krakkarnir staðið  sig sérstaklega vel og verið áhugasöm. Aðspurður hvort veðrið hafi ekki sett strik í reikninginn segir Maggi það ekki koma að sök enda hvergi betra að vera í rigningu en ofan í sundlauginni. Hann hvetur krakka sem verið hafa á námskeiðum hjá honum að koma á sundæfingar í vetur.